17. júní flaggstöngin

17. júní flaggstöngin

Skrúðgarðurinn í Keflavík.

Á fyrsta ári lýðveldisins var ákveðið að gera myndarlega fánastöng í Skrúðgarði Keflavíkur til minningar um lýðveldistökuna 17. júní 1944.

Séra Eiríkur Brynjólfsson á Útskálum vígði svo stöng á þjóðhátíðardaginn 1945 sem síðan var lengd og settur undir hana hærri fótstallur. Nú er heildarlengd stangarinnar með fótstalli um 17,5 metrar. Hönnuður fótstallsins var Helgi S. Jónsson og Sævar Helgason gerði landvættirnar eftir teikningum Helga. Framan á miðjum stöplinum sem snýr að Suðurgötu eru stafirnir 17. júní 1944 og á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn er lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Á hverju horni eru súlur sem gnæfa upp fyrir stöpulinn og eiga að minna okkur á festu og óbilandi hugrekki þjóðarinnar og einnig tákna þær keflin sem staðurinn Keflavík heitir eftir. Út frá hverjum stöpli rísa svo landvættir Íslands.

Umhverfis stöpulinn er steypt blómaker sem táknar fósturjörðina og þar skal plantað hreinblárri íslenskri fjólu með umgjörð úr hreinhvítum lágum kantblómum; tákn hreinleikans og bláhvíta íslenska fánans í upphafi aldarinnar. Á þessa stöng skal þjóðfáninn dreginn að húni 17. júní ár hvert og ekki við önnur tækifæri. Þessi regla hefur þó verið brotin í þrjú skipti, eða þegar forsetar lýðveldisins hafa komið í opinbera heimsókn til Keflavíkur.

Ábyrgðaraðili: Umhverfissvið Reykjanesbæjar