Aðeins gerð krafa um viðurkenndar sundbuxur í sundlaugum Reykjanesbæjar

Karl- og kvenkyns sundlaugargestir í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar.
Karl- og kvenkyns sundlaugargestir í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar.

Kvenkyns sundlaugargestum er ekki meinað að vera berum að ofan frekar en karlkyns sundlaugargestum í sundlaugum Reykjanesbæjar. Reglur eru þó í gildi um viðurkenndan sundfatnað, að sögn Hafsteins Ingibergssonar forstöðumanns.

Sitt sýnist hverjum um berbrjósta konur í sundlaugum og hafa umræður verið heitar um það mál eftir atvik í sundlaug á Akranesi sl. föstudag. Konur hafa að undanförnu barist fyrir auknu kynjajafnrétti með frelsun geirvörtunnar (e. free the nipple) og verið berbrjósta á stöðum þar sem ekki hefur þótt tiltökumál að sjá karlmenn bera að ofan.

Hafsteinn Ingibergsson forstöðumaður sundlauga Reykjanesbæjar segir viðhorfið hafa breyst hjá yfirstjórn og starfsfólki sl. sumar þegar kvenkyns sundlaugargestur kom ber að ofan í sundlaugina en var góðfúslega bent á að þetta væri bannað. Gesturinn hafi hins vegar svarað því til að sú regla væri hvergi sjáanleg á staðnum og því væri ekki hægt að banna henni að vera berri að ofan. „Við höfum ekki staðið í vegi fyrir því síðan og leyfum sundlaugargestum að vera eingöngu í viðurkenndum sundbuxum, af hvaða kyni sem þeir eru.“