Ljósanætursýningar í Duus Safnahúsum

Listasafn Reykjanesbæjar og Norræna húsið í Færeyjum verða í samstarfi með stóra ljósmyndasýningu sem haldin verður á Ljósanótt 2018 í nokkrum sýningarsölum Duus Safnahúsa. Færeyingar leggja til sýninguna „Föroyar i et år“ sem samanstendur af rúmlega 600 ljósmyndum sem íbúar eyjanna tóku og lýsa daglegu lífi þeirra í eitt ár á sama tíma. Hún verður í Bíósal Duus Safnahúsa. Ljósmyndasýningin „Eitt ár á Suðurnesjum“ verður opnuð í Listasal Duus Safnahúsa.

 Listasafn Reykjanesbæjar bauð í upphafi árs öllum þátttöku í Ljósanætursýningu safnsins, „Eitt ár á Suðurnesjum“, Lagt var upp með spurninguna "Hvað hefur gerst á árinu?" og fólk beðið að safna saman ljósmyndunum af alls kyns tilefnum sem teknar voru á Suðurnesjum á tímabilinu 17. júní 2017 til 17. júní 2018.

 Hver og ein myndanna segir sína sögu af lífi þátttakenda á árinu og saman segja allar innsendar myndir, allra þátttakenda eina góða sögu af daglegu lífi á Suðurnesjum. Skilafrestur var til 1. júlí 2018. Allar innsendar myndir verða sýndar á Ljósanætursýningunni, þær bestu útprentaðar en hinar á skjám.

 Góð þátttaka var í keppninni og verður mjög spennandi að sjá afraksturinn á Ljósanætursýningu Listasafnsins 2018 sem opnuð verður þann 30. ágúst n.k.

Aðrar sýningar í Duus Safnahúsum eru:

Súlan - Menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar eru veitt árlega einstaklingum eða fyrirtækjum sem unnið hafa vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Verðlaunagripurinn er eftir Elísabetu Ásberg og ber heitið Súlan.
Menningarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum í apríl 2018 að gerð yrði eftirmynd af Súlunni og listaverkið sett upp í nágrenni Duus Safnahúsa í tilefni afmælis þriggja menningarstofnana bæjarins. Bókasafn Reykjanesbæjar varð 60 ára á árinu, Byggðasafn Reykjanesbæjar 40 ára og Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna og verður verkið sett upp við suðurgafl Duus Safnahúsa.

Svo miklar drossíur - Stofan

Silver Cross barnavagnar hafa verið vinsælir á Íslandi í langan tíma. Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Thelmu Björgvinsdóttur, sem hefur rannsakað og kynnt sér sögu vagnanna hér á landi. Á sýningunni verður fjöldi glæsilegra vagna frá ýmsum tímum, auk fjölda ljósmynda af vögnum í notkun.

Endalaust- Gryfjan

Sýningin Endalaust inniheldur einungis verk úr endurunnum efnivið.
Um er að ræða fjölbreytt og ólík viðfangsefni og alls 20 hönnuðir taka þátt í sýningunni. Endalaust er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og HANDVERKS OG HÖNNUNAR. Sýningarstjóri er Ragna Fróða.
Í tengslum við sýninguna verða haldnar tvær vinnustofur fyrir almenning dagana 15. september (Handaband) og 6. október ( Þráðlausar). Vinnustofurnar verða kl. 14-16. Sýningin er jafnframt skólasýning allra grunnskóla haustið 2018.

Sýnendur á sýningunni ENDALAUST:

AFTUR
Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir
Ásthildur Magnúsdóttir
Dögg Guðmundsdóttir
Flétta
Friðbjörg Kristmundsdóttir
Guðrún Borghildur Ingvarsdóttir
Handaband
Helga Mogensen
Kristín Sigfríður Garðarsdóttir og Áslaug Snorradóttir
Magna Rún
Olga Bergljót
Ólöf Erla Bjarnadóttir
Studio Portland
Studio Trippin
Unnur Karlsdóttir - Ljósberinn
USEE STUDÍO
Vala Sigþrúðar Jónsdóttir
Ýrúrarí
Þráðlausar