Nýjar sýningar í Duus Safnahúsum

Síðasta sýningarhelgi 11.-13. janúar 2019.

Þann 16. nóvember verða nýjar sýningar opnaðar í Duus Safnahúsum. Tveimur þeirra verður gerð skil hér en um 40 ára afmælissýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar, Við munum tímana tvenna, má lesa í öðru skjali.

Líkami, efni og rými

Á sýningunni LÍKAMI, EFNI og RÝMI eru leiddar saman myndlistakonurnar Eygló Harðardóttir, Ólöf Helga Helgadóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Það sem helst tengir þær saman er afar sterk tilfinning fyrir efniskennd og hvernig verk þeirra hverfast um lögmál myndlistar, forma, lita, rýmis og tíma. Þær eiga það sameiginlegt að taka fundið efni í fóstur og nýta það sem uppsprettu hugmynda. Pappír er ríkjandi í verkum þeirra allra, en nálgunin við efnið er afar ólík.

Í verkum Eyglóar sem rannsakað hefur virkni lita, hefur jaðar efnisins jafn mikið gildi og miðjan og má oft greina smit lita í umhverfinu þar sem verkin eru sýnd. Í verkum Ólafar Helgu eru samsetningar og huglægar tengingar á skjön við það sem búast má við. Efnið sem hún notar sem uppistöðu í verk sín hefur sögulega merkingu sem er mjög persónuleg, en í höndum hennar umbreytist það í þekkjanlega hluti. Verk Sólveigar tengjast hugmyndafræðilegri list. Hún hefur í sumum tilfellum kortlagt umhverfi sitt og minningar með líkamlegum mælieiningum. Verk Sólveigar tengjast kjarna efnisins, miðju rýmisins og hafa sterk tengsl við tímann.

Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir og hún og listakonurnar verða með leiðsögn sunnudaginn 25.nóvember kl. 15.00. Sýningin stendur til 13. janúar 2019 og safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00.

Með því að smella á þennan tegnil má lesa nánar um sýninguna.

Ljós og náttúra Reykjanesskaga

Á sýningunni má sjá ljósmyndir sem sýna landslag og náttúru Reykjanesskagans. Myndirnar voru teknar á mismunandi árstíðum og tímum dags á síðustu tveimur árum. Höfundurinn Jón Hilmarsson stefnir að útgáfu ljósmyndabókar næsta vor og verða þessar myndir í þeirri bók sem kemur til með að dekka allt Ísland. Boðið verður upp á samtal við ljósmyndara 21. nóvember á opnunartíma safnsins.