Sýningin Þó líði ár og öld stóð í fullum skrúða á Rokksafni Íslands frá nóvember árið 2016 þar til í maí 2018. Sýningunni var þó aldrei lokað í heild sinni en í dag má enn finna stórglæsilegt gítarsafn Björgvins Halldórssonar frá sýningunni sem telur eina 40 gítara. Þá er hægt að hlusta á Björgvin segja sögur frá ferlinum og aðra segja sögur af honum, horfa á viðtöl, heimildamyndir og ýmis myndbrot frá ferli Björgvins með hjálp gagnvirkrar miðlunar. 

 Eins og flestum er kunnugt er Björgvin landsþekktur söngvari og hefur sungið með hljómsveitum eins og Bendix, Flowers, Ævintýri, Hljómum, Brimkló, Change, HLH flokknum, Ðe lónlí blú bojs og mörgum fleiri.Björgvin hefur líka sinnt ýmsum störfum tengdum tónlist og fjölmiðlum í gegnum tíðina og má til dæmis nefna að hann starfaði sem markaðsfulltrúi á Íslensku auglýsingastofunni um tíma, var útvarpsstjóri Stjörnunnar og Bylgjunnar, framleiðandi og sjónvarpsstjóri Bíórásarinnar sem og verið rödd Stöðvar 2 um árabil. Einnig hefur Björgvin verið útgefandi, upptökustjóri, sinnt stjórnunarstörfum hjá hinum ýmsu fagfélögum tónlistarmanna og verið markaðsstjóri á veitingahúsinu Broadway.