Hljómlist án landamæra

Hljómlist án landamæra er hluti af listahátíðinni List án landamæra sem er hátíð fjölbreytileika. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa tekið þátt í hátíðinni síðan 2009 með fjölbreyttum verkefnum. 2016 voru í fyrsta sinn haldnir stórtónleikarnir Hljómlist án landamæra í vöggu popptónlistarinnar, Stapanum. Tónleikarnir hafa tekist frábærlega og því endurtökum við leikinn.

Markmið Listar án landamæra er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Við viljum koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni.Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum.

Hátíðin var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og hefur verið haldin árlega síðan. Hátíðin hefur breyst og þróast ár frá ári og fleiri eru að verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu, bæði þátttakendur og njótendur. Hátíðin hefur stuðlað að samvinnu við listasöfn, starfandi listafólk, leikhópa og tónlistarfólk svo eitthvað sé nefnt.