Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, er veitt árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem unnið hefur vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Menningarráð Reykjanesbæjar tekur ákvörðun um verðlaunahafann að undangenginni auglýsingu þar sem óskað er eftir tillögum frá bæjarbúum.

Verðlaunagripurinn Súlan

Súlan var upphaflega í formi grips sem listamaðurinn Karl Olsen úr Reykjanesbæ hannaði og smíðaði. Má þar sjá fuglinn Súlu, sem er í merki bæjarins, gerða úr málmi, og er hún fest á stein úr landi Reykjanesbæjar. Árið 2005 hannaði listakonan Elísabet Ásberg nýjan grip. Þar má einnig sjá Súluna en nú aðeins sem höfuð smíðað úr silfri og fest á lítinn stöpul úr steini. Einnig er afhent undirritað og innrammað verðlaunaskjal.