Safnahelgi á Suðurnesjum

Ákveðið hefur verið að fresta Safnahelgi á Suðurnesjum um óákveðinn tíma vegna COVID-19 veirunnar. Safnahelgi átti að fara fram helgina 14. og 15. mars næstkomandi þar sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum veita ókeypis aðgang í öll söfn á svæðinu. Í fyrra sóttu um 10.000 manns viðburðinn og því brugðu menningarfulltrúar Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Voga og Suðurnesjabæjar á það ráð að fresta Safnahelgi að sinni. Ekki þótti ráðlegt að stefna fólki saman þegar svo mikið óvissuástand ríkir í þjóðfélaginu.
Mikil hefð hefur myndast fyrir Safnahelgi sem haldin hefur verið ellefu sinnum og er hætt við því að gestir muni ekki njóta þeirra menningaviðburða sem í boði eru eins og best verður á kosið. Ný dagsetning verður því kynnt síðar en hægt verður að fylgjast með stöðu mála á vefsíðunni safnahelgi.is.

Söfn á Suðurnesjum bjóða í tólfta sinn upp á sameiginlega dagskrá helgina 14. – 15. mars n.k.  og kallast þessi árlegi viðburður Safnahelgi á Suðurnesjum. Markmiðið hefur frá byrjun  verið að kynna fyrir landsmönnum hin fjölbreyttu söfn og sýningar sem sveitarfélögin á Suðurnesjum bjóða upp á.  Þetta er liður í menningarferðaþjónustu svæðisins og upplagt fyrir íbúa höfuðborgarinnar að renna í bíltúr hingað suður eftir um helgina og upplifa eitthvað af því fjölmarga sem hér verður í boði. Íbúar Suðurnesja eru að sjálfsögðu líka hvattir til að kíkja við og endilega að taka með sér gesti.  Söfn, setur og sýningar á svæðinu eru mörg og fjölbreytt og margir skemmtilegir viðburðir verða á döfinni. Athygli er vakin á því að ókeypis er inn á öll söfnin að þessu tilefni og um leið á þá dagskrá sem er í boði á hverjum stað nema annað sé tekið fram.  Sveitarfélögin  fimm á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af  Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Sjá má alla dagskrána á safnahelgi.is.