TónlistarskólI Reykjanesbæjar, í samstarfi við Óperufélagið Norðuróp, setur upp söngleikinn „Fiðlarinn á þakinu“ eftir Jerry Bock við texta Sheldon Harnick. Tilefnið er 20 ára afmæli Tónlistarskóla Reykjanesbæjar 1. september 2019, en þess má geta að Óperufélagið Norðuróp verður einnig 20 ára á árinu 2019.

Fiðlarinn á þakinu er einn vinsælasti og elskaðasti söngleikur allra tíma og er sýndur reglulega um allan heim. Hann átti lengi vel aðsóknarmet og var vinsælasti söngleikur hérlendis þegar hann var síðast settur upp í heild sinni, með hljómsveit og öllu tilheyrandi, fyrir nokkrum áratugum.

Söngleikurinn segir frá Tevje mjólkurpósti, fjölskyldu hans og samferðafólki í litla þorpinu Anatevka í Rússlandi árið 1905. Í Anatevka eru siðvenjur og hefðir fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem þurfa eiginmenn. Jenta hjúskaparmiðlari gerir sitt besta til að bjarga því, en hlutirnir fara á annan veg en foreldrarnir ætluðu. 
Fiðlarinn á þakinu er fjörugur, hjartnæmur og á köflum alvarlegur söngleikur, en fyrst og fremst fyndinn og stór skemmtilegur, og  tónlistin er grípandi. T.il að mynda þekkja allir lögin „Ef ég væri ríkur“ og „Sól rís, sól sest“.

Söngleikurinn verður fluttur í Stapa, Hljómahöll, með hljómsveit, leikmynd, búningum og leikhúslýsingu. Flytjendur eru nemendur og kennarar Söngdeildar skólans ásamt söngvurum úr kórum í Reykjanesbæ og börnum úr bæjarfélaginu. Einnig munu nokkrir söngnemendur úr öðrum tónlistarskólum á Suðurnesjum leggja okkur lið, því nauðsynlegt er að hafa 2 sýningarhópa.

Hljómsveitin verður skipuð nemendum og kennurum Tónlistarskólans. Hljómsveitarstjóri er Karen J. Sturlaugsson og leikstjóri Jóhann Smári Sævarsson.

Sýningar verða sem hér segir: 15. nóv.: Frumsýning/Afmælissýning. 16. nóv.: 2. sýning. 17. nóv.: 3.  sýning.