Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, afhent og opnun þriggja nýrra sýninga

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, er veitt árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem unnið hefur vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Menningarráð Reykjanesbæjar tekur ákvörðun um verðlaunahafann að undangenginni auglýsingu þar sem óskað er eftir tillögum frá bæjarbúum.

Við sama tilefni verða 3 nýjar sýningar opnaðar:

Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna "Líkami, efni og rými" þar sem myndlistakonurnar Eygló Harðardóttir, Ólöf Helga Helgadóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir eru leiddar saman. Þær hafa allar unnið lengi að list sinni og sýnt víða, bæði innan lands og utan. Það sem helst tengir þær saman er afar sterk tilfinning fyrir efniskennd og hvernig verk þeirra hverfast um lögmál myndlistarinnar; forma, lita, rýmis og tíma. Pappír er ríkjandi í verkum þeirra allra, en nálgunin við efnið er afar ólík hjá hverri og einni. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir og hún og listakonurnar verða með leiðsögn sunnudaginn 25.nóvember kl. 15.00. Sýningin stendur til 13. janúar 2019. 

Byggðasafn Reykjanesbæjar opnar 40 ára afmælissýningu, "Við munum tímana tvenna."
Á sýningunni er farið yfir tildrög og sögu safnsins og vakin athygli á mikilvægu starfi Byggðasafnsins í veröld og samfélagi sem breytist ört. Það fennir fljótt í sporin, en hlutverk Byggðasafnsins er að muna tímana tvenna og halda utan um söguna og fræða nútímann og komandi kynslóðir um fortíðina.  
Reykjanesbær býr yfir sérstæðri sögu, þar sem einmitt má greina afar skörp skil á milli tveggja tíma; annars vegar höfum við fiksibæina sem byggðu allt sitt á fangbrögðum við hafið og hins vegar langa sögu varnarliðsins sem nágranna innan girðingar og uppbyggingu alþjóðaflugvallar.
Sýningastjóri: Eiríkur Páll Jörundsson
Sýninganefnd: Eiríkur Páll Jörundsson, Hulda Björk Þorkelsdóttir,  Haraldur Haraldsson, Oddgeir Karlsson og Helgi Valdimar Viðarsson Biering.

Í Bíósal opnar sýning á ljósmyndum Jóns Rúnars Hilmarssonar, "Ljós og náttúra Reykjanesskaga."
Á sýningunni má sjá ljósmyndir sem sýna landslag og náttúru Reykjanesskagans. Myndirnar voru teknar á mismunandi árstíðum og tímum dags á síðustu tveimur árum. Höfundurinn Jón Hilmarsson stefnir að útgáfu ljósmyndabókar næsta vor og verða þessar myndir í þeirri bók sem kemur til með að dekka allt Ísland. Boðið verður upp á samtal við ljósmyndara 21. nóvember á opnunartíma safnsins.

Mynd: Víkurfréttir