Jóga- og núvitund við göngustíga

Á vormánuðum árið 2020 fékk leikskólinn Gimli styrk frá Nýsköpunar – og þróunarsjóði Reykjanesbæjar fyrir verkefnið Jóga og núvitund í vettvangsferðum. Verkefnið fór af stað með nemendum og kennurum skólans þá um haustið. Hugmyndin að verkefninu kviknaði út frá jógastundum sem hafa verið á Gimli frá árinu 2007. Ræktuð er vitund um andlegt og líkamlegt heilbrigði ásamt því að efla einstaklings- og félagsfærni nemenda.

Við þróun verkefnisins var mikilvægt að finna leiðir til að vekja áhuga kennara á öllum skólastigum fyrir jóga og núvitund í útiveru í öllu skólasamfélagi Reykjanesbæjar. Hvernig hægt er að við vinna með jógastöður, öndun, slökun og núvitund á einfaldan hátt hvar sem er úti í náttúrunni. Hvort sem það er í göngu um okkar nærumhverfi, í skógi, úti í móa eða við hafið.

Sigurbjörg E. Gunnarsdóttir leikskólakennari á Gimli og jógaleiðbeinandi barna hefur frá upphafi séð um verkefnastjórn og útbjó hún hugmyndabók með núvitundaræfingum, öndunaræfingum og jógastöðum fyrir kennara á Gimli sem þeir vinna svo áfram með nemendum. Þessar hugmyndir hafa verið settar saman í smáforrit sem allir geta á einfaldan hátt nýtt sér.

Í vettvangsferðum fara nemendur og kennarar á hin ýmsu svæði í nágrenni leikskólans. Þar á meðal á gönguleiðina við sjávarsíðuna fyrir aftan Njarðvíkurskóla og svæðið í Njarðvíkurskógi við Grænás. Á þessum stöðum hefur nú verið komið fyrir skiltum á steina með einföldum núvitundaræfingum. Skiltin eru fjögur á hvorum stað, með fallegum orðum og hvatningu til bæjarbúa og allra sem eiga leið um þessi svæði. Með QR kóða sem er á skiltunum komast allir inn í smáforritið á aðgengilegan hátt í gegnum snjallsíma og er hægt að velja texta á íslensku, ensku og pólsku.

Að koma verkefni sem þessu af stað, þróa það áfram og halda því gangandi krefst samvinnu, þrautseigju, virkni og áhuga. Við erum afar þakklát þeim sem komið komið hafa að verkefninu með einum einum eða öðrum hætti og þar má sérstaklega þakka Gunnari Víði Þrastarsyni fyrir hönnun á skiltum, Davíð Óskarssyni og Gísla Erni Gíslasyni fyrir hönnun og uppsetningu á smáforritinu og Reykjanesbæ fyrir uppsetningu á skiltunum. Að lokum má geta þess að nemendur fæddir 2015 og foreldrar þeirra gáfu leikskólanum peningagjöf við útskrift þetta árið 2021 sem nýttir voru til prentunar á skiltunum.

Leikskólinn Gimli fagnaði 50 ára afmæli á árinu 2021 og er gleðilegt að verkefnið varð að veruleika við þau tímamót. Verkefnið styður vel við heilsueflandi samfélag Reykjanesbæjar, þar sem lögð er áherlsa á að efla líkamlega og andlega heilsu og er það einlæg ósk okkar á Gimli að bæjarbúar fari á þessa staði í gönguferðum sínum um bæinn, upplifi og njóti.

 

Smelltu hér til að fá meira upplýsingar um verkefnið