Upplýsingar varðandi Covid-19
Upplýsingar varðandi Covid-19

Núverandi reglugerð frá og með 15. janúar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar gildir til 2. febrúar 2022.

Almennar samkomutakmarkanir verða 10 manns, heimild til aukins fjölda fólks á viðburðum með hraðprófum fellur brott, hámarksfjöldi í verslunum verður 200 manns og skemmtistöðum, krám og spilakössum verður lokað. Þetta er megininntak hertra sóttvarnaráðstafana sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið og byggjast á tillögum sóttvarnalæknis. Gildandi takmarkanir á skólastarfi verða óbreyttar. Reglugerð um hertar sóttvarnaaðgerðir innanlands gilda frá og með laugardeginum 15. janúar til og með 2. febrúar næstkomandi.

Gripið er til hertra ráðstafana með hliðsjón af fyrirliggjandi spám um fjölgun smita af völdum Covid-19 og sjúkrahússinnlögnum á næstu vikum og mikils og vaxandi álags á heilbrigðiskerfisins, sérstaklega á Landspítala. Samhliða er markvisst unnið að því að styrkja Landspítala og auka getu hans til að mæta miklu álagi.

Megininntak reglna um samkomutakmarkanir

 • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
 • Áfram 2 metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
 • Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
 • Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
 • Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.
 • Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
 • Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
 • Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.
 • Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.

Reglugerð um breytingarnar
Minnisblað sóttvarnalæknis

Ráðstafanir vegna nýrra sóttvarnarreglna í Reykjanesbæ

Ráðhús
Kaffihúsi verður lokað um óákveðinn tíma. Athugið að inngangur að norðanverðu verður opin til að greiða betur leið fatlaðra inn í Ráðhúsið.

Söfnin
Söfn bæjarins verða áfram opin en heimilt er að taka á móti 50 gestum. Gerðar verða ráðstafanir til að uppfylla skilyrði nýrra sóttvarnarreglna. 

Sundlaugar
Vatnaveröld verður opin eins og áður var auglýst en heimilt verður að taka á móti 50% af hámarksfjölda gesta.

Björgin-Geðræktarmiðstöð Suðurnesja lokar vegna hertra samkomutakmarkana mánudaginn 17.janúar 2022
Til þess að bregðast við hertum sóttvarnaraðgerðum hefur verið tekin ákvörðun um að Björgin loki tímabundið frá og með mánudeginum 17. janúar. Núverandi aðgerðir
eru í gildi til 2. febrúar nk. Starfsmenn munu áfram mæta til vinnu, svara síma og aðstoða fólk eftir bestu getu símleiðis og í gegnum tölvur. Ef frekari upplýsinga er óskað vinsamlegast hafið samband við starfsmenn í síma 420-3270 eða á netfangið bjorgin@reykjanesbaer.is

Skólastarf í leikskólum

 • Leikskólum er heimilt að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með 2 metra nálægðartakmörk milli starfsfólks. Sé ekki unnt að tryggja nálægðarmörk milli starfsfólks skal nota andlitsgrímur. Starfsfólki ber ekki skylda til að nota grímur í samskiptum við leikskólabörn.
 • Ekki skulu vera fleiri en 20 fullorðnir einstaklingar í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli rýma. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu.
 • Ekki skulu vera fleiri en 50 leikskólabörn í hverju rými innandyra, en fjöldatakmarkanir gilda ekki á útisvæðum leikskóla.
 • Hvorki nálægðarmörk né grímuskylda taka til barna á leikskólaaldri.
 • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi leikskóla, svo sem leiksýningar og tónleikar, eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara.
 • Viðvera foreldra sem dvelja inn í leikskóla vegna aðlögunar skal skipulögð þannig að þeir þurfi ekki að nota hreinlætis- eða mataraðstöðu í byggingunni og skulu þeir gæta minnst 2 metra nálægðartakmörkun jafnt sín á milli sem og gagnvart starfsfólki. Aðeins eitt foreldri fylgi barni í aðlögun og skal það vera sama foreldrið sem fylgir barninu allt aðlögunartímabilið. Foreldrum ber að nota andlitsgrímu þar sem ekki er unnt að viðhafa 2 metra nálægðartakmörkun.
 • Þessar sóttvarnaráðstafanir eiga einnig við um skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri, og er einum einstaklingi heimilt að fylgja barni í því starfi.

Skólastarf í grunnskólum

 • Grunnskólum er heimilt að halda uppi skólastarfi, þar með talið íþróttakennslu, í skólabyggingum með 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks. Sé starfsfólki ekki unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum skal starfsfólk nota andlitsgrímur.
 • Ekki skulu vera fleiri en 20 starfsmenn í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli rýma. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og tónlistarskóla sem kemur inn í grunnskóla.
 • Nemendur eru undanþegnir grímuskyldu.
 • Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými og skal leitast við að viðhafa 1 metra nálægðartakmörkun milli þeirra í skólastofum.
 • Fjöldatakmarkanir gilda ekki í skólaakstri.
 • Fjöldatakmarkanir gilda ekki á útisvæðum en leitast skal við að takmarka fjölda nemenda á útisvæðum eins og kostur er, án þess að það komi niður á útiveru nemenda.
 • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir og fleira, eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og starfsfólk.
 • Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og kennslu nemenda í sérskólum, skulu nemendur og kennarar nota andlitsgrímu.
 • Þessar sóttvarnaráðstafanir gilda einnig um frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, skólabúðir og skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri.

Starf tónlistarskóla

 • Tónlistarskólum er heimilt að sinna kennslu með 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda.
 • Ekki skulu vera fleiri en 20 starfsmenn í hverju rými, þó er starfsfólki heimilt að fara milli rýma.
 • Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými.
 • Nálægðarmörk nemenda í tónlistarskóla fer eftir ákvæðum reglugerðarinnar á hverju skólastigi.
 • Nemendur fæddir 2005 eða fyrr, og starfsmenn, skulu nota andlitsgrímur ef nálægðartakmörkunum verður ekki við komið, sé þess kostur.
 • Öll tónlistarkennsla barna á leik- og grunnskólaaldri er heimil með sömu takmörkunum og gildir um skólastarf þeirra.
 • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi tónlistarskóla, svo sem tónleikar, eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara.

 

 

Breyttar reglur um sóttkví

Heilbrigðisráðherra hefur breytt reglum um sóttkví í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Breytingarnar byggja á faglegu mati og góðri bólusetningarstöðu þjóðarinnar. „Við þurfum að halda samfélaginu gangandi eins og framast er kostur, hvort sem við horfum til skólanna, velferðarþjónustu eða margvíslegrar atvinnustarfsemi og eins og staðan er núna eru þetta bráðnauðsynleg viðbrögð.“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Reglugerð um breytinguna hefur þegar tekið gildi.

Með breytingunum er dregið úr takmörkunum á einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví ef þeir eru þríbólusettir gegn Covid. Um 160.000 einstaklingar eru nú þríbólusettir og því ljóst að breyttar reglur um sóttkví munu gjörbreyta stöðunni. Sama máli gegnir um einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu smit og eru tvíbólusettir.

Sóttvarnalæknir bendir á að samkvæmt nýlegum rannsóknum frá Bretlandi og Danmörku dragi örvunarskammtur (alls þrír bóluefnaskammtar) verulega úr líkum á smiti, sérstaklega af völdum delta-afbrigðis kórónaveirunnar. Örvunarskammtur minnki einnig verulega líkur á smiti af völdum ómíkron, þótt bólusetning gegn Covid-19 veiti almennt minni vörn gegn ómíkron en delta.

Breyttar reglur um sóttkví gilda um:

a) einstaklinga sem eru þríbólusettir og fengu síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en viðkomandi er útsettur fyrir smiti

b) einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru jafnframt tvíbólusettir, að því gefnu að þeir hafi fengið síðari sprautuna meira en 14 dögum áður en þeir voru útsettir.

Breyttar reglur fela í sér að hlutaðeigandi er:

 • heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
 • óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
 • skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
 • óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
 • skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.

Takmörkunum samkvæmt ofangreindum reglum lýkur ekki fyrr en með niðurstöðu PCR-prófs sem tekið er á fimmta degi sóttkvíar. Ef einstaklingur finnur fyrir einkennum smits einhvern tíma á þessu fimm daga tímabili á hann að undirgangast PCR-próf án tafar. Tími í sóttkví er aldrei skemmri en fimm dagar.