Ljósanótt

Menningar-, og fjölskylduhátíðin Ljósanótt í Reykjanesbæ er haldin árlega fyrstu helgina í september (miðað við fyrsta laugardag sem ber upp í september).

Dagskráin þessa hátíðardaga er fjölbreytt og sniðin að þörfum allrar fjölskyldunnar og nær hámarki með stórtónleikum að kvöldi laugardags, lýsingu Bergsins og glæsilegri flugeldasýningu.

Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni og framboð menningarviðburða, sem er rauði þráður hátíðarinnar, hefur aukist ár frá ári jafnt og gestafjöldi.

Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudag og leikur tónlistin stórt hlutverk í tónlistarbænum Reykjanesbæ.

Fjöldi myndlistarmanna sýnir verk sín víðs vegar um bæinn auk þess sem gallerý og vinnustofur listamanna eru opnar. Á Listasafni Reykjanesbæjar eru ávallt áhugaverðar sýningar. Árgangagangan er einstakur viðburður og kjörinn vettvangur fyrir gamla skólafélaga að hittast. Einnig er boðið upp á flest það sem prýðir góða bæjarhátíð svo sem skemmtidagskrá og tónleika á sviði, götuleikhús, fornbíla- og bifhjólaakstur, leiktæki, sölutjöld, kjötsúpu og ótal margt fleira.

Frekari upplýsingar um dagskrá ljósanætur er að finna á ljosanott.is

Reykjanesbær hefur umsjón með hátíðinni en framkvæmdastjóri hennar er Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi, valgerdur.gudmundsdottir@reykjanesbaer.is /ljósanott@reykjanesbaer.is

Sérstök Ljósanæturnefnd hefur umsjón með framkvæmd og dagskrá hátíðarinnar.
Með ljósanæturnefnd starfar öryggisráð en í því eiga sæti fulltrúar lögreglu, björgunarsveitarinnar, fjölskyldu- og félagsþjónustu o.fl.