Íþróttir fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir

Æfing í Reykjaneshöll
Æfing í Reykjaneshöll

Ungmennafélögin UMFN og Keflavík hafa tekið höndum saman og bjóða í sameiningu upp námskeið í knattspyrnu og körfubolta fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir. Æfingarnar verða undir handleiðslu hæfra þjálfara af báðum kynjum þar sem iðkendum á aldrinum 6 – 13 ára er mætt á þeirra forsendum. Námskeiðið hefst sunnudaginn, 28. febrúar, og það ríkir mikil tilhlökkun hjá félögunum að taka á móti fjölbreytilegum barnahópi.

Skráning í gegnum KeflavíkSkráning í gegnum UMFN 

Þetta framfaraskref er tekið í kjölfar samstarfs ungmennafélaganna sem hafa undanfarna mánuði verkefnastýrt samfélagsverkefninu Allir með! af mikilli fagmennsku. Verkefnið stuðlarað jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu. Reykjanesbær leggur áherslu á að öll börn fái tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi.

Hér má sjá myndband af því fjölbreytta barnastarfi sem er boðið upp á í sveitarfélaginu.

Ungmennafélögin ákváðu að sameina krafta sína og beita sér fyrir aukinni þátttöku barna með mismunandi stuðningsþarfir í skipulögðu íþróttastarfi. Knattspyrnu- og körfuboltaæfingarnar eru ekki eingöngu hugsaðar fyrir börn í Reykjanesbæ þar sem krakkar frá öðrum sveitarfélögum eru að sjálfsögðu velkomin á æfingar. Námskeiðið er unnið í samstarfi við íþróttafélag fatlaðra og íþróttafélagið Nes

Fimleikadeild Keflavíkur hóf þessa vegferð í fyrra þegar deildin ákvað að bjóða upp á fimleikaæfingar fyrir börn með sérþarfir. Fimleikaæfingarnar hafa veitt foreldrum, þjálfurum og börnum mikla ánægju. Þetta er mikil framför og einstaklega ánægjulegt að Reykjanesbær geti aðstoðað við að jafna tækifæri barna til þess að stunda íþróttir við hæfi.

Nánari upplýsingar veita íþróttastjórar Keflavíkur og UMFN

Hámundur örn Helgason, íþróttastjóri UMFN
Hjördís Baldursdóttir, íþróttastjóri Keflavíkur