227. fundur

05.04.2019 00:00

227. fundur Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 05.04.2019 kl. 08:15.

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson, Gunnar Felix Rúnarsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ríkharður Ibsen, Róbert Jóhann Guðmundsson

Starfsmenn: Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri, Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi, Sigmundur Eyþórsson tæknifulltrúi, Dóra Steinunn Jóhannsdóttir ritari

1. Hafnargata - Suðurgata - Kynning á deiliskipulagstillögu (2019040026)

Óskað er heimildar til að vinna deiliskipulag.

Jón Stefán Einarsson frá JeES arkitektum kynnti deiliskipulagstillögu á Hafnargötu – Suðurgötu. Ráðið samþykkir deiliskipulagsvinnu á svæðinu.

2. Samráðs og afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 262 (2019010328)

Lögð fram til kynningar fundargerð 262. fundar, dagsett , 21. mars 2019 með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 9 liðum og má finna á vef Reykjanesbæjar. Með því að smella á þennan tengil má lesa fundargerðina

3. Heiðarholt 27 - Fyrirspurn um stækkun á lóð (2019020349)

Ósk um endurskoðun ákvörðunar. Nánari röksemdir hafa verið lagðar fram.

Erindi frestað.

4. Víðidalur 34-70 - Erindi til Umhverfis- og skipulagsráðs (2019040005)

Guðmundur Þ. Ingólfsson fyrir hönd íbúa Víðidal 11,13,15 og 17 leggur inn erindi og mótmælir heimild skipulagsfulltrúa til breytinga á hæðakóta á lóðunum 34-70 og óskar eftir að ákvörðun verði afturkölluð og framkvæmdir stöðvaðar.

Útgefið byggingarleyfi er samkvæmt skilmálum skipulags. Ákvörðun skipulagsfulltrúa um hæðakóta er innan heimildar. Hæðakótar eru ekki tilgreindir í skipulagi. Samkvæmt uppdrætti meðfylgjandi grenndarkynningar dags. 2. febrúar 2016 eru húsin ekki sýnd stölluð. Tekið er undir að bygging situr hátt í landi að hluta. Sviðsstjóra falið að ræða við framkvæmdaraðila um lausn að lóðarmörkum og að lóðarhafi taki tillit til þess við landmótun utan um húsin.

5. Vatnsnesvegur 22 - Ósk um heimild til byggingar bílskúrs - Niðurstaða grenndarkynningar  (2018090131)

Sigríður Jónsdóttir leggur inn umsókn móttekin 11. maí 2018 um byggingu 50m2 bílskúrs á lóð sinni að Vatnsnesvegi 22. Erindi var samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Grenndarkynningu er lokið athugasemdir bárust. Athugasemdir og svör eru samantekin á minnisblaði dags 05.04.2019.

Aðkoma er þröng og er erindi samþykkt með því að bílskúr sé styttur um 80cm og að 6m séu að lóðarmörkum framan við bygginguna.

6. Seltjörn - Framkvæmdaleyfi (2019040006)

Reykjanesbær óskar framkvæmdaleyfis til stígagerðar umhverfis Seltjörn samkvæmt framkvæmdalýsingu dags 27. mars 2019 og samþykktu deiliskipulagi svæðisins.

Skipulagsfulltrúa er heimilt að veita framkvæmdaleyfi í samræmi við meðfylgjandi gögn og umsagnir.

7. Ásabraut 15 - Fyrirspurn (2019040007)

Þórður Arnfinnsson óskar heimildar til að klæða, setja einhalla þak og byggja framan og aftan við gám á lóð svo úr verði snyrtileg bygging. En hann hefur hug á að reka þar reiðhjólaverkstæði.

Erindi hafnað.

8. Hafdalur 6-14 - Tveggja hæða raðhús verði ein hæð (2018100080)

Mótasmíði ehf. óskar heimildar til að breyta skilmálum deiliskipulags svo húsin verið á einni hæð. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. nóvember 2018 og samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Beðið hefur verið með grenndarkynningu. Mótasmíði ehf. leggur fram erindið aftur með uppdráttum dags 18.03.2019 og óskar heimildar til að sleppa bílskúrum.

Erindi samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.

9. Víkurbraut 21-23 - Staðfesting deiliskipulags (2017090121)

Bryggjubyggð ehf. óskaði eftir breytingu á deiliskipulagi. Auglýsingatíma tillögunnar er lokið. Engar athugasemdir bárust.

Samþykkt að senda til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.

10. Aldingarður æskunnar (2019030319)

Konráð Lúðvíksson f.h. Garðyrkjufélags Íslands óskar með bréfi dags 15. mars 2019, eftir að félagið fái formlega afhentan reit í skrúðgarði Keflavíkur sem liggur við Suðurgötu. Reiturinn yrði vígður í samvinnu við sveitafélagið og Barnavinafélagið Sumargjöf.

Erindi samþykkt.

11. Hafnarbakki 3-5 - Sameining lóða (2019030171)

Lóðarhafi Reykjaneshöfn óskaði eftir sameiningu samliggjandi lóða við Hafnarbakka 3 og 5. Erindið var tekið fyrir á fundi ráðsins 15. mars 2019 og var frestað. Reykjaneshöfn óskar eftir með bréfi dags 27. mars 2019 að fallið verði frá frestun á erindi. Að auki er ekki áætlað að byggja við eða stækka á annan hátt núverandi byggingu á lóð, sem hefði áhrif á skipulagsmál svæðisins til framtíðar.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin á deiliskipulagi varði ekki hagsmuni annarra en sveitafélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

12. Tjarnabakki 2 - Fyrirspurn (2019030237)

Tító ehf. óskar heimildar til að breyta deiliskipulagsskilmálum fyrir lóðina Tjarnabakki 2 með bréfi dags 19. mars 2019 og uppdráttum HBÁ teiknistofu dags 03.11.08. Krafa um bílskúra verði felld niður og íbúðum fjölgað úr 20 í 24.

Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.

13. Lýsing landsskipulagsstefnu (2019040028)

Lagt fram.

14. Básvegur - Erindi um hraðatakmarkanir (2019040029)

Guðbjörg Lára Sigurðardóttir leggur fram í bréfi dags 27.03.2019 tillögu um að hámarkshraði á Básvegi verði lækkaður úr 50km í 30km.

Erindi vísað til Umhverfismiðstöðvar.

15. Sjafnarvellir 4 - Fyrirspurn (2019040030)

Kristján F. Geirsson óskar heimildar til að byggja 50-55m2 bílskúr við Sjafnarvelli 4.

Umhverfis- og skipulagsráð tekur vel í erindið og óskar eftir nánari gögnum til grenndarkynningar.

16. Fyrirspurn vegna breytingu aðalskipulags (2019040031)

Guesthouse 1x6 ehf. leggur fram fyrirspurn með bréfi dags 29. mars 2019 um breytingu á aðalskipulagi. Gistiheimilið hefur verið í rekstri síðan árið 2010 en samkvæmt ákvörðun bæjarráðs dags 4. maí 2017 er rekstur gistiheimila ekki heimilaður á íbúðasvæðum.

Málinu er vísað til endurskoðunar aðalskipulags.

17. Leirdalur 36 - Niðurstaða hlutkestis (2019030162)

Tveir umsækjendur voru um lóðina Leirdalur 36 og efnt var til hlutkestis samkvæmt úthlutunarreglum.

Arnari Þór Smárasyni er úthlutuð lóðin Leirdalur 36 samkvæmt hlutkesti sem var varpað þann 22. mars 2019 og báðir umsækjendur voru viðstaddir.

18. Efstaleiti 20 - Lóðarumsókn (2019040032)

Dalsbygg ehf. sækir um lóðina Efstaleiti 20.

Úthlutun samþykkt.

19. Efstaleiti 22 - Lóðarumsókn (2019040033)

Guðsveinn Ólafur Gestsson sækir um lóðina Efstaleiti 22.

Úthlutun samþykkt.

20. Mýrdalur 1 - Lóðarumsókn (2019030328)

Jóhannes Bjarni Bjarnason sækir um lóðina Mýrdalur 1.

Úthlutun samþykkt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:20. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. apríl 2019.