281. fundur

30.04.2015 14:10

281. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar haldinn 30. apríl 2015 að Skólavegi 1, kl: 08:15

Mættir : Elín Rós Bjarnadóttir formaður,  Anna Sigríður Jóhannesdóttir aðalmaður, Helga M Finnbjörnsdóttir aðalmaður, Ísak Ernir Kristinsson varamaður, Kolbrún Sigurðardóttir áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Guðmunda Lára Guðmundsdóttir grunnskólafulltrúi, Sóley Halla Þórhallsdóttir áheyrnarfulltrúi grunnskólastjórnenda, Katrín Jóna Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, FFGÍR áheyrnarfulltrúi foreldra, Anna Hulda Einarsdóttir áheyrnarfulltrúi foreldra í leikskólum, Árdís Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi leikskólakennara, Sonja Kristín Sverrisdóttir áheyrnarfulltrúi FFGÍR og Gylfi J Gylfason fræðslustjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.


1. Fræðslustjóri kveður - fræðslustjóri heilsar (2015010099)
Helgi Arnarson mætir á fundinn

Fræðslustjóri þakkaði gott samstarf. Fræðsluráð þakkar fráfarandi fræðslustjóra fyrir vel unnin störf í þágu bæjarfélagsins. Fræðsluráð óskar fráfarandi fræðslustjóra velfarnaðar.
Verðandi sviðsstjóri fræðslusviðs Helgi Arnarsson boðinn velkominn. Helgi kynnti sig og greindi frá þeim störfum sem hann hefur unnið fram að þessu.

2. Málefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (2015010099)
Haraldur Árni Haraldsson mætir á fundinn

1. Skóladagatal samþykkt.
2. Skólastjóri greindi frá upplifun nemenda og kennara af fyrsta heila starfsárinu í Hljómahöll. Upplifunin er afar góð.
3. Skólastjóri greindi frá því helsta sem fram fór á skólaárinu
4. Skólastjóri greindi frá því að hann hafi óskað eftir því í erindi til bæjarráðs að laun kennara við skólann verði ekki skert í sumar vegna verkfallsins í vetur.
5. Töluverðar breytingar verða á starfsliði skólans næsta skólaár. Nú þegar hafa 5 ákveðið að hætta vegna uppsagnar á aksturssamningi, en 28 kennarar fengu greiddar ferðir milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar. Einn til viðbótar er að fara í leyfi, og ólíklegt að sá komi til baka. Tveir minnka við sig kennslu. Tveir sem voru í leyfi og eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu ætla ekki að koma aftur til starfa. Þessi staða er að mati skólastjóra áhyggjuefni, þar sem erfitt er að fá tónlistarskólakennara til starfa.
6.Reyna á að stofna barnakór. Einnig á að bjóða upp á kennslu í  djasssöng.
7. Bæta á við 50% skólaritara en fyrir því er heimild á launalið.
8. Önnur mál. Bjöllukórnum hefur verið boðið í Carnegiehall að halda tónleika. Þetta er frábært tækifæri og hafa einungis örfáir Íslendingar komið fram í tónleikahöllinni, en 10 nemendur eru að fara.
FS er að setja af stað nýja fjölgreinabraut. Tónlistarskólinn mun koma að þessu með tónlistina. Brautin verður 200 einingar og 98 af þeim geta verið ef nemandinn kýs svo á sviði tónlistar. Að mati skólastjóra er þetta stórt og ánægjulegt skref í þróun skólans.

3. Önnur mál (2015010099)
1. Kolbrún Sigurðar lagði til að Reykjanesbær gefi starfsmönnum leyfi eftir hádegi 19. júní í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarrétt á Íslandi. Ríkisstjórn Íslands hefur kvatt til að vinnustaðir gefi starfsmönnum leyfi þennan dag. Fræðsluráð styður hugmyndina.

2.Kolbrún spurði hvort eitthvað væri að frétta af bílastæðamálum við Heiðarsel.

3. Sóley Halla óskaði eftir að á næsta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar verði veittar upplýsingar um framtíðaráform varðandi skipulag og uppbyggingu skólahúsnæðis grunnskóla Reykjanesbæjar.

4. Skólanámsskrá Heiðarskóla lögð fram til kynningar.

5.Anna Sigríður kallaði eftir sýnilegri forvarnarstefnu milli skólastiga með tilliti til mataræðis og hreyfingar.Hvað hefur verið gert og hvað er í bígerð varðandi forvarnir.

6. Anna Hulda spurði um framtíð fjölskylduseturs. Ekki er búið að taka ákvörðun um framtíð verkefnisins. Fræðsluráð leggur til að yfirstjórn hússins verði færð undir FRÆ óháð þeirri starfssemi sem fer fram í húsinu.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. maí 2015.