305. fundur

29.09.2017 00:00

305. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Skólavegi 1 þann 29. september 2017 kl. 08:15

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Árni Sigfússon, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ísak Ernir Kristinsson, Sigurborg Magnúsdóttir fulltrúi leikskólakennara, Guðmundur Ingvar Jónsson fulltrúi grunnskólakennara, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi skólastjóra leikskóla, Tinna Kristjánsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Anna Hulda Einarsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir sem ritaði fundargerð.

1. Erindi frá FFGÍR varðandi opnunartíma frístundaskóla (2017090292)
Anna Hulda Einarsdóttir, fulltrúi FFGÍR, bar upp tillögu um að lengja opnunartíma frístundaskóla. Fræðsluráð tekur vel í erindið og felur sviðsstjóra að skoða málið.

2. Kennarar og leiðbeinendur í grunnskólum Reykjanesbæjar (2017090298)
Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs, fór yfir tölulegar upplýsingar um fjölda kennara og leiðbeinenda í grunnskólum Reykjanesbæjar. Fyrirséður nýliðunarvandi í kennarastétt er farinn að segja til sín hér á okkar svæði og mikilvægt að leitað sé allra leiða til þess að sporna gegn honum sem og að koma í veg fyrir brotthvarf kennara úr starfi. Hlutfall kennara með kennsluréttindi er nú 77,8%. Sviðsstjóri benti á að fjöldi leiðbeinenda stundaði nú nám til kennsluréttinda með hvatningu og styrk frá sveitarfélaginu. Sviðsstjóri fór einnig yfir upplýsingar um fjölda nemenda og vék sérstaklega að fjölda tvítyngdra barna. Mikilvægt er að hlúa vel að námi barna af erlendum uppruna í skólunum okkar og nauðsynlegt að gera þeim málaflokki hátt undir höfði. Sviðsstjóri benti á að í nýútkominni handbók sem kynnt var sl. vor séu ýmsar tillögur til úrbóta sem verið sé að vinna að.

3. Samkeppni um nafn á nýja skólann í Dalshverfi (2017020311)
Lögð fram drög að reglum um nafnasamkeppni. Fræðsluráð samþykkir reglurnar að teknu tilliti til athugasemda og felur sviðsstjóra að auglýsa samkeppnina.

4. Breyting á skóladagatali Akurskóla (2017030239)
Fræðsluráð samþykkir breytingu á skóladagatali Akurskóla.

5. Málefni leikskóla (2017090305)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi, fór yfir tölulegar upplýsingar um fjölda barna í leikskólum Reykjanesbæjar haustið 2017, fjölda starfsmanna, starfandi leikskólakennara og starfsmanna sem eru í leikskólakennaranámi. Hún sagði frá málþingi sem haldið var í Hljómahöll 22. september sl. í tilefni af hálfrar aldar afmæli leikskólans Tjarnarsels. Umfjöllunarefni málþingsins var orðaforði og tengsl hans við leik og nám ungra barna. Einnig ræddi leikskólafulltrúi um heilsueflandi leikskóla.
Fræðsluráð lýsir yfir mikilli ánægju með málþingið og það starf sem fram fer í leikskólum Reykjanesbæjar.

6. Leyfi fyrir dagforeldra (2017080002)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi, lagði fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Guðrúnu Ósk Lange. Ingibjörg fór yfir gögn sem fylgdu umsókninni. Starfsleyfið er veitt með fyrirvara um samþykki byggingafulltrúa.

7. Leyfi fyrir dagforeldra (2017080246)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi, lagði fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Eyrúnu Jóhannsdóttur. Ingibjörg fór yfir gögn sem fylgdu umsókninni. Fræðsluráð samþykkir að veita fullt starfsleyfi.

Fræðsluráð samþykkir að taka fyrir eftirfarandi mál:

8. Leyfi fyrir dagforeldra
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi, lagði fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Lilju Ósk Traustadóttur. Ingibjörg fór yfir gögn sem fylgdu umsókninni. Starfsleyfið er veitt.

9. Önnur mál (2017010198)
• Rætt var um fyrirkomulag á fundum fræðsluráðs. Fræðsluráð óskar eftir að funda framvegis á þriggja vikna fresti.
• Vakin er athygli á skólamálaþingi sem haldið verður í Hörpu á alþjóðadegi kennara 5. október nk.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. október 2017.