307. fundur

24.11.2017 00:00

307. fundur fræðsluráðs var haldinn að Skólavegi 1 þann 24. nóvember 2017 kl. 08:15.

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Árni Sigfússon, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi skólastjóra leikskóla, Guðmundur Ingvar Jónsson fulltrúi grunnskólakennara, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anna Hulda Einarsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Sóley Halla Þórhallsdóttir grunnskólafulltrúi, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir sem ritaði fundargerð. Gestir fundarins voru Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undir 1. lið, Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur skólaþjónustu Reykjanesbæjar undir 2. lið og Ragna Klara Magnúsdóttir og Jón Jósafat Björnsson frá Dale Carnegie undir 6. lið.

1. Málefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (2017050292)
Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri tónlistarskólans, fór yfir tölulegar upplýsingar um fjölda nemenda, starfsfólks og stöðugilda. Nemendur í skólanum á haustönn eru 918, þar af 523 í forskóla. Alls er 689 nemendum kennt í grunnskólunum. Heildarfjöldi starfsmanna er 42 en stöðugildi eru alls 31,47.
Haraldur ræddi einnig aðstöðu fyrir tónlistarkennslu í grunnskólum, en fjöldi kennslustofa í sumum skólanna er ekki nægur. Allir reyna að leysa úr málum eins og hægt er en ekki má mikið út af bregða til að skerða þurfi þessa þjónustu.
Grunnskólar hafa hingað til staðið straum af kostnaði við píanóstillingar og viðhald hljóðfæra sem notuð eru við tónlistarkennslu í grunnskólunum. Haraldur telur eðlilegt að tónlistarskólinn greiði þennan kostnað. Ákveðið var að gera ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun tónlistarskólans.
Haraldur lýsti yfir áhuga á að stofna Suzukideild við tónlistarskólann, en tveir kennarar við skólann eru nú í námi í þeim fræðum. Þessir kennarar hafa verið með nemendur í æfingakennslu á blokkflautu og píanó. Einnig hefur fiðlukennari með menntun í Suzukifræðum lýst yfir áhuga á að starfa við skólann.
Nemendum hefur fjölgað en þó ekki í takt við fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og biðlisti hefur minnkað, en það er mismunandi eftir hljóðfærum og hægt væri að bæta við nemendum á einhver hljóðfæri. Ekki hefur verið farið í sérstaka kynningu á tónlistarskólanum fyrir íbúa, heldur hafa verkin verið látin tala.
Bjöllukór skólans kom fram á tónleikum með Sigurrós í Toronto í Kanada í sumar og vakti gríðarlega athygli. Yngri bjöllukórinn spilar með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikaröð í Hörpu fyrir jól. Eldri bjöllukórinn mun spila með Sigurrós á tónleikum í Hörpu milli jóla og nýárs.
Haldnir verða á milli 30 - 40 jólatónleikar í ár auk þess sem hópar verða sýnilegir víðsvegar um bæinn og spilað verður á jólaböllum og jólafundum.
Fræðsluráð þakkar Haraldi fyrir góða kynningu. Ráðinu líst vel á og styður það að stofnuð verði Suzukideild við skólann frá og með næsta skólaári.

2. Skólaþjónusta Reykjanesbæjar (2017110280)
Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur skólaþjónustu kynnti verkefni skólaþjónustunnar á síðasta skólaári og ársskýrslu skólaþjónustu Reykjanesbæjar þar sem fram koma lykiltölur fyrir skólaárið 2016 – 2017. Skýrslunni er ætlað að veita innsýn í starfsemi þjónustunnar og umfang hennar. Fram kom m.a. að börnum á biðlista eftir aðkomu skólaþjónustu hefur fækkað og biðtími hefur farið minnkandi. Heildarfjöldi tilvísana til skólaþjónustu skólaárið 2016 – 2017 voru 284. Starfsmenn skólaþjónustu voru 13 í 11,3 stöðugildum við lok skólaárs.
Einnig kynnti Einar skýrslu um sálfræðiþjónustu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja skólaárið 2016 - 2017. Viðvera í fjölbrautaskólanum er þrjá daga í viku. 58 nemendur óskuðu eftir föstum viðtalstímum á síðasta skólaári en einnig er boðið upp á opna viðtalstíma sem ekki þarf að bóka fyrirfram.
Ráðinn hefur verið hegðunarráðgjafi en hann mun veita sérhæfða ráðgjöf til starfsmanna skóla og foreldra.
Unnið hefur verið að því að kortleggja umfang vanda vegna ófullnægjandi skólasóknar. Gefnir hafa verið út nýir verkferlar sem ætlað er að draga úr vandanum.
Fræðsluráð þakkar Einari fyrir góða kynningu.

3. Niðurstöður samræmdra könnunarprófa (2017110283)
Helgi Arnarson fór yfir niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk haustið 2017. Árangur grunnskóla í Reykjanesbæ er góður.

4. Sameiginleg lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélög í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum (2017060143)
Lögð fram drög að sameiginlegri lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum.
Fræðsluráð gerir ekki athugasemdir við drögin.

5. Ályktun frá samráðsfundi Félags stjórnenda leikskóla (2017110286)
Ályktun frá samráðsfundi Félags stjórnenda leikskóla sem haldinn var 28. – 29. september lögð fram, en þar er lýst yfir áhyggjum varðandi stöðu barna í leikskólum landsins og því beint til foreldra, sveitarstjórna/rekstraraðila leikskóla og til atvinnulífsins alls að standa saman að velferð barna og finna leiðir til að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar.

6. Kynning frá Dale Carnegie á námskeiðum fyrir ungt fólk (2017110287)
Ragna Klara Magnúsdóttir og Jón Jósafat Björnsson frá Dale Carnegie kynntu námskeið sem fyrirtækið heldur fyrir ungt fólk. Markmið námskeiðanna eru m.a. að auka sjálfstraust þátttakenda, bæta samskiptahæfni, tjáningu og líðan.

7. Önnur mál (2017010198)
Ekkert var rætt undir þessum lið.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. desember 2017.