320. fundur

01.02.2019 00:00

320. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Skólavegi 1 þann 1. febrúar 2019 kl. 08:15.

Viðstaddir: Andri Örn Víðisson, Bjarni Páll Tryggvason, Íris Ósk Kristjánsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir formaður.
Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Jurgita Milleriene fulltrúi grunnskólakennara, Þórdís Elín Kristinsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Lydía Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara og Erla Hafsteinsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Ytra mat Heiðarskóla (2019010449)

Haraldur Axel Einarsson skólastjóri Heiðarskóla mætti á fundinn og kynnti skýrslu Menntamálastofnunar um ytra mat á Heiðarskóla sem fór fram á haustönn 2018.

Fræðsluráð þakkar fyrir góða kynningu og lýsir yfir ánægju með góða niðurstöðu úr ytra matinu. Fræðsluráð hrósar Heiðarskóla fyrir að vera leiðandi í notkun upplýsingatækni í skólastarfi í sveitarfélaginu og vonar að aðrir skólar taki hann til fyrirmyndar.

2. Framþróun faglegs leikskólastarfs og starfsaðstæður leikskólakennara í leikskólum Reykjanesbæjar (2019010451)

Í tilefni af degi leikskólans þann 6. febrúar nk. kynnti Anna Lydía Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara framþróun í faglegu leikskólastarfi og starfsaðstæður leikskólakennara.

Fræðsluráð þakkar fyrir góða kynningu og felur fræðslusviði að stofna starfshóp um starfsaðstæður í leikskólum. Hópnum er ætlað að rýna leikskólastarfið í Reykjanesbæ og leggja fram tillögur sem miða að því að efla faglegt starf í leikskólunum og um leið betrumbæta starfsaðstæður starfsfólks.

Á næsta fundi fræðsluráðs skal liggja fyrir erindisbréf til handa starfshópnum ásamt tillögum að samsetningu hópsins.

3. Heimsóknir stjórnenda Reykjanesbæjar í leik- og grunnskóla (2019010454)

Í framhaldi af bókun fulltrúa grunnskólakennara á síðasta fundi vill fræðsluráð taka undir að ótækt sé að horft sé framhjá vandamálum án þess að taka á þeim. Starfsáætlun fræðslusviðs ber einmitt vott um það, að mati fræðsluráðs, að stöðugt sé leitað úrræða til þess að styðja starfsfólk í skólasamfélaginu í sínum störfum.
Því til viðbótar vill fræðsluráð benda á að á næstu vikum munu stjórnendur í Reykjanesbæ heimsækja leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu til þess að ræða við starfsfólkið. Þar fá m.a. kennarar tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri milliliðalaust, bæði um mannauðsmál og faglegt starf í skólunum. Í kjölfarið verður farið yfir hvar úrbóta er þörf varðandi starfsaðstæður starfsfólks skólanna og er ætlun Reykjanesbæjar að vinna að aðgerðum í samstarfi við starfsfólk til að bregðast við því.

Fulltrúar minnihluta fræðsluráðs lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Það er mikilvægt að gæta þess að ekki halli á lýðræðið þegar kjörnum fulltrúum er boðið að taka þátt í skipulögðum fundum stjórnenda sveitarfélagsins. Að lágmarki ætti að bjóða einum fulltrúa meirihluta og einum fulltrúa minnihluta að taka þátt. Við hvetjum meirihluta bæjarstjórnar og stjórnendur sveitarfélagsins til að gæta að þessu.“

Andri Örn Víðisson fulltrúi D listans og Íris Ósk Kristjánsdóttir fulltrúi Frjáls afls.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. febrúar 2019.