19. fundur

20.05.2021 14:00

19. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar, haldinn að Tjarnargötu 12, 20. maí 2021, kl. 14:00

Viðstaddir: Jóhann Friðrik Friðriksson formaður, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, Kristín Gyða Njálsdóttir, Íris Ósk Kristjánsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Krabbameinstíðni á Suðurnesjum (2021050297)

Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi fór yfir upplýsingar um krabbameinstíðni á Suðurnesjum sem bárust frá Krabbameinsfélaginu. Samkvæmt þeim er krabbamein ekki marktækt hærra í heild hér á Suðunesjum en er þó hæst hér. Lýðheilsuráð telur líklegast að lífsstílstengdir sjúkdómar vegi þyngst í tíðni krabbameins á svæðinu og óskar þess efnis frá Krabbameinsfélaginu.

2. Ný heilsugæslustöð (2021010393)

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skoraði á heilbrigðisráðherra að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu á Suðurnesjum sem allra fyrst og alls ekki seinna en 1. október 2021.

Lýðheilsuráð tekur undir bókun bæjarstjórnar.

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu hér á Suðurnesjum sem allra fyrst og alls ekki seinna en 1. október 2021.

Verkefnið er aðkallandi enda búa tæplega 28 þúsund manns á Suðurnesjum. Á svæðinu er aðeins ein heilsugæslustöð sem hönnuð var fyrir einungis hluta af þessum fjölda.

Uppi hafa verið fyrirheit um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar en verkefnið gengur seint. Nokkurra ára bið eftir að ný heilsugæsla taki til starfa er með öllu óásættanleg. Slík staða mætir ekki núverandi ástandi og þörf íbúa Reykjanesbæjar fyrir lögbundið aðgengi að heilbrigðiskerfinu.

Um fjögur þúsund íbúar sækja heilsugæsluþjónustu til höfuðborgarsvæðisins, því fyrsti viðkomustaður heilbrigðiskerfisins í heimabyggð annar ekki þeim fjölda sem hér býr. Nýverið sagði HSS upp lögbundinni heilbrigðisskoðun starfsfólks Brunavarna Suðurnesja sem þarf því að leita annað. Aðstaða heilsugæslu HSS er óboðleg fyrir starfsfólk stofnunarinnar eins og úttektir Landlæknisembættisins hafa ítrekað sýnt fram á.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar og Suðurnesjamenn allir eru einhuga í þessari kröfugerð og binda vonir við að ríkisvaldið bregðist strax við þessari málaleitan. Íbúar Suðurnesja geta ekki beðið lengur.

Bæjarstjórn lýsir því jafnframt yfir að hún muni beita öllum tiltækum ráðum með hagaðilum svo af þessu verði enda er sú staða sem uppi er í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum ekki boðleg. Það ætti ekki að vera neinum erfiðleikum bundið að finna tímabundið húsnæði fyrir heilsugæslu á meðan unnið er að langtímaúrræði. Íbúar á svæðinu eiga rétt á að þjónustan verði bætt án tafar.“

Lýðheilsuráð mun að auki taka upp málið á fundi ráðsins með velferðarnefnd alþingis sem fyrirhugaður er vegna nýrrar lýðheilsustefnu fyrir Ísland til ársins 2030.

3. Hreyfivika UMFÍ (2021040033)

Hreyfivikunni verður frestað í ár vegna Covid-19, ákveðið hefur verið að Hreyfivikan verði haldin í haust þegar skólar og önnur starfsemi fer af stað á ný. UMFÍ hefur ekki gefið út endanlegar dagsetningar en Reykjanesbær mun taka virkan þátt að vanda. Lýðheilsufulltrúa var falið að vinna að viðburði vegna opnunar göngubrautarinnar í kringum nýjan gervigrasvöll. Vonast er til að hægt verði að opna brautina á 17. júní.

4. Baun í Reykjanesbæ – lýðheilsa og barnamenning (2021030197)

Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi sagði frá barnamenningarhátíðinni í ár. Listahátíð barna 2021 í Duus húsum lýkur 24. maí nk. Lýðheilsuráð fagnar velheppnaðri barnamenningarhátíð og hrósar þeim sem stóðu að henni. Þess má geta að um 600 manns tóku þátt Skessuskokkinu í ár og er sá viðburður búin að festa sig í sessi. Þær áherslur sem fram komu í tengslum við hátíðina undirstrika þá staðreynd að Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag.

5. Samfélagsgreining (2021050299)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar mætti á fundinn og greindi frá samfélagsgreiningarverkefni. Markmið verkefnisins er að kortleggja betur samfélagshópa og nýta þá þekkingu í að efla þjónustu og bæta stefnumótun fyrir einstaka málaflokka og svæðið í heild. Lýðheilsuráð þakkar Hilmu fyrir frábæra kynningu á mikilvægu og áhugaverð verkefni.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.45. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. júní 2021.