11. fundur

12.08.2020 08:30

11. fundur menningar- og atvinnuráðs, fjarfundur, haldinn 12. ágúst 2020, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Ljósanótt (2020050590)

Menningar- og atvinnuráð tekur undir sjónarmið stýrihóps Ljósanætur og telur sýnt að ekki verði gerlegt að halda Ljósanótt dagana 2 -6. september n.k. í ljósi þeirra samkomutakmarkana sem nú eru í gildi auk 2 metra reglu. Ráðið telur mikilvægt að sveitarfélagið sýni ábyrgð og stuðli ekki að óþarfa samsöfnun fólks á óvissutímum. Ráðið leggur því til að hátíðinni 2020 verði aflýst.
Um leið lýsir ráðið mikilli ánægju með góð viðbrögð við yfirskrift hátíðarinnar „Ljósanótt í höndum bæjarbúa“ en á fjórða tug umsókna barst í sérstakan Ljósanætursjóð sem settur var á laggirnar til að gera íbúum kleift að standa að smærri viðburðum víða um bæinn. Ráðið leggur áherslu á að slíkur sjóður verði einnig opinn fyrir umsóknir á næsta ári svo íbúar geti með virkari hætti tekið þátt í að skapa hátíðina. Ráðið hvetur umsækjendur til að halda áfram að móta hugmyndir að fjölbreyttum viðburðum og koma sterk inn að ári. Ráðið mælist til þess að tekið verði tillit til þess í fjárhagsáætlun næsta árs og fjármagni sem ætlað var í Ljósanótt 2020 verði bætt við fyrirhugað fjármagn Ljósanætur 2021.

2. Atvinnuleysistölur (2020010478)

Atvinnuleysi í júní var 16,6% í Reykjanesbæ og 14,8% á Suðurnesjum. Samtals voru 2.377 atvinnulausir á Suðurnesjum og þar af 1.878 í Reykjanesbæ. Tölur fyrir júlí liggja ekki fyrir fyrr en síðar í vikunni. Í ljósi þeirra uppsagna sem áttu sér stað í apríl og maí eru uppsagnarfrestir annað hvort liðnir eða að líða undir lok. Það er því viðbúið að mikil aukning verði á skráðu atvinnuleysi bæði nú og í næsta mánuði.
Reykjanesbær mun fara í sérstakt átak á næstu vikum í samstarfi við Vinnumálastofnun, þar sem einstaklingum á skrá hjá stofnuninni verður boðin vinna við tímabundin verkefni. Þetta er í samræmi við samþykktir bæjarráðs og miðast við úrræði á vegum stofnunarinnar sem nefnist Ráðningarstyrkur.
Menningar- og atvinnuráð lýsir yfir áframhaldandi áhyggjum af atvinnuástandi í Reykjanesbæ og hvetur fyrirtæki og stofnanir til að sækja fram.

3. Slökkviminjasafnið (2020010293)

Menningar og atvinnuráð þakkar greinargóða skýrslu og tekið er heilshugar undir þær hugmyndir sem fram koma. Samþykkt er að safnið verði yfirtekið og í framhaldi verði kortlögð sýning um varnarliðið til framtíðar. Ráðið leggur til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að Ramma húsið verði tekið af söluskrá.

4. Bátafloti Gríms Karlssonar – framtíðaráætlanir (2020080103)

Eiríkur P. Jörundsson safnstjóri Byggðasafnsins skýrði frá vinnu sem nú stendur yfir vegna flutnings á sýningu á bátaflota Gríms Karlssonar úr svonefndum Bátasal upp á miðloftið í Bryggjuhúsinu. Ástæðan er tvíþætt; núverandi sýning er komin til ára sinna og þá hefur komið í ljós að undirstöður undir glerskápum eru víða orðnar ryðgaðar og gætu skapað hættu. Verkefnið er jafnframt hluti af hugmyndavinnu sem nú stendur yfir varðandi endurskipulagningu Duus safnahúsa.

5. Hughrif i Bæ (2019120294)

Skýrsla um verkefnið Hughrif í bæ lögð fram. Verkefnið var sett á laggirnar af menningarfulltrúa fyrir tilstuðlan styrks sem mennta- og menningarmálaráðuneytið veitti menningarskrifstofu árið 2019 í kjölfar slæms atvinnuástands á svæðinu í kjölfar falls flugfélagsins WOW. Verkefnið var unnið í mjög góðu samstarfi við umhverfissvið/Vinnuskólann. Markmið þess var að brjóta upp hversdagsleikann og lífga upp á bæinn með ýmsum leiðum. Verkefnið hlaut afar góðar viðtökur bæjarbúa. Ráðið þakkar fyrir frábært starf og mælir með að gert verði ráð fyrir fjármagni til skapandi sumarstarfa í næstu fjárhagsáætlun.

Fylgigögn:

Skýrsla um skapandi sumarstörf í Reykjanesbæ
Með því að smella hér opnast myndband um verkefnið Hughrif í bæ

6. Sumarátaksvinna (2020040083)

Auglýst voru yfir 300 störf fyrir námsmenn auk þess sem öllum 17 ára og yngri var boðin vinna í Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Öllum þeim sem um sóttu var boðið sumarstarf á vegum bæjarins. Unnið er að lokaskýrslu um átakið sem kynnt verður síðar.

7. Takk veggur ( 2020060411)

„Til fyrirmyndar“ er hvatningarátak tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni með það að markmiði að staldra við, huga að því sem vel er gert og þakka þeim sem við teljum vera til fyrirmyndar á einn eða annan hátt.
Leitað var til sveitarfélaga um að mála „TAKK veggi“ víða um land þar sem skemmtilegt væri að taka myndir af sér og sínum og deila á samfélagsmiðlum undir merkjunum @tilfyrirmyndar og #tilfyrirmyndar.
Fjöllistahópurinn Hughrif í bæ fékk það verkefni að mála „TAKK vegg“ á veggstólpa á smábátahöfninni í Gróf. Um verslunarmannahelgina stóð Súlan fyrir ratleik fyrir fjölskyldur þar sem athygli var vakin á veggnum, Duus Safnahúsum og gamla bænum.

8. FrægðarSkugginn (2020080101)

Lagt fram erindi varðandi minnisvarða um tónlistarmenn bæjarins.
Forstöðumanni Súlunnar er falið að vinna áfram í málinu í samstarfi við umhverfissvið Reykjanesbæjar.

9. Bókasafn Reykjanesbæjar (2020080049)

a. Ný sýning „Galdraheimur bókmenntanna“ hefur verið opnuð í Átthagastofu Bókasafnsins.
Harry Potter varð fertugur 31. júlí og í tilefni þess hefur verið settur upp galdraheimur bókmenntanna í Bókasafninu þar sem hægt er að skoða ýmsar galdraverur eins og drauga og húsálfa. Á sýningunni er stórt safn muna auk bóka sem tengjast galdraheiminum. Boðið er upp á sjálfspróf þar sem allir geta fundið út hvaða heimavist þeir tilheyra. Við hvetjum alla til að heilsa upp á myrka herrann Voldemort, Dumbledore skólameistara og fleiri volduga galdramenn ásamt því að taka myndir fyrir framan Hogwarts skólann. Sýningin var í höndum starfsmanna bókasafnsins auk sumarstarfsmanna.
Menningar- og atvinnuráð hvetur bæjarbúa til þess að skoða sýningu Bókasafnsins um „Galdraheim bókmenntanna“. Sýning safnsins í Átthagastofu er metnaðarfull og sýnir ýmsar galdraverur eins og drauga og húsálfa auk bóka sem tengjast galdraheiminum.

b. Bókasafn Reykjanesbæjar stóð að þjónustukönnun dagana 16. – 24. júní og var könnunin rafræn. Markhópur bókasafnsins voru allir íbúar Reykjanesbæjar og nágrennis, hvort sem þeir hafa notfært sér þjónustu bókasafnsins eður ei. Markmiðið með könnuninni var að fá innsýn inn í starfsemi bókasafnsins út frá sjónarhorni notenda, hvað gengur vel og hvað betur mætti fara. Sumarstarfsmaður í Bókasafninu, vann könnunina og greindi niðurstöðurnar. Helstu niðurstöður eru þær að 94% þátttakenda voru ánægðir með heildarstarfsemi bókasafnsins, 44% þátttakenda frá Innri-Njarðvík vildu fá útibú í sitt hverfi, 85% þátttakenda 30 ára og yngri höfðu ekki séð auglýsingar frá safninu nýlega, tæplega 25% vildu sjá bókasafnið halda fleiri viðburði og 42% þátttakenda á aldrinum 46 ára og eldri nota ekki rafbókasafnið.
Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir vel unna þjónustukönnun. Ljóst er að Bókasafnið er að gera marga góða hluti en þó eru sóknarfæri í kynningar og markaðsmálum, rafbókasafni og viðburðum.

c. Sumarstarfsmaður í Bókasafninu hefur verið að taka upp myndir og myndskot frá starfsemi safnsins eins og hún er í dag. Gert var þriggja mínútna myndband og nokkur styttri skot þar sem fókuserað er á fyrirfram skilgreinda notendahópa. Þá var einnig unnið myndband sem styður við framtíðarsýn Bókasafns Reykjanesbæjar sem styður stefnu safnsins. Hópurinn Hughrif í bæ fær þakkir fyrir þeirra framlag við gerð myndbandsins.
Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir vel unnin myndbönd. Ljóst er að myndbönd sem þessi bjóða upp á tækifæri til þess að ná til mismunandi hópa auk þess sem þau eru góð leið til að kynna fyrir bæjarbúum alla þá starfsemi og þjónustu sem í boði er í Bókasafninu.

Fylgigögn:

Þjónustukönnun 2020
Skýrsla þjónustukönnun
Með því að smella hér opnast myndband um bókasafnið  

10. Skýrsla söguritara, Sögunefndar Keflavíkur (2019050831)

Skýrslur lagðar fram.

11. Hugmyndir frá Betri Reykjanesbær (2020060548)

Málinu frestað til næsta fundar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9.50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. ágúst 2020