13. fundur

16.09.2020 08:15

Fundargerð 13. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Ramma 16. september 2020, kl. 08:30

Viðstaddir:Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2020 (2020090177)

Ráðið felur forstöðumanni Súlunnar að auglýsa eftir hugmyndum bæjarbúa að verðugum fulltrúa til menningarverðlauna ársins 2020.

2. Mælaborð Súlunnar (2020040101)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar fór yfir mælaborð Súlunnar. Fjölgun heimsókna varð á heimasíðu Reykjanesbæjar miðað við tölur sama mánaðar seinustu ára. Mikil fjölgun átti sér stað í heimsóknum gesta í Duus safnahús og Hljómahöll. Ljósmyndum á Ljósmyndavef bæjarins fer fjölgandi. Í mælaborðinu er einnig að finna atvinnuleysistölur fyrir júlí og áætlaðar tölur ágúst mánaðar.

Hér má skoða Ljósmyndavef Reykjanesbæjar

3. Skýrsla vegna markaðsherferðar (2020040083)

Á vormánuðum kom upp sú hugmynd að fara í markaðsherferð til að vekja athygli á Reykjanesbæ sem góðan kost til að heimsækja í sumar. Allar kannanir bentu til þess að Íslendingar ætluðu að ferðast mikið í sumar. Því miður virtust þær einnig benda til þess að mjög fáir hugsuðu um Reykjanes og Reykjanesbæ sem áfangastað. Ákveðið var að hreyfa við fólki og segja þeim á mannamáli og með áhugaverðu kynningarefni að sannarlega sé það þess virði að kíkja í heimsókn í Reykjanesbæ.
Birtingar voru í júní, júlí og byrjun ágúst. Tíðnin var þéttust í júlí þegar flestir voru að ferðast og var þá áhersla lögð á birtingar í sjónvarpi, vefnum og útvarpinu.
Heimsóknir á heimasíður og söfnin sýna það greinilega að Íslendingar kíktu í heimsókn í Reykjanesbæ í júní, júlí og ágúst. Þessar tölur eru áberandi í Rokksafninu sem var með rúmlega 500% aukningu í júlí miðað við sama tíma í fyrra. Einnig var rúmlega 230% aukning í Duus húsum í júlí, miðað við sama tíma í fyrra.
Ráðið vill vekja athygli á mikilvægi þess að vinna sé hafin á undirbúningi markaðsstefnu fyrir komandi ár þar sem markaðsherferð sem unnin var í sumar sýnir jákvæð afköst af þeirri vinnu með fjölgun gesta í bæjarfélagið.
Skýrslan lögð fram.

Fylgigögn:

Skýrsla um markaðsherferð

4. Fundargerð Sögunefndar Keflavíkur 26. ágúst 2020 (2019050831)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Sögunefndar Keflavíkur

5. Atvinnumál innan Súlunnar (2020090192)

a. Ferðaþjónusta
Á fundinn mætti Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri ferðamála og upplýsti ráðið um þau verkefni sem unnið er að varðandi frumkvöðla, nýsköpun og eflingu ferðaþjónustu í Reykjanesbæ. Unnið er að nánari kortlagningu ferðaþjónustu í Reykjanesbæ sem er hluti af stefnumótun.

b. Byggðasafnið
Undirbúningur að samstarfsverkefni er hafið við Þjóðskjalasafn Íslands. Um er að ræða hugmynd að verkefni sem gæti aukið störf innan menningarsviðs til næstu þriggja ára.
Verkefnið er m.a. unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun og gæti skapað 10 ný störf.

c. Atvinnumál innan Súlunnar
Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og fór yfir 11 atvinnuskapandi verkefni sem eru í vinnslu á sviðinu. Flest verkefnin eru samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnana og hafa sum hver verið lengi í undirbúningi. Vonir standa til að fjöldi starfa gæti skapast samfara þessum verkefnum á næstu mánuðum. Grunnurinn að þessari vinnu tengist stefnumótun sveitarfélagsins í atvinnuþróun.
Ráðið samþykkir að taka eftirfarandi mál á dagskrá:

6. Atvinnuleysistölur (2020010478)

Lagðar fram atvinnuleysistölur.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.20. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. október 2020.