16. fundur

16.12.2020 08:30

16. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 16. desember 2020, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Menningarstefna Reykjanesbæjar (2019051729)

Drög að Menningarstefnu var lögð fram. Óskað verður umsagnar annarra ráða og nefnda Reykjanesbæjar.

2. Þrettándinn 2021 (2020120145)

Samkomutakmarkanir kalla á breytta útfærslu árlegrar þrettándagleði. Blysför, brenna og dagskrá við svið verður felld niður en flugeldasýning verður á sínum stað þann 6. janúar nk. Gert er ráð fyrir að fólk geti fylgst með henni úr bílum sínum við Ægisgötu og Hafnargötu auk þess sem fólk getur dreifst vel á Bakkalág. Þá er útfærsla á skemmtidagskrá í undirbúningi.

3. Jóladagskrá 2020 (2020100172)

a. Aðventugarðurinn var opnaður 5. desember sl. og hlaut afar góðar viðtökur bæjarbúa. Orðið aðventa er dregið af latneska orðinu Adventus og merkir að koma. Þannig á nafnið einkar vel við í aðdraganda jóla. Markmið Aðventugarðsins er að lýsa upp svartasta skammdegið og skapa góða og notalega stemningu fyrir fjölskylduna í aðdraganda jóla. Alla laugardaga til jóla og á Þorláksmessu er boðið upp á jólamarkað og óvæntar uppákomur í Aðventugarðinum. Verkefnið býður upp á ýmsa möguleika til áframhaldandi þróunar m.a. þá að virkja fyrirtæki og félög til virkrar þátttöku í því.

b. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir hefur tekist að halda nokkra menningarviðburði í Bókasafni Reykjanesbæjar, með streymi í gegnum veraldarvefinn. Starfsfólk Hljómahallar og Bókasafns Reykjanesbæjar lögðust á eitt með glæsilega dagskrá sem bar yfirheitið Menningarkonfekt og úr urðu tveir viðburðir, annars vegar Bókakonfekt og hins vegar jólatónlist fyrir börn og fullorðna. Viðburðunum var einnig streymt í gegnum Facebook síðu Reykjanesbæjar og Víkurfrétta. Viðburðunum var vel tekið og hafa nú ríflega 11.000 horft á viðburðina, jafnvel fleiri ef gera má ráð fyrir að fleiri en einn hafi verið við hvert tæki.
Sögustundir hafa einnig haldist í sessi og hefur tveimur jólasögustundum verið streymt í gegnum Facebook síðu safnsins og hafa nú um 1200 tæki streymt jólasögustund á pólsku og 1400 tæki streymt jólasögustund á íslensku.
Safnið hefur nú opnað á nýjan leik, með fjöldatakmörkunum þar sem 7 gestir mega vera í safninu á hverjum tíma. Hægt er að heimsækja helli Grýlu í safninu en Átthagastofu Bókasafnsins hefur nú verið breytt í heimili hennar.

4. Listasafn Reykjanesbæjar (2020120194)

a. 365

List 365 er verkefni sem sprettur úr hugarheimi grafíska hönnuðarins Tim Junge og listakonunnar Lindar Völundardóttur. List 365 er dagatal sem kynnir einn myndlistarmann á dag, árið 2020 átti að vera þriðja útgáfuár Listar 365. Því miður komst dagatalið ekki í prentun þetta árið sökum kórónuveirunnar.
Hugsunin á bakvið verkefnið er að kynna fyrir almenningi þá breiðu flóru listamanna sem eru að störfum á Íslandi. Skapandi einstaklingum alls staðar að er boðin þátttaka og má þannig segja að verkefnið sé mjög lýðræðislegt og sýnir þá breidd sem er til staðar innan hinna skapandi stétta á Íslandi.
Listasafn Reykjanesbæjar er að bjóða íbúum Reykjanesbæjar ásamt öðrum upp á fjölbreyttar sýningar sem vekja athygli. Jólamánuðurinn er uppskeruhátíð margra listgreina og á það einnig við um myndlistina. Sýningin er sölusýning og hafa gestir þannig aðgang að stórum myndlistarmarkaði fyrir jólin.
Það eru hundrað og átján þátttakendur sem sýna hjá Listasafni Reykjanesbæjar, í samstarfi við List 365, sumir þeirra eru mjög þekktir, en aðrir fást meira við sköpun sína án mikillar sýningaþátttöku. Upplýsingar um þátttakendur er að finna á heimasíðu Listasafns Reykjanesbæjar.

b. Samtal við listaheiminn

Listasafn Reykjanesbæjar hefur farið af stað með vefmiðlun sem heitir Samtal við listaheiminn. Þar er tekið viðtal við alla listamenn og sýningarstjóra sem koma að Listasafni Reykjanesbæjar. Óhætt er að segja að þetta hafi vakið mikla athygli og hefur veftímaritið https://artzine.is/  hafið samstarf við safnið og mun birta rafrænt efni sem listasafnið er að framleiða.
Listasafn Reykjanesbæjar hefur lagt áherslu á rafræna miðlun og finna má efni á:
Facebook, Instagram, Youtube og Hlaðvarpsveitum.

5. Jólatónleikar Hljómahallar (2020120193)

Hljómsveitin Valdimar heldur tónleika 30. desember n.k. eins og undanfarin ár. Hljómsveitin fagnar 10 ára afmæli þetta árið og varð að fresta stórtónleikum sínum í Eldborg, Hörpu tvívegis á árinu vegna kórónuveirunnar. Í ljósi faraldursins verður tónleikunum 30. desember streymt á netið. Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Suðurnesja.

6. Ferlar við mat á varðveislu sögulegra húsa (2020120192)

Eiríkur Páll Jörundsson forstöðumaður Byggðasafns mætti á fundinn. Farið var yfir hugmyndir um ferlavinnu er varðar varðveislu sögulegra húsa. Forstöðumanni Byggðasafnsins er falið að vinna málið áfram í samvinnu við umhverfissvið Reykjanesbæjar.

7. Aðgangseyrir í menningarhús 2021 (2020120191)

Menningar- og atvinnuráð leggur til að enginn aðgangseyrir verði inn á söfn Reykjanesbæjar frá 1. janúar til 31. mars 2021. Staðan verður endurmetin eftir það miðað við þróunina í samfélaginu vegna kórónuveirunnar.

8. Atvinnumál (2020090192)

Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og fór yfir stöðuna á ýmsum verkefnum sem eru í undirbúningi.

9. Atvinnuleysistölur (2020010478)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn. Atvinnuleysi í Reykjanesbæ heldur áfram að aukast og mældist 23% í lok nóvember sem er aukning um 0,7% frá fyrri mánuði. Alls eru því um 3.000 manns atvinnulausir eða þiggja greiðslur vegna hlutabótaleiðarinnar svokölluðu. Fjöldi þeirra sem hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá heldur jafnframt áfram að aukast og höfðu um 500 íbúar bæjarins verið á atvinnuleysisskrá í meira en eitt ár um síðastliðin mánaðarmót.

10. Fjárhagsáætlun (2020060158)

Fjárhagsáætlun 2021 lögð fram.

11. Mælaborð Súlunnar (2020040101)

Þórdís Ósk Helgadóttir fór yfir mælaborð fyrir október.

12. Fundargerð Sögunefndar Keflavíkur (2019050831)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð sögunefndar 

13. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn: 

Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar

Menningar- og atvinnuráð þakkar starfsfólki Súlunnar verkefnastofu fyrir frábært starf allt þetta ár sem hefur einkennst af Covid áhrifum. Starfsfólk hefur sýnt mikla hugmyndaauðgi og verið útsjónarsöm að koma viðburðum á framfæri á erfiðum tímum. Engin takmörk hafa verið á þeim lausnum sem starfsfólk hafa nýtt sér og áfram stefnum við saman að aukinni velsæld og vexti á nýju ári.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. janúar 2021.