21. fundur

19.05.2021 08:30

21. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 19. maí 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Baldur Þórir Guðmundsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir atvinnumál.

Vinna við atvinnuátak er í fullum gangi. Ráðningar eru hafnar í gegnum átakið sumarstörf fyrir námsmenn og er útlit fyrir að hægt verði að bjóða öllum ungmennum og námsmönnum sem sækja um hjá Reykjanesbæ störf í sumar. Þá er vinna við sköpun starfa í gegnum úrræðið Hefjum störf í fullum gangi og er nú þegar unnið að því að ráða í á fjórða tug starfa á vegum sveitarfélagsins. Sú tala kemur til með að hækka þegar líður á árið og er vonast til þess að geta boðið stórum hluta þeirra sem heyra undir úrræðið störf hjá sveitarfélaginu.

2. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir atvinnuleysistölur.

Atvinnuleysi heldur áfram að lækka. Minnkaði um 1% á milli mánaða og hefur því minnkað um 2,6% frá áramótum. Fjöldi atvinnuleitenda á skrá Vinnumálastofnunar um mánaðarmótin var 2.480 og hafði fækkað um 115 á milli mánaða.

Fylgigögn:

Atvinnuleysistölur

3. Framtíðarsýn Duus safnahúsa (2021050281)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn. Drög að framtíðarsýn Duus safnahúsa lögð fram til umsagnar. Ráðið lýsir yfir ánægju sinni á metnaðarfullri framtíðarsýn. Tekið verður tillit til umsagnar og lögð til samþykktar á næsta fundi menningar- og atvinnuráðs.

4. Framkvæmdir í Duus safnahúsum (2021050282)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi kynnti fyrsta áfanga í framkvæmdaáætlun í tengslum við framtíðarsýn Duus Safnahúsa. Ráðið styður áætlunina og vísar henni til bæjarstjórnar til umfjöllunar og samþykktar. Ráðið leggur áherslu á að fyrsti áfangi framkvæmdaáætlunar Duus safnahúsa fari sem fyrst í framkvæmd í ljósi þeirra áherslna og verkefna sem fylgja sem gætu borið kostnað á seinkun þeirra.

• Lyfta í Duus húsum
• Nýtt anddyri í Duus Safnahúsum

5. Hátíðardagskrá 17. júní 2021 (2021050278)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og kynnti viðfangsefni og drög að dagskrá 17. júní, í ljósi samkomutakmarkana.

6. Sjómannadagurinn – dagskrá (2021050279)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og fór yfir drög að dagskrá Sjómannadagsins. Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur með dagskrá í Duus Safnahúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar. Dagskráin er unnin í samstarfi nokkurra aðila og hefst með sjómannamessu, sem haldin er til skiptis á vegum Keflavíkurkirkju og Njarðvíkurkirkju, og í ár er hún haldin á vegum Keflavíkurkirkju. Eftir messuna verður kynning Byggðasafns Reykjanesbæjar á nýrri safnsins „Fast þeir sóttu sjóinn – Bátasafn Gríms Karlssonar“ í tilefni dagsins. Í lok dagskrár er lagður krans við minnismerki sjómanna við Hafnargötu fyrir tilstilli Vísis, félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, Vélstjórafélags Suðurnesja og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Ráðið samþykkir dagskrána.

7. Markaðsmál (2021020545)

Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála mætti á fundinn. Menningar- og atvinnuráð telur mikilvægt að halda áfram þeirri markaðssetningu sem lagt var af stað með á síðasta ári og byggja ofan á hana. Mælanlegur árangur staðfestir að markaðsherferðin vekur athygli og fær fólk til að heimsækja Reykjanesbæ. Nýlegar kannanir sýna að langflestir Íslendingar ætla aftur að ferðast innanlands í sumar og það þurfum við að nýta okkur.

Ráðið vísar erindinu áfram til bæjarráðs til afgreiðslu.

8. Mælaborð Súlunnar - verkefnastofu (2021030231)

Mælaborða Súlunnar lagt fram.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09.50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. júní 2021.