22. fundur

16.06.2021 10:30

22. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar haldinn á Courtyard by Marriot 16. júní 2021, kl. 10:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir ýmis atvinnumál.

Staða námsmannaúrræðis

Þann 29. apríl síðastliðinn samþykkti bæjarráð að auka við framboð sumarstarfa í Reykjanesbæ. Annars vegar var um að ræða þátttöku í úrræði stjórnvalda um sumarstörf fyrir námsmenn, en auk þess var öllum ungmennum fæddum árið 2004 boðin vinna við Vinnuskóla Reykjanesbæjar.

Það er skemmst frá því að segja að öllum þeim ungmennum sem uppfylltu skilyrði þessara tveggja úrræða og sóttu um starf hjá Reykjanesbæ í sumar, bauðst starf hjá bænum.

Samanlagður fjöldi ungmenna og námsmanna í störfum á vegum Reykjanesbæjar verður 982 þegar mest lætur. Þar af verða 219 námsmenn í störfum innan stjórnsýslunnar og 763 í vinnuskóla eða sérstökum garðyrkjuhópi á vegum umhverfismiðstöðvar. Þetta er svipaður fjöldi og sumarið 2020 en þá voru 958 ungmenni að störfum hjá Reykjanesbæ.

Ýmis atvinnumál

Samherji fiskeldi kynnir uppbyggingaráform í Auðlindagarði HS Orku

Forsvarsmenn Samherja fiskeldis og HS Orku kynntu fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar og lykilstjórnendum fyrir bæjarstjórnarfund áform um uppbyggingu landeldis í Auðlindagarði HS Orku á næstu árum.

Samherji fiskeldi áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi í þremur áföngum á næstu 11 árum. Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna en stjórn Samherja hefur ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins. Áætlað er að bein störf í tengslum við fiskeldið og vinnsluna verði um 100 í fyrsta áfanga auk fjölda afleiddra starfa og að fjölmörg störf skapist á byggingartímanum.

Menningar- og atvinnuráð fagnar áformum Samherja fiskeldis um þessa uppbyggingu í Auðlindagarði HS Orku.

2. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og kynnti drög að forsendugreiningu atvinnuþróunarstefnu Reykjanesbæjar.

3. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir atvinnuleysistölur.

Hlutfall atvinnuleitenda mældist 19% í lok maí og hefur því dregist saman um tæp 6% frá því er mest lét um áramót. Alls voru 2.110 skráðir í atvinnuleit hjá vinnumálastofnun um mánaðarmótin og hefur þeim því fækkað um 370 á milli mánaða. Jafnframt dregur úr fjölda á hlutabótaleið, en þeim fækkaði um 90 á milli mánaða og eru nú 256.

4. Framtíðarsýn Duus safnahúsa (2021050281)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn. Framtíðarsýn Duus Safnahúsa lögð fram til samþykktar.

Ráðið fagnar metnaðarfullri framtíðarsýn og tekur heilshugar undir að mikilvægt er að þróun í menningarmálum sé í takt við ört stækkandi samfélag og slíkt kalli á markvissar aðgerðir sem felast einmitt í framtíðarsýninni. Ráðið óskar eftir athugasemdum frá framtíðarnefnd og bæjarráði þar sem framtíðarsýnin leggur stefnuna fyrir næstu 15 árin.

5. Framkvæmdir í Duus safnahúsum (2021050282)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi upplýsti ráðið um að hún hefði kynnt fyrir bæjarráði frumdrög að breytingum á Duus Safnahúsum samkvæmt framtíðarsýn og frumkostnaðaráætlun vegna þeirra. Forstöðumanni Súlunnar var falið að vinna áfram í málinu. Menningar- og atvinnuráð felur Súlunni að vinna þessar hugmyndir áfram með umhverfissviði svo kynna megi verkefnið fyrir gerð næstu fjárhagsáætlunar með það að markmiði að hægt verði að hefja meginframkvæmdir 2022.

6. Hátíðardagskrá 17. júní 2021 (2021050278)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi kynnti dagskrá 17.júní fyrir ráðinu en dagskráin tekur mið af gildandi samkomutakmörkunum.

Kl. 11:00 hefst hátíðardagskrá í Skrúðgarðinum í Keflavík sem streymt verður á Facebook síðu Víkurfrétta.

• Óskar Ívarsson starfsmaður Umhverfismiðstöðvar dregur þjóðfánann að húni.

• Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri flytur þakkarorð

• Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar setur hátíðina

• María Tinna Hauksdóttir nýstúdent flytur ávarp fjallkonu

• Ingvar Eyfjörð framkvæmdastjóri Aðaltorgs heldur ræðu dagsins

Kl. 12:30 Hátíðarguðþjónusta í Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Kl. 13-16 Skemmtidagskrá á fjórum stöðum í Reykjanesbæ

Kl. 15-17 Sundlaugarpartý í Sundmiðstöðinni

Kl. 18:30 Pylsur í Fjörheimum

Kl. 19:30–21:30 Kvölddagskrá fyrir ungmenni í Fjörheimum

7. Ljósanótt (2021030300)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi greindi frá stöðu mála í undirbúningi fyrir Ljósanótt. Stefnt er að fullbúinni hátíð gangi bólusetningaráætlanir eftir en ljóst er að til að það geti orðið þurfum við áfram á stuðningi okkar frábæru bakhjarla að halda. Ráðið hvetur alla, einstaklinga, félög og fyrirtæki til að styðja við hátíðina eftir fremsta megni. Við skulum vera stolt af hátíðinni okkar sem skapar einstakt tækifæri til að koma saman, gleðjast og sýna sjálfum okkur og öðrum að í Reykjanesbæ er frábært samfélag.

8. BAUN í Reykjanesbæ (2021030197)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi lagði fram skýrslu um BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ sem fram fór dagana 6.-16. maí sl. Mikil ánægja var með hátíðina sem skiptist í Listahátíð barna í Duus Safnahúsum, Hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa og BAUNabréfið sem var sérstakur bæklingur sem dreift var í alla leikskóla og grunnskóla upp í 7. bekk sem hafði að markmiði að hvetja fjölskyldur til að skemmta sér saman og draga fram það góða sem boðið er upp á fyrir börn og fjölskyldur í Reykjanesbæ. Óhætt er að segja að BAUNa hugmyndin hafi fallið í kramið hjá yngstu kynslóðinni og var mikil þátttaka meðal barna sem fóru um bæinn með BAUNabréf í hönd að safna stimplum og leysa þrautir. Yfir 3.300 gestir heimsóttu Duus Safnahús á meðan á hátíðinni stóð og 640 börn tóku þátt í sérstöku Skessuskokki á hátíðinni.

Ráðið þakkar greinargóða skýrslu og hvetur til áframhaldandi þróun á BAUNinni. Ráðið vill sérstaklega færa þakkir til Höllu Karenar Guðjónsdóttur fyrir starf sitt í verkefninu.

9. Myndlistarskóli (2021060225)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi kynnti hugmyndir Gunnhildar Þórðardóttur að stofnun myndlistarskóla í Reykjanesbæ.

Ráðið fagnar hugmyndinni og felur Súlunni að vinna áfram með málið.

10. Barnamenningarsjóður (2021050398)

Í lok maí var 90 milljónum úthlutað úr Barnamenningarsjóði Íslands. Alls fengu 37 verkefni styrk og nemur heildarfjárhæð styrkjanna 90 milljónum króna en alls bárust 113 umsóknir.

Duus Safnahús hlutu við þetta tilefni 6 milljóna króna styrk sem var annar hæsti styrkurinn sem veittur var í þetta sinn. Verkefnið sem hreppti styrkinn ber yfirskriftina Söfn fyrir börn en markmið þess er að öll börn í sveitarfélaginu fái jafna möguleika á að kynnast því sem söfnin hafa upp á að bjóða í listum, sögu og menningu. Styrkurinn hefur mikið gildi fyrir starfsemi Duus Safnahúsa og mun gera börnum kleift að njóta faglegrar leiðsagnar sérstaks fræðslufulltrúa, sem að auki hefur það verkefni að sækja í hús hópa í viðkvæmri stöðu, íbúa af erlendum uppruna og fólk í starfsendurhæfingu til að auka líkur á að þau sæki þangað sjálf með börn sín.

Menningar og atvinnuráð fagnar niðurstöðu barnamenningarsjóðs.

11. Markaðsmál (2021020545)

Á fundinn mætti Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála og Thomas S. Longley vefstjóri. Þeir fóru yfir markaðsáætlun sumarsins og kynntu fyrirhugaða nýja ferðamálasíðu.

12. Framtíðarsýn bókasafns Reykjanesbæjar (2021060226)

Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður Bókasafn Reykjanesbæjar mætti á fundinn og fór yfir áframhaldandi vinnu út frá framtíðarsýn bókasafns Reykjanesbæjar.

13. Sýningar í Listasafni og Byggðasafni (2021020542)

Sýningin Tegundagreining eftir Steingrím Eyfjörð í Listasafni Reykjanesbæjar opnaði þann 12. júní 2021.

Sýningin er tilraun listamannsins til að skýra kveikjuna að myndsköpuninni. Verkin eru afmörkuð og staðsett með flokkunarkerfi, mynstri sem þróast hefur á löngum ferli. Yfirflokkar á sýningunni eru: Hið ósnertanlega, Arfurinn, Heimur kvenna, Gagnrýni, Guðs eigið land, Kellingin, Decode, Comix.

Listasafn Reykjanesbæjar gefur út veglega sýningaskrá í tilefni af sýningu Steingríms Eyfjörð, þau sem rita texta eru: Halldór Björn Runólfsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Benedikt Hjartarson, Jón Bjarni Atlason og Helga Þórsdóttir. Einnig skrifar listamaðurinn eigin skýringar á myndverkunum.

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) hefur verið virkur myndlistarmaður frá áttunda áratug síðustu aldar og í verkum sínum hefur hann unnið með fjölbreytta miðla, margvíslegt efnisval og ólík viðfangsefni. Steingrímur hefur haldið fjölmargar einkasýningar síðan 1977, ásamt því að vera valinn til þess að taka þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007 og árið 2017 var hann sæmdur titlinum bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Steingrímur hlaut Menningarverðlaun DV fyrir myndlist árið 2002 og var tilnefndur til Carnegie Art Award árin 2004 og 2006.

Sýningin, Tegundagreining, stendur til og með 22. ágúst 2021.

Sýning Byggðasafn Reykjanesbæjar hélt opnun þann 12. júní í bryggjuhúsi Duus Safnahúsa en þar var að finna samstarfsverkefni Byggðasafnsins og kaupfélag Suðurnesja. Tilefni samstarfsins var 75 ára afmæli Kaupfélagsins. Sýningin átti sér stað innandyra í stofurými Duushúsa en einnig á Keflavíkurtúni í formi upplýsingaskilta.

Sumarsýningar í bíósal, samstarfsverkefni Duus Safnahúsa og listasafnsins.

Duus Safnahús og Listasafn Reykjanesbæjar bjóða til samstarfs í sumar við fólk sem ástundar myndlist og býr á Suðurnesjum. Góð þátttaka var um sýningarpláss, 18 einstaklingar sóttu um og af þeim voru 4 valdir til þess að sýna á tveimur samsýningum.

Fyrri myndlistarsýningin af tveimur stendur frá 12. júní til 11. júlí 2021 og er samsýning Jacek Karaczyn og Rakelar Steinþórsdóttur.

14. Menntastefna Reykjanesbæjar 2021-2030 – drög til umsagnar (2020010070)

Fræðsluráð óskar eftir umsögnum nefnda og ráða Reykjanesbæjar um drög að menntastefnu Reykjanesbæjar 2021-2030.

Menningar- og atvinnuráð fagnar vel unninni menntastefnu sem fellur vel að stefnu Reykjanesbæjar og þeim áherslum sem þar koma fram.

15. Mælaborð Súlunnar - verkefnastofu (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.

16. Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 28. apríl 2021 (2019050831)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð

17. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 24. júní 2021.