24. fundur

15.09.2021 08:30

24. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 15. september 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir ýmis atvinnumál.

2. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og kynnti framþróun vinnu við atvinnuþróunarstefnu.

3. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Máli frestað.

4. Verkefnahandbók (2021080539)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar kynnti verkefnahandbók og innleiðingu hennar í starfsemi Reykjanesbæjar. Stór hluti af starfi stjórnsýslu Reykjanesbæjar felur í sér verkefnatengdavinnu en innleiðing verkefnahandbókarinnar er til þess að efla starfsfólk Reykjanesbæjar við að undirbúa, stjórna og framkvæma verkefni. Styður við að verkefnin séu unnin á faglegan máta og framsetning með þeim hætti að grunnur ákvarðanatöku sé traustur. Tilgangur innleiðingarinnar er að ná sem mestri hagnýtingu í verkefnavinnunni, koma í veg fyrir sóun á tíma, kostnaði eða gæðum og auka í kjölfarið hagkvæmni í starfsemi stjórnsýslunnar. Að auki er verið að efla samstarf og þar með auka þekkingu á hlutverkaskiptingu í verkefnavinnu og auka skráningu á þekkingu og reynslu.

Ráðið hrósar og þakkar fyrir góða vinnu við verkefnahandbók og fagnar öllum aðferðum sem nýttar eru til þess að ná sem mestri hagnýtingu í starfi.

5. Fjárhagsáætlun 2022 (2021060488)

Á fundi bæjarráðs 2. september sl. var eftirfarandi bókað varðandi vinnu við gerð fjárhagsáætlunar og var afgreiðsla bæjarráðs staðfest á fundi bæjarstjórnar 7. september sl.:

„Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og framkvæmdastjórn að fara, í samráði við stjórnendur og starfsmenn allra stofnana og deilda, ítarlega í gegnum alla starfsemi Reykjanesbæjar með það að markmiði að leita tækifæra til sparnaðar og hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins. Stjórnendur fari yfir tilgang, markmið og samfélagslegan ávinning af starfsemi allra eininga, hvernig sá ávinningur birtist, hvernig hann er metinn og hvort og þá til hvaða hagræðingaraðgerða megi grípa án alvarlegra afleiðinga fyrir íbúa. Einnig að tilgreina á grundvelli hvaða lagaákvæða viðkomandi starfsemi byggir.

Þar sem um er að ræða starfsemi sem ekki er lögboðin er stjórnendum falið að meta og rökstyðja hvort og þá hvers vegna nauðsynlegt sé að halda starfseminni áfram óbreyttri, hvort hægt sé að draga saman eða hætta henni alveg og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Einnig er stjórnendum falið að leita leiða til að auka skilvirkni með það að markmiði að bæta þjónustu, stytta ferla og lækka kostnað.

Að lokum er bæjarstjóra falið að leiða vinnu við að fara yfir allt húsnæði í eigu Reykjanesbæjar með það að markmiði að nýta það betur og selja eða leigja það húsnæði sem sveitarfélagið hefur ekki not fyrir.“

Stjórnendur og starfsmenn Súlunnar vinna þessa daga hörðum höndum við gerð fjárhagsáætlunar í samræmi við ofangreinda bókun og fara ítarlega í gegnum alla starfsemi með það að markmiði að leita tækifæra til sparnaðar og hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.

Við fjárhagsáætlunarvinnunna er stjórnendum falið að:

• Tilgreina á hvaða lagagrundvelli starfsemi viðkomandi deildar/stofnunar/einingar byggir

• Fara yfir tilgang, markmið og samfélagslegan ávinning af starfsemi sinnar einingar

• Meta hvort og þá til hvaða hagræðingaraðgerða megi grípa án alvarlegra afleiðinga fyrir íbúa

• Leita leiða til að auka skilvirkni með það að markmiði að bæta þjónustu, stytta ferla og lækka kostnað

• Skrá hvernig sá ávinningur birtist og hvernig hann er metinn.

Ráðið minnir á og leggur áherslu á hlutverk menningarstofnanna líkt og segir í samþykktri menningarstefnu bæjarins. „Helsta leiðarljós menningarstarfs í Reykjanesbæ er að menning sé skapandi auðlind. Menning sem fær tækifæri til að vaxa og blómstra sem lifandi afl í samfélaginu. Menning sem byggir á fjölbreytni og framsæknum menningarstofnunum, styrkir sjálfsvitund bæjarbúa, eflir bæjarbraginn, eykur víðsýni og auðgar um leið mannlífið og efnahagslega framþróun Reykjanesbæjar.“

Ráðið vill einnig minna á aukið hlutverk þessara stofnana í ferðaþjónustu og er þá einkum vísað til starfsemi Bókasafns, Hljómahallar og Duushúsa. Jafnframt verði hugað að áframhaldandi endurbyggingu sögulegs húsnæðis í bænum s.s. Fischershúss.

Ráðið leggur áherslu á að áfram verði hugað að stöðugleika í ímyndar- og markaðsmálum og að unnið sé markvíst að atvinnusköpun til frambúðar.

6. Kynningar sumarstarfsmanna (2021090238)

Þórdís Ósk Helgadóttir fór yfir verkefni sumarstarfsmannsins Kristrúnar Björgvinsdóttur en hún vann að lausnum fyrir myndræn ferli á heimasíðu Reykjanesbæjar. Súlan þakkar fyrir gott samstarf í sumar.

Þórdís Ósk Helgadóttir fór yfir verkefni sumarstarfsmannsins Ólafs Andra Magnússon en hann sá um ljósmyndatöku fyrir markaðs- og kynningarmál Reykjanesbæjar sem skilaði sér í 450 unnum myndum sem finna má í gagnagrunni bæjarins. Súlan þakkar fyrir gott samstarf í sumar.

7. Listasafn Reykjanesbæjar (2021090215)

Helga Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar mætti á fundinn og fjallaði um rekstrarumhverfi listasafna þar sem hún fór yfir samanburð á rekstri þeirra. Rekstur listasafns Reykjanesbæjar var borinn saman við listasafn Árnesinga og listasafn Akureyrar sem eru staðsett í sveitarfélagi í álíkri stærð og með svipaða starfsemi.

Samanburður sýnir mikinn mun á fjárheimildum og starfsmannahaldi þar sem listasafn Reykjanesbæjar hallar verulega undan fæti. Ráðið ítrekar að nauðsynlegt sé að styrkja rekstur safnsins strax á næsta ári þannig að hægt sé að halda úti viðurkenndri safnastarfsemi.

 

8. Kíktu í heimsókn – uppgjör (2021070045)

Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála mætti á fundinn.

Markaðsherferðin „Kíktu í heimsókn“ fór aftur af stað á þessu ári þar sem Reykjanesbær er kynntur sem áhugaverður kostur fyrir ferðaþyrsta Íslendinga. Markaðsefnið var endurhannað og birtingaáætlun fór í endurskoðun og mið tekið af fyrri reynslu. Markaðsherferðin gekk vel eins og mælingar á heimsóknum á Duus Safnahús og Rokksafninu sýna.

Það komu 906 innlendir gestir í Duus Safnahús í júlí á þessu ári sem er svipaður fjöldi og í fyrra en þá fjölgaði gestum um rúmlega 230%. Það komu 846 gestir í ágúst sem er 15,7% aukning miðað við sama tíma og í fyrra. Þetta er 74% aukning miðað við árið 2019. Það komu 1.327 innlendir gestir í Rokksafnið í júlí sem er 267% fleiri heimsóknir en árið 2019.

9. Listaskóli barna (2021090214)

Skýrsla lögð fram.

Samtals sóttu 117 börn á aldrinum 6 – 13 ára fjögur sumarnámskeið sem haldin voru á vegum Listaskóla barna í júní og ágúst en verkefnið er rekið á vegum menningarfulltrúa. Megin markmið námskeiðsins er að skapa þægilegt og gott andrúmsloft þar sem sköpunargáfan fær að njóta sín. Námskeiðin voru haldin í Svarta pakkhúsinu í samstarfi við Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ og í Frumleikhúsinu í samstarfi við Leikfélag Keflavíkur. Umsjónarmaður námskeiðanna var Halla Karen Guðjónsdóttir sem rekið hefur námskeiðin undanfarin ár við frábæran orðstír. Henni til aðstoðar voru 17 starfsmenn á vegum námsmannaúrræðis og Vinnuskólans en ekki væri hægt að reka námskeiðin án þess frábæra fólks. Námskeiðunum lýkur ávallt með sérstakri sýningu í Frumleikhúsinu þar sem aðstandendum er boðið til að sjá afraksturinn. Ánægjukönnun var send til foreldra að námskeiði loknu og allir sem svöruðu sögðu upplifun barnsins af námskeiðinu mjög góða og eigin upplifun mjög góða eða góða. Þá sendu margir inn mjög jákvæðar athugasemdir um
námskeiðið t.d. þessa: „Skipulag, upplýsingaflæði, upplifun barns og foreldra, viðmót leiðtoga og umsjónarmanns var 100% til fyrirmyndar.“ Ráðið þakkar fyrir greinargóða skýrslu og færir aðstandendum verkefnisins þakkir fyrir vel unnin störf.

10. Hljómahöll – tónleikahald (2021010361)

Louis Cole tónleikar

Hljómahöll hélt þann 2. september tónleika með bandaríska listamanninum Louis Cole en með honum komu fram þau Nate Wood, Chris Fishman og Genevieve Artadi og tókust tónleikar mjög vel. Þetta er í annað sinn sem þau koma fram í Hljómahöll en þau komu einnig fram í febrúar 2019. Vegna sóttvarna takmarkana var 200 manna hámark þar sem gestir sátu í númeruðum sætum. Rútuferðir voru í boði fyrir gesti á milli Reykjavíkur og Hljómahallar sem gestir gátu keypt sér miða í kaupferlinu á miðasölusíðunni. Bus4u sáu um akstur gestanna. Næstu tónleikar sem eru á dagskrá í Hljómahöll er John Grant sem kemur fram 23. október í Stapa.

11. Menningarverðlaun 2021 (2021090213)

Ráðið felur menningarfulltrúa að auglýsa eftir tillögum að verðugum handhafa menningarverðlauna 2021.

12. Mælaborð Súlunnar (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.

13. Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 25. ágúst 2021 (2019050831)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 25. ágúst 2021


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. september 2021.