185. fundur

13.05.2016 10:49

185. fundur í Stjórn Reykjaneshafnar var haldinn þriðjudaginn 3. maí 2016, kl. 19:00 á skrifstofu Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12, 230 Reykjanesbæ.

Mættir: Davíð Páll Viðarsson formaður, Einar Þ Magnússon aðalmaður, Hjörtur M Guðbjartsson aðalmaður, Hanna Björg Konráðsdóttir aðalmaður, Kristján Jóhannsson aðalmaður og Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri.

1. Fjármál Reykjaneshafnar
Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir að birta eftirfarandi á heimasíðu hafnarinnar og á fréttavef Kauphallar Íslands:
Fjármál Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar.
Vísað er til tilkynninga Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar um viðræður við kröfuhafa um endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar og stofnana hans.
Í tilkynningu sem birt var í kauphöll þann 14. apríl sl. sagði að samkomulag við kröfuhafa hefði ekki náðst þar sem minnihluti kröfuhafa hefði synjað samkomulagi. Reykjaneshöfn birti síðan tilkynningu 15. apríl sl. þar sem fram kom að óbreyttu væri fyrirséð að til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar kæmi eftir 15. apríl 2016.
Með tilkynningu í kauphöll þann 19. apríl sl. kom fram að Reykjanesbær og Reykjaneshöfn hefðu sammælst með fulltrúum lífeyrissjóða, sem eru kröfuhafar Reykjaneshafnar og synjað höfðu samkomulaginu, að láta reyna til þrautar á næstu dögum hvort grundvöllur væri fyrir samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana bæjarins. Í tilkynningunni kom jafnframt fram að afgreiðslu tillögu bæjarstjórnar um tilkynningu til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem var á dagskrá bæjarstjórnarfundar Reykjanesbæjar 19. apríl sl. hefði verið frestað til næsta fundar bæjarstjórnar þann 3. maí nk.
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem haldinn var í dag 3. maí var fyrri tillaga dregin til baka en lögð fram og samþykkt eftirfarandi tillaga vegna viðræðna við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu:
„Viðræður við kröfuhafa Reykjanesbæjar (A – B hluta) hafa staðið yfir sl. 18 mánuði, með vitund og samþykki Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Heildarsamkomulag við alla kröfuhafa er ekki í sjónmáli og því ljóst að ekki tekst að skila aðlögunaráætlun sem sýnir hvernig Reykjanesbær getur uppfyllt skilyrði laga um fjármál sveitarfélaga, hvað varðar skuldaviðmið, en frestur til þess rann út 31.mars s.l.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir því að tilkynna Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að samningar séu ekki í sjónmáli.“
Að framansögðu leiðir að til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar blasir við að öllu óbreyttu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerðin verður tekin til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. maí 2015.