190. fundur

21.07.2016 00:00

190. fundur Stjórnar Reykjaneshafnar var haldinn fimmtudaginn 21. júlí 2016 kl. 17:15 á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11, 230 Reykjanesbæ.

Mættir: Davíð Páll Viðarsson formaður, Einar Þ Magnússon aðalmaður, Hjörtur M Guðbjartsson aðalmaður, Hanna Björg Konráðsdóttir aðalmaður, Kristján Jóhannsson aðalmaður, Guðlaugur H Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri.

Dagskrá

1. Fjármál Reykjaneshafnar. (2015110364)
Hafnarstjóri fór yfir hvernig staða mála væri í viðræðum við kröfuhafa hafnarinnar. Kom þar m.a. fram að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur veitt Reykjanesbæ og stofnunum hans frest til 30. september n.k. til þess að ljúka viðræðum við kröfuhafa sína um fjárhagslega endurskipulagningu.

2. Thorsil ehf. (2016030197)
Lagður fram Viðauki nr. 2 við „Endurnýjuð skilyrt staðfesting greiðslu“ frá 15. mars 2016 milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf., en í viðaukanum kemur m.a. fram að fyrsta greiðsla gatnagerðagjalds færist til 30. september 2016.
Samþykkt samhljóða.

3. Sameinað Silicon hf. (201500413)
Lagt fram erindi, dags. 13.07.16, frá Sameinað Silicon hf. þar sem óskað er eftir samþykki Reykjaneshafnar til lagningar affallslagnar kælivatns, frá 1. áfanga verksmiðju þeirra að Stakksbraut 9, í lagnarleið fyrirhugaðra hráefnisfæribanda fyrir verksmiðjuna. Áður ákvörðuð lagnarleið fyrir affallsvatnið reyndist erfið í framkvæmd. Meðfylgjandi eru yfirborðs-  og þverskurðarteikningar af viðkomandi lagnaleið. Þessi affallslögn mun í framtíðinni tengjast við frárennslislögn Reykjanesbæjar sem fyrirhugað er að leggja við Norðurgarð Helguvíkurhafnar á komandi mánuðum. Þar til sú tenging getur átt sér stað er óskað eftir leyfi fyrir því til bráðabirgðar að affallsvatnið verði leitt út í Helguvíkurhöfn.

Eftirfarandi tillaga var lögð fram á fundinum: „Lagt er til að fyrirhuguð lagnarleið affallsvatns verði samþykkt gegn því að lögnin sé niðurgrafin á athafnasvæði hafnarinnar og að tilkoma lagnarinnar krefjist ekki aukins landrýmis umfram þess sem þarf til við lagningu fyrirhugaðra hráefnisfæribanda. Jafnframt er lagt til að heimild til bráðabirgðaútrásar lagnarinnar sé samþykkt enda sé útrásin háð þeim skilyrðum að hún hafi ekki truflandi áhrif á starfsemi hafnarinnar, samkvæmt mati hafnarstjóra Reykjaneshafnar, og að tenging við fyrirhugaða frárennslislögn Reykjanesbæjar við Norðurgarð Helguvíkurhafnar verði um leið og sú lögn er tilbúin til notkunar. Skilyrði þessara samþykkta er að gengið verði frá skriflegu samkomulagi milli Sameinaðs Silicon hf. og Reykjaneshafnar um framkvæmdina, þannig að öll vinna og frágangur sé viðunandi að mati hafnarstjóra Reykjaneshafnar og að Sameinað Silicon hf. beri allan kostnað í tengslum við framkvæmdina.“
Tillagan var samþykkt samhljóða.

4. Staða á vinnumarkaði í júní. (2016010707)
Lagðar fram tölur frá Vinnumálastofnun um stöðuna á vinnumarkaði í júní 2016. Einnig var lagt fram yfirlit yfir þróun atvinnuleysis í Reykjanesbæ frá árinu 2001 til 2016, viðmiðunarmánuðir júní, og yfirlit yfir þróun atvinnuleysis í Reykjanesbæ s.l. ár eftir kyni, aldursbili, menntun, ríkisfangi, starfsgreinum og atvinnugreinum. Í Reykjanesbæ voru 170 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í júní. Það fækkaði um 94 einstaklinga á atvinnuleysisskrá frá sama mánuði 2015. Heildarfjöldi skráðra atvinnulausra á Suðurnesjum öllum var 236 í maí.

5. Lánasjóður sveitarfélaga ohf. (2016070153)
„Eftirfarandi var lagt fram: Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 20.000.000 kr. til 8 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Er lánið tekið til endurfjármögnunar afborgana lána Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Halldóri Karli Hermannssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga f.h. Reykjaneshafnar sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum, verðbótum og kostnaði stendur einföld óskipt ábyrgð eigenda sem er Reykjanesbær sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og setja þau til tryggingar tekjur sínar sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga.“
Samþykkt samhljóða.

6. Upplýsingargjöf hafnarstjóra.
Hafnarstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varðar rekstur hafnarinnar.

7. Önnur mál.

Fleira ekki gert og fundi slitið.