177. fundur

27.01.2016 09:49

177. fundur stjórnar Reykjaneshafnar var haldinn 26. janúar 2016 að Víkurbraut 11, kl. 17:15.

Mættir: Davíð Páll Viðarsson formaður, Einar Magnússon aðalmaður, Hjörtur M Guðbjartsson aðalmaður, Kolbrún Jóna Pétursdóttir aðalmaður, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Guðlaugur H Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs og Jóhann Snorri Sigurbergsson varamaður.


1. Bréf frá Alur Helguvík ehf. dagsett 25.08.15 og Bréf Alur Helguvík, dags. 15.08.15 og 10.12.15. (2015080403)
Á fundinn mættu Halldór Jónsson og Helgi Þór Ingason frá Alur Helguvík ehf.  Einnig mætti á fundinn Magnús H. Guðjónsson frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Farið var yfir fyrirliggjandi erindi frá Alur Helguvík ehf. um nýtingu vaskaðs gallsands til landmótunar í fyrirhugaðri flæðigryfju í Selvík.  Stjórn Reykjaneshafnar hafnar erindi Alur Helguvík ehf. þar sem lög og reglugerðir heimila ekki þessa framkvæmd.

2. Bréf United Silicon hf, dags. 26.01.16. (2016010723)
United Silicon hf. óskar eftir leyfi Reykjaneshafnar til þess að leiða kælivatn vegna 1. áfanga verksmiðunnar út í Helguvíkurhöfn til bráðabirgða, eða þar til lagningu fráveitulagnar við Norðurgarð Helguvíkurhafnar er lokið. Allur kostnaður sem fellur til við tengingu við fráveitulögnina ber United Silicon.

3. Tölvupóstur frá Fitjum-Vörumiðlun, dags. 08.01.16. (2016010702)
Fitjar-Vörumiðlun ehf. óskar eftir að leigja aðstöðu undir gámavöll á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Hafnarstjóra falið að vinna málið áfram.

4. Tölvupóstur frá Lánasjóði sveitarfélaga, dags. 13.01.16. (2015100435)
Lánasjóður sveitarfélaga óskar eftir samþykkt Reykjaneshafnar til þess að upplýsa til þriðja aðila um lánafyrirgreiðslu sjóðsins til hafnarinnar. Lögð var fram eftirfarandi bókun:
„Hér með veitir stjórn Reykjaneshafnar, með vísan til 60. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, Lánsjóði sveitarfélaga heimild að miðla upplýsingum um lán félagsins hjá lánsjóðnum opinberlega og til fjárfesta, þ.m.t. upplýsingar um nafn skuldara, tilgang láns, stöðu láns, lánstíma og önnur kjör.  Upplýsingunum er miðlað í þeim tilgangi að fjárfestar hafi sem besta mynd af útlánasafni og starfsemi lánveitanda og mun miðlunin einkum eiga sér stað í gögnum frá lánveitanda s.s. í ársreikningum, árshlutareikningum, fjárfestakynningum og afmælisritum.“
Samþykkt samhljóða.

5. Hafnarsamband Íslands, fundirgerðir 379, 380 og 381 fundar. (2016010703)
Fundargerðir Hafnarsambands sveitarfélaga nr. 379, 380 og 381 lagðar fram.

6. Staða á vinnumarkaði í nóvember og desember 2015 (2016010707)
Lagðar fram tölur frá Vinnumálastofnun um stöðuna á vinnumarkaði í nóvember og desember 2015. Einnig var lagt fram yfirlit yfir þróun atvinnuleysis í Reykjanesbæ frá árinu 2000 til 2015, viðmiðunarmánuðir desember, og yfirlit yfir þróun atvinnuleysis í Reykjanesbæ s.l. fjögur ár eftir kyni, aldursbili, menntun, ríkisfangi, starfsgreinum og atvinnugreinum. Í Reykjanesbæ voru 283 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í nóvember og 292 í desember. Það fækkaði um 116 einstaklinga á atvinnuleysisskrá í nóvember frá sama mánuði 2014 og um 156 í desember. Heildarfjöldi skráðra atvinnulausra á Suðurnesjum öllum var 396 í nóvember og 417 í desember.

7. Heimaviktunarleyfi. (2016010705)
Heimaviktunarleyfi fyrir Saltver ehf. lagt fram.

8. Gjaldskrár Reykjaneshafnar (2015110362)
Almennir skilmálar Reykjaneshafnar um lóðaúthlutun og lóðargjöld fyrir árið 2016 lagðir fram og samþykktir.
Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir að Reykjaneshöfn og USK geri úttekt á lóðargjöldum á iðnaðarsvæðinu á Helguvík með tillit til útgjaldaþátta þess.

9. Fjármál Reykjaneshafnar (2015110364)
Hafnarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við kröfuhafa hafnarinnar. Eftirfarandi var lagt fram:
Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 18.500.000 kr. til 10 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Er lánið tekið til endurfjármögnunar afborgana lána Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Halldóri Karli Hermannssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga f.h. Reykjaneshafnar sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum, verðbótum og kostnaði stendur einföld óskipt ábyrgð eigenda sem er Reykjanesbær sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og setja þau til tryggingar tekjur sínar sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga.
Samþykkt samhljóða.

10. Upplýsingagjöf hafnarstjóra (2015100419)
Hafnarstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varðar rekstur hafnarinnar.

11. Önnur mál (2015100420)


Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. febrúar nk.