Loftgæði

Orkurannsóknir Keilis sinna loftgæðamælingum í Helguvík

Orkurannsóknir ehf. hafa sett upp vefsíðuna www.andvari.is þar sem fylgst er með loftgæðum á þremur mælistöðvum í kringum athafnasvæðið í Helguvík. Mælistöðvarnar eru staðsettar á Leirunni, í Helguvík og við Mánagrund í Reykjanesbæ.

Mælistöðvar í Helguvík og Leirunni eru búnar sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum sem mæla loftþrýsting, hitastig, vindhraða og vindáttir. Þar er einnig mælt svifryk ásamt köfnunarefnisoxíð (NO), köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og brennisteinsdíoxíð (SO2), en á Mánagrund er einungis mælt brennisteinsdíoxíð.

Á vefsíðunni eru birtar síðustu mælingar frá hverri mælistöð í töflum. Þar eru einnig „mælar“ sem sýna grafískt sumar af þeim breytum sem eru í töflunni. Þessir mælar hafa litamerkingar sem eru meira til gamans og vísa ekki til þeirra marka sem skilgreind eru í reglugerðum. Þá er komin upplýsingasíða um svifryk sem gestir geta notað til að túlka mælingarnar með tilliti til reglugerða og umhverfisáhrifa. Sambærileg síða um gasefni kemur síðar.

Notendur geta halað niður mælingum frá 1. júní 2016 og unnið með í Excel eða öðrum hugbúnaði sem les CSV skrár. Eldri mælingar eru til og verða gerðar aðgengilegar innan tíðar.