Grýla vildi óskilabörnin

Frá þrettándagleði.
Frá þrettándagleði.

Álfar, púkar og ýmsar furðuverur létu norðangarrann ekki á sig fá á þrettándagleði í Reykjanesbæ í gær. Þá var Grýla mætt á svæðið til að sækja Kertasníki og koma honum heim í hellinn sinn. Hún var meira en lítið tilbúin að kippa með sér nokkrum börnum sem höfðu orðið viðskila við foreldra sína en sem betur fer urðu foreldrarnir fyrri til að sækja börnin sín.

Ekki var hægt að kveikja í brennunni í þetta sinn sökum óhagstæðrar vindáttar en að öðru leyti var dagskráin hin besta.  Bæjarbúar létu ekki sitt eftir liggja og mættu dúðaðir til leiks og yljuðu sér við kakó og piparkökur. Álfakór Karlakórs Keflavíkur og Kvennakórs Suðurnesja sungu áramótasöngva við undirleik Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Már Gunnarsson, 14 ára nemandi við Tónlistarskólann, flutti frumsamið jólalag við mikla hrifningu. Botninn í dagskrána sló Björgunarsveitin Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu eins og þeim er einum lagið.

Ljósmyndir © Víkurfréttir