Ársreikningur Reykjanesbæjar 2023

Besta rekstarniðurstaða hjá Reykjanesbæ um langt skeið

Ársreikningur Reykjanesbæjar var samþykktur í seinni umræðu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þriðjudaginn 7. maí, 2024.

Jákvæð rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs nam 1.453 milljónum króna en 2.440 milljónum króna í samanteknum ársreikningi. Aukið veltufé frá rekstri var nýtt til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar vegna mikillar fjölgunar íbúa síðustu árin og í ýmis viðhaldsverkefni vegna rakaskemmda. Fjárfestingar námu 4.965 milljónum króna í A hluta bæjarsjóðs og 7.713 milljónum króna í samanteknum ársreikningi A og B hluta.

Heildartekjur samstæðu A og B hluta voru 36,4 milljarðar króna og rekstrargjöld 28,4 milljarðar króna. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði, skatta og hlutdeild minnihluta nam 8 milljörðum króna. Að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 2,440 milljónir króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir 1,399 milljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu hjá samstæðu sveitarfélagsins.

Heildartekjur A-hluta bæjarsjóðs námu 25 milljörðum króna. Rekstrargjöld bæjarsjóðs námu 22 milljörðum króna. Rekstarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 3 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 1.453 milljónir króna.

Áætlun ársins með viðauka gerði hins vegar ráð fyrir 707 miljónum króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu bæjarsjóðs og er þetta því mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Munar þar mest um hærri útsvarstekjur en áætlað var enda er það stefna Reykjanesbæjar að áætla tekjur hóflega.

Eignir samstæðu A og B hluta nema 87,7 milljörðum króna og A-hluta bæjarsjóðs 47,2 milljörðum króna. Hreint veltufé frá rekstri samstæðu A og B hluta nam 8,3 milljörðum króna og 3,9 milljörðum króna í bæjarsjóði. Engar lántökur áttu sér stað á árinu 2023 og nema skuldir á hvern íbúa 1,3 milljónum króna.

Nú er unnið að margvíslegri uppbyggingu á vegum sveitarfélagsins. Meðal annars byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla auk tveggja tveggja leikskóla sem ráðgert er að taka í notkun síðar á árinu.

Skatttekjur og framlög úr jöfnunarsjóði námu 919 þúsund króna á hvern íbúa á árinu 2023 í stað 848 þúsund króna á árinu 2022.

Skuldaviðmið A hluta bæjarsjóðs skv. reglugerð 502/2012 er 87,74% og samstæðu A og B hluta 105,96% og hefur lækkað frá árinu 2022.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri  Kjartan.M.Kjartansson@Reykjanesbaer.is