Reglur um liðveislu

7.2. Liðveisla
7.2.1. Markmið Markmið liðveislu, sbr. 24 gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum, er að rjúfa félaglega einangrun einstaklings, efla sjálfstæði í félagslegum samskiptum og til aukinnar sjálfsbjargar ásamt því að veita persónulegan stuðning og aðstoð sem miðar að því að styðja einstaklinginn til að njóta menningar og félagslífs að því marki sem geta hans leyfir.
7.2.2. Markhópur og forsendur þjónustu Liðveisla er fyrir fatlað fólk á aldrinum 6 – 66 ára, með lögheimili í Reykjanesbæ, sem þarf persónulegan stuðning og aðstoð til að rjúfa félagslega einangrun. Ennfremur má veita liðveislu börnum á aldrinum 6-17 ára sem hafa vægari þroskaraskanir og uppfylla ofangreind skilyrði um félagslega einangrun. Þjónustan er háð fjárhagsáætlun hverju sinni. Liðveisla er ekki veitt einstaklingum sem búa í búsetuúrræðum þar sem veitt er sólarhringsþjónusta.
7.2.3. Umsóknir Umsóknum um liðveislu skal skila inn í þjónustuver Reykjanesbæjar Tjarnargötu 12 á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókninni eiga meðal annars að koma fram almennar upplýsingar um umsækjanda, fötlun/færniskerðing og ástæður umsóknar. Hafi umsækjandi ekki getu til að sjá um eigin umsókn skal sjá til þess að hann hafi/fái umboðsmann/talsmann sem gætir hagsmuna hans.
7.2.4. Mat á þjónustuþörf Ráðgjafi hjá Fjölskyldu og félagsþjónustu Reykjanesbæjar (FFR) metur þörf einstaklingsins til þjónustu út frá þeim upplýsingum sem berast með umsókn. Kallað er eftir viðbótarupplýsingum ef þörf krefur. Sérstaklega er skoðuð félagsleg staða umsækjanda og fjölskylduaðstæður. Sé umsókn samþykkt skal gera samning um liðveislu. Sé umsókn synjað á að upplýsa umsækjanda bréflega ásamt upplýsingum um áfrýjunarrétt. Sjá greinar 7.2.12 og 7.2.13 í reglum þessum.
7.2.5. Umfang þjónustu Almennt er veitt samþykki fyrir 8 klst. á mánuði. Við sérstakar aðstæður og að fengnu samþykki Fjölskyldu- og félagsmálaráðs er heimilt að veita fleiri tíma en að ofan greinir.
7.2.6. Samningur um liðveislu Samningur um liðveislu er gerður um alla veitta liðveislu. Í samningi kemur m.a. fram heimilaður tímafjöldi á mánuði, lengd samnings og markmið sem stefnt er að með þjónustunni. Einnig kemur fram í samningnum heimilaður akstur og endurgreiðsla á útlögðum kostnaði. Allir liðveislusamningar eru tímabundnir. Gildistími samnings getur verið allt að 12 mánuðir. Eftir að allir aðilar hafa undirritað samning getur liðveislan hafist. Liðveisla fellur sjálfkrafa niður við samningslok nema gerður hafi verið nýr samningur. Hafi vinnuskýrslum ekki verið skilað í 2 mánuði er litið svo á að samningi hafi verið rift nema um annað sé samið.
7.2.7. Skipulag þjónustunnar Liðveisla getur verið útfærð á tvo vegu: a) Einstaklingsliðveisla – samstarf eins einstaklings og eins liðveitanda. b) Liðveisla í hópi – tveir eða fleiri einstaklingar í samstarfi við einn eða fleiri liðveitendur.
7.2.8. Útlagður kostnaður Einstaklingur og liðveitandi greiða hver fyrir sig þann kostnað sem fylgt getur liðveislunni. Liðveitandi fær kostnað, að hámarki kr. 3000.-, endurgreiddan gegn framvísun kvittana. Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar ákvarðar hámark endurgreidds kostnaðar.
7.2.9. Akstur Nýta skal almenningssamgöngur eins og kostur er. Ef liðveitandi þarf að leggja til eigin bíl greiðir FFR að hámarki 100 km á mánuði. Fjölskyldu og félagsmálaráð Reykjanesbæjar ákvarðar hámark kílómetra.
7.2.10. Starfsmenn Reykjanesbær leitast við að ráða liðveitendur sem hafa til að bera hæfni, eiginleika, reynslu og þekkingu sem nýtist í starfinu. Liðveitendum er óheimilt að þiggja gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá notendum eða aðstandendum þeirra. Liðveitendum er óheimilt að geyma lykla að heimilum notenda eða aka bílum notenda nema um það sé samið í liðveislusamningi. Liðveitendur eru, líkt og aðrir starfsmenn, bundnir þagnarskyldu og gildir sú skylda þó liðveitandi láti af störfum. Liðveitendur eru ráðnir eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Suðurnesja og launanefndar sveitafélaga. Vinnutími liðveitenda er að jafnaði óreglulegur og í samráði við notanda og/eða forráðamenn hans. Launamánuðurinn er frá 15. til 14. hvers mánaðar. Liðveitandi skal skila tíma- og akstursskýrslum ásamt kvittunum vegna útlagðs kostnaðar, fyrir 14. hvers mánaðar. Tíma- og akstursskýrslur skulu staðfestar af forráðamanni barns yngra en 18 ára, notanda, eða talsmanni. Sé vinnuskýrslu ekki skilað í 2 mánuði samfellt er litið svo á að samningurinn sé fallinn úr gildi.
7.2.11. Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum FFR annast framkvæmd liðveislu í umboði Fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar.
7.2.12. Niðurstaða og rökstuðningur synjunar Sé umsókn um liðveislu synjað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða þessara reglna. Þar skal jafnframt kynntur réttur umsækjanda til frekari rökstuðnings og réttur til að áfrýja afgreiðslunni.
7.2.13. Málskot Umsækjandi hefur fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til áfrýjunarnefndar Fjölskyldu- og félagsmálaráðs. Ákvörðun hennar er hægt að skjóta til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í Velferðarráðuneytinu, innan þriggja mánaða, sbr. 24.gr. í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum