Barnasáttmálinn í Reykjanesbæ

Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjanesbæ

Vorið 2020 undirrituðu Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastýra UNICEF á Íslandi og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög.

Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi en barnasáttmálinn er notaður sem sérstakt gæðastjórnunarverkfæri á öllum sviðum. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF sem kallast Child friendly cities inititave og hefur verið innleitt í hundruðum borga frá því árið 1996. Verkefnið hefur verið innleitt hér á landi undir nafninu Barnvæn sveitarfélög frá því árið 2016. Barnvænt sveitarfélag skuldbindur sig til þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins.

Grundvallarákvæði Barnasáttmálans

2. gr. Öll börn eru jöfn

Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala o.s.frv.

3. gr Það sem barninu er fyrir bestu

Það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang við alla ákvarðanatöku sem varðar börn

6. gr. Líf og þroski

Barnvæn sveitarfélög auðvelda börnum á öllum aldri að nálgast þá þjónustu sem þeim ber réttur til, án nauðsynlegrar aðkoma foreldra.

12. gr. Virðing fyrir skoðunum barna

Börn eiga rétt á því að fá að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í öllum málum sem þau varða

42 gr. Allir verða að þekkja réttindi barna

Þekking á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er grundvallarforsenda þess að réttindi barna séu virt í framkvæmd

 

Innleiðingarferlið

Innleiðing Barnvæns sveitarfélags er hringrás en ekki átaksverkefni og felur hver hringrás í sér átta skref. Aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar var samþykkt í nóvember 2022 og við það færðist sveitarfélagið því yfir á fimmta skrefið, Framkvæmd.

Innleiðingarhringurinn

1. Staðfesting

Tekin er þverpólitísk ákvörðun um innleiðingu verkefnisin í sveitarstjórn. Það er gert til þess að skapa samstöðu innan sveitarfélagsins og skipa verkefninu tryggan sess til lengri tíma.

Reykjanesbær skrifar undir vorið 2020

2. Stöðumat

Annað skrefið er umfangsmesta skref ferlisins. Tilgangurinn með því er að meta stöðu réttinda barna innan sveitarfélagsins. stöðumatið felur í sér mikla gagnasöfnun en þá er tölfræðigögnum safnað, leiðbeinandi spurningalistum svarað, spurningakannanir eru lagðar fyrir börn og fullorðna, barnaþing er haldið og viðtöl eru tekin við séfræðihópa barna.

Hér má sjá greingerð Reykjanesbæjar um niðurstöður stöðumatsins.

 

3. Fræðsla

Stöðumatið gefur til kynna hversu mikillar fræðslu er þörf innan sveitarfélagsins og út frá því er ákveðið hvernig er best að hátta henni. Tryggja þarf að börn og fullorðnir þekki réttindi barna og geti sett þau í samhengi við daglegt líf og störf innan sveitarfélagsins. viðhalda þarf fræðslunni og því þarf hún að vera regluleg.

Hér má finna fræðslumyndbönd frá UNICEF

4. Aðgerðaáætlun

Aðgerðaáætlun skal byggja á gögnum úr stöðumatinu og mikilvægt er að hún miði að bæði langtíma og skammtíma markmiðum þar sem það er mikilvægt að börn finni strax fyrir áhrifum af verkefninu.

Hér má finna aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar sem samþykkt var í nóvember 2022.

5. Framkvæmd

Eftir að aðgerðaáætlun hefur verið samþykkt bæði af UNICEF og sveitarstjórn er kominn tími til að framkvæma aðgerðirnar sem í henni eru.

Skipaður er ábyrgðaraðili fyrir hverri aðgerð í áætluninni sem ber ábyrgð á að koma aðgerðinni í framkvæmd innan fyrir fram skilgreinds tímaramma.

6. Skýrsla

Umsjónarmaður verkefnisins ásamt stýrihópi og ungmennaráði skila skýrslu til UNICEF um framgang verkefnisins.

Í skýrslu umsjónarmanns og stýrihóps er lögð áhersla á að útskýra hvernig gekk með framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætluninni. Skýrsla ungmennaráðs fjallar aðalega um þau verkefni sem ráðið hefur unnið í tengslum við innleiðinguna ásamt því að taka fram hvaða breytinginum börn í sveitarfélaginu hafa fundið fyrir á innleiðingartímanum.

7. Mat og viðurkenning

Að fyrstu sex skrefunum loknum er komið að úttekt á verkefninu. Unicef framkvæmir úttektina og metur hvort að verkefnið hafi verið réttindum barna til framdráttar innan sveitarfélagsins og hvort aðgerðir í aðgerðaáætlun hafa verið framkvæmdar.

Meti UNCIEF sem svo fær sveitarfélagið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag.

8. Ný markmið og endurmat

Viðurkenning Barnvæns sveitarfélags gildir í þrjú ár frá því að hún er veitt. Á þeim tíma þarf sveitarfélagið að setja sér ný markmið og hefja nýtt stöðumat ætli það sér að hljóta endurmat. Þá þarf sveitarfélagið að fara í gegnum innleiðingarferlið að nýju og ef vel gengur hlýtur það nýja viðurkenningu.