Menningarverðlaun og listamaður Reykjanesbæjar

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, er veitt árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem unnið hefur vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar tekur ákvörðun um verðlaunahafann að undangenginni auglýsingu þar sem óskað er eftir tillögum frá bæjarbúum.

Verðlaunagripurinn Súlan

Súlan var upphaflega í formi grips sem listamaðurinn Karl Olsen úr Reykjanesbæ hannaði og smíðaði. Má þar sjá fuglinn Súlu, sem er í merki bæjarins, gerða úr málmi, og er hún fest á stein úr landi Reykjanesbæjar. Árið 2005 hannaði listakonan Elísabet Ásberg nýjan grip. Þar má einnig sjá Súluna en nú aðeins sem höfuð smíðað úr silfri og fest á lítinn stöpul úr steini. Einnig er afhent undirritað og innrammað verðlaunaskjal.

Listamaður Reykjanesbæjar

Í lok hvers kjörtímabils er óskað eftir tillögum eða óskum um listamann Reykjanesbæjar. Allar listgreinar og öll listform koma til greina. Bæjarráð úthlutar nafnbótinni. Ráðið skal fara yfir þær óskir og tillögur sem fram koma og er einnig heimilt að bæta við nöfnum sem til greina koma eftir því sem ástæða er til. Bæjarráði er heimilt að ráða sér aðstoðarfólk eftir þörfum vegna úthlutunar þessarar. Sá sem hlýtur nafnbótina Listamaður Reykjanesbæjar fær styrk til að auðvelda viðkomandi að stunda list sína, viðurkenningarspjald og grip til minningar um atburðinn. Þá verða nöfn þeirra skráð á stall listaverks sem stendur í skrúðgarði bæjarins. Listamanni Reykjanesbæjar er skylt að halda sýningu eða kynna á annan hátt list sína.