Árlegir viðburðir

ljosanott_2017_fostudagur_kjotsupa_02091701

Í Reykjanesbæ er öflugt mannlíf og fjöldinn allur af uppákomum, viðburðum og hátíðum árið um kring.

Hér fyrir neðan eru útlistaðir árlegir viðburðir en ótal viðburðir eru haldnir meðal annars á vegum safnanna í bænum og má sjá viðburðardagatal hér:  Viðburðardagatal

Þrettándagleði

er haldin 6. janúar ár hvert með blysför, brennu og flugeldasýningu meðal annars.

Safnahelgi á Suðurnesjum

er haldin árlega, uppfull af skemmtilegum uppákomum og viðburðum um allan Reykjanesskagann. Safnahelgin er samstarfsverkefni safna, setra og sýninga á Suðurnesjum sem opna dyrnar sínar fyrir íbúum og gestum svæðisins. Dagskrá helgarinnar er fjölbreytt og skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Menningarstofnanir Reykjanesbæjar taka virkan þátt í dagskránni.

 BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ

er haldin í lok apríl og stendur yfir í 10 daga. Á hátíðinni eru börn, ungmenni og fjölskyldur settar í forgang með fjölbreyttum og skemmtilegum hætti. Á meðal viðburða á hátíðinni eru Listahátíð barna og Hæfileikahátíð grunnskólanna en einnig er gefið út sérstakt BAUNabréf með ýmis konar verkefnum og þrautum fyrir börn og fjölskyldur að leysa í sameiningu. Markmiðið með því er að skapa skemmtilegar samverustundir fyrir fjölskyldur þeim að kostnaðarlausu og að kynna fyrir fjölskyldum allt það sem bærinn hefur upp á að bjóða.

Heimasíða BAUNar

Sjómannadagurinn

hefur verið haldinn hátíðlegur með dagskrá í Duus Safnahúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar. Dagskráin er unnin í samstarfi nokkurra aðila og hefst með sjómannamessu sem haldin er til skiptis á vegum Keflavíkurkirkju og Ytri-Njarðvíkurkirkju. Í lok dagskrár er lagður krans við minnismerki sjómanna við Hafnargötu fyrir tilstilli Vísis, félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, Vélstjórafélags Suðurnesja og Verkalýðs- og sjómannafélags Suðurnesja.

Þjóðhátíðardagurinn - 17. júní

er fagnað með dagskrá í skrúðgarðinum við Tjarnargötu í Keflavík. Dagskráin hefst með hátíðardagská og við tekur skemmtidagskrá fyrir börn.

Fánahyllar  Fjallkonan Ræðumaður dagsins

Ljósanótt

er haldin fyrstu helgina í september ár hvert og er áhersla lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hátíðin teygi stundum anga sína út fyrir þann ramma. Hámarki nær hún á laugardagskvöldi með stórtónleikum á útisviði, lýsingu Bergsins og glæsilegri flugeldasýningu. Hátíðin fer fram þá helgi þar sem fyrsta laugardag ber upp í september. 

Heimasíða Ljósanætur

Aðventugarðurinn 

er opinn í desember en hann er staðsettur við skrúðgarðinn við Tjarnargötu í Keflavík. Þar er hægt að kaupa jólalegan varning í jólakofum, skoða Leikskólalundinn og njóta fallegu jólaskreytinganna sem settar eru upp ár hvert. Hluti af Aðventugarðinum er Aðventusvellið en það er umhverfisvænt skautasvell sem sett er upp í skrúðgarðinum.