Umferð og samgöngur

Reykjanesbær hefur á undanförnum árum unnið skipulega að því að auka umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Í því felst m.a. að koma í veg fyrir hraðakstur innan bæjarmarkanna, sér í lagi í íbúðahverfum og í kringum skóla og gönguleiðir. Af framkvæmdum sem bæta umferðaröryggi má nefna umferðarljós og hringtorg, lækkun hámarkshraða í 30 km hverfum og ýmsar smærri hraðahindrandi aðgerðir. 

Þeir sem aka um bæinn eru hvattir til að kynna sér vandlega meðfylgjandi kort af hverfum Reykjanesbæjar þar sem merkt er inn hvar í sveitarfélaginu hraðatakmarkanir miðast við 30 km/klst og hvar hámarkshraði verður áfram 50 km/klst.

Rautt táknar 50 km hámarkshraða.  Gult táknar 30 km hámarkshraða.

Færð á vegum

Vegagerðin miðlar upplýsingum um færð og veður á vef Vegagerðarinnar, í upplýsingasíma 1777, í sjálfvirkum símsvara 1779 og á textavarpi RUV á síðum 470-494. Í upplýsingasíma Vegagerðarinnar eru einnig veittar upplýsingar um þjónustu á vegakerfinu, opnun fjallvega o.fl.
 
Alla daga eru sendar út tilkynningar um færð og veður, framkvæmdir, lokanir og þungatakmarkanir sem geta haft áhrif á akstur um vegakerfið.

 

Vetrarþjónusta

Umhverfismiðstöð Reykjanesbæjar hefur yfirumsjón með snjómokstri og hálkuvörnum á götum, gangstéttum og göngustígum bæjarins samkvæmt ákveðinni forgangsröðun. Hjá Þjónustumiðstöð er vakt allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Frá 1. október til 15. apríl fer vaktmaður af stað kl. 4:30 og kannar aðstæður hverju sinni. Ef líkur eru á að hálka og eða snjór hafi safnast fyrir á götum bæjarins eru gerðar viðeigandi ráðstafanir. Símanúmer Umhverfismiðstöðvar er 420 3200.

Snjómokstur og hálkueyðing gatna

Þær götur sem eru í forgangi eru strætóleiðir, stofnbrautir og helstu tengibrautir sem liggja í átt að neyðarþjónustu s.s. sjúkrahúsi, lögreglu og slökkvistöð auk gatna sem liggja í átt að skólum og leikskólum.

Þær götur sem liggja í brekku eru einnig í forgangi hvað varðar hálkueyðingu. Leitast er við að moka bílastæði við grunn- og leikskóla þótt það sé ekki í forgangi en oftast eru bílastæðin hreinsuð daginn eftir. Húsagötur eru ekki mokaðar nema að þær séu orðnar þungfærar. Ekki er mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar að sjá um það sjálfir. Við hálkueyðingu gatna er eingöngu notast við salt og þá í eins litlu magni og mögulegt er.

Snjómokstur og hálkueyðing gönguleiða

Miðað er við að moka fyrst þær leiðir sem liggja að grunnskólum og leikskólum. Síðan eru gönguleiðir meðfram helstu stofn- og tengibrautum og göngustígar á opnum svæðum hreinsaðir. Við hálkuvarnir á gönguleiðum er notast við salt og sand sem blandað er saman.

Húsagötur og fáfarnari götur

Húsagötur og fáfarnari götur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru orðnar þungfærar venjulegum einkabílum sem eru útbúnir til vetraraksturs. Ekki verður mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar því að sjá um það sjálfir.

 

Hraðatakmarkandi aðgerðir

Fjöldi beiðna um hraðatakmarkandi aðgerðir berast sveitarfélaginu á ári hverju og ljóst að minni ökuhraði eykur umferðaröryggi. Sumar götur eru þó þess eðlis að þær þola meiri ökuhraða, bæði vegna skipulags innan hverfis og umferðarálags sem þarf að greiða fyrir á tilteknum stöðum. Mikilvægt er að þær beiðnir sem berast sveitarfélaginu séu unnar á gagnsæjan máta og samræmis gætt við vinnslu þeirra til að stuðla að því að ákveðin heildarsýn sé höfð að leiðarljósi þegar afstaða er tekin til óska íbúa. Það stuðlar auk þess að sátt um umferðarskipulag bæjarins.

Óskir um hraðatakmarkanir af ýmsu tagi berast sveitarfélaginu reglulega, og skulu slíkar beiðnir berast starfsmönnum Umhverfis- og framkvæmdasviðs í gegnum ábendingagátt Reykjanesbæjar. Starfsmaður þess mun meta beiðnina í samræmi við gátlista. Framhald máls er háð þeirri niðurstöðu sem verkferilinn leiðir af sér. Sé skýrt að fara þurfi í hraðatakmarkandi aðgerðir eftir að verkferli hefur verið fylgt, þarf að velja hvers konar hraðatakmörkun hentar best. Ef niðurstaða leiðir í ljós að fara þurfi í meiriháttar aðgerðir þarf að leggja ákvörðun fyrir Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar. 

Almenningssamgöngur

Innanbæjarstrætó

Sumaráætlun innanbæjarstrætó er í gildi til og með 25.ágúst 2024.
Um er að ræða leiðir R1, R3 og R4.

  • Ekið frá 07:00 til 19:30 á virkum dögum
  • Ekið frá 10:00 til 18:00 á laugardögum
  • Ekki verður ekið á sunnudögum

Strætó - Leið R1strætó - leið r3strætó - leið r4

kort af LEIÐARKERFI MEÐ STOPPISTÖÐVUM

Gjaldskrá innanbæjarstrætó

Gjaldskrá er að finna hér

Landsbyggðarstrætó

Strætó ekur eftir leið 55 milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðis og eftir leiðum 87, 88 og 89 frá Reykjanesbæ til annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum. 

Strætó - leið 55Strætó - leið 87Strætó - leið 88Strætó - leið 89