Merki Reykjanesbæjar, Súlan

„Súla“ - Greinargerð með verðlaunatillögu í samkeppni um merki Reykjanesbæjar 1996.

Í suðvestur frá Reykjanesi rís móbergskletturinn Eldey og leiðir hugann að ævarandi umbrotum jarðskorpunnar. En þar dafnar líka fjörugt og lifandi samfélag, súlubyggð, sem er þekkt langt út yfir strendur Íslands fyrir að vera með þeim stærstu í heimi. Margir telja súluna einn glæsilegasta sjófuglinn á norðurhveli jarðar og veiðiaðferðir hennar, svonefnt súlukast, vekur furðu áhorfenda- og forvitni hinna sem um heyra, enda fáheyrt að fuglar steypi sér úr ógnarhæðum ofan í hafdjúpið og grípi síðan feng sinn á uppleiðinni.

Fáir munu draga í efa að súlubyggðin í Eldey undan Reykjanesi sé einstakt náttúrufyrirbæri sem nágrannar í mannabyggðum mega vera stoltir af. Það er því vel við hæfi að bæjarfélag sem kennir sig við Reykjanes geri súluna að einkennisfugli. Súlan verður þá tákn hinnar ómetanlegu náttúru. En jafnframt getur hún verið tákn fyrir athafnalíf. Súlan er félagslyndur fugl og býr þröngt, svo helst minnir á þéttbýli mannfólksins, forsendu blómlegra viðskipta. Súlan sækir lífsbjörgina í sjóinn eins og menn hafa gert um aldir og súlan ræður yfir flugtækninni sem varð mönnum hvati til að virkja draum sinn og svífa sjálfir um loftin.

Á merkinu rís upp hvít súla sem tákn um lifandi samfélag. Súlan breiðir út vængina og hefur sig til flugs. En um leið eiga vængirnir að minna á hvítfyssandi öldur. Grunnflöturinn er blár, himinn og haf.

 Guðjón Davíð Jónsson