Saga

Reykjanesbær varð til við sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur  og Hafna 11. júní 1994. Sveitarfélagið er staðsett á vestanverðum Reykjanesskaganum, nær frá norðurmörkum Keflavíkur og út á Reykjanestá. Svæðið  um 145.000 hektarar. Reykjanesbær er fjórða stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 19.000 íbúa (nóvember 2019). Íbúafjölgun hefur verið hröð á undanförnum árum og langt yfir landsmeðaltali. 

Nálægðin við hafið hefur ávallt mótað söguna. Í Höfnum hafa verið rannsakaðar leifar bústaðar sem er frá elstu tíð og þykir varpa nýju ljósi á landnám Íslands. Í Keflavík hefur verið miðstöð verslunar á Suðurnesjum frá alda öðli. Mikilvægi staðarins markaðist fyrst og fremst af miklu framboði af fiski sem veiddist steinsnar frá landinu. Jarðirnar Innri- og Ytri-Njarðvík og jarðeignir í Hafnahreppi voru alla tíð eftirsóttar sökum nálægðar við fiskimiðin. Útgerð var með miklum blóma allt fram undir lok 20. aldar þegar kvótinn var að mestu seldur úr bæjarfélaginu. Hægt er að kynna sér þessa sögu í Duus Safnahúsum.

Í seinna stríði hóf Bandaríkjaher byggingu Keflavíkurflugvallar sem hefur verið í rekstri alla tíð síðan. Lengst af var flugvöllurinn rekinn í samvinnu við varnarliðið sem hafði aðsetur við flugvöllinn. Herstöðin var lögð niður árið 2006 eftir um hálfrar aldar starfsemi á vellinum. Þótt þessar miklu sviptingar hafi haft mikil áhrif á bæjarlífið þá hafa þær ekki dregið máttinn úr samfélaginu.

Í dag er aðaleinkenni Reykjanesbæjar fjölbreytni. Hér má finna mennta- og þjónustustofnanir, verslanir, hótel, fjölbreyttan iðnað og frumkvöðlafyrirtæki. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og gamla varnarsvæðið hefur orðið að nýju íbúðahverfi, Ásbrú. Þar er Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, ásamt frumkvöðlasetri og sprotafyrirtækjum.

Reykjanesbær er innan Reykjanes jarðvangs sem er vottaður UNESCO jarðvangur. Slík svæði búa yfir merkilegum jarðminjum á heimsvísu sem samanlagt skýra frá mótun lands frá upphafi og áhrif jarðfræðinnar á þróunarsögu, menningu og lífríki svæðanna. Jarðvangar eru því áhugaverðir vegna fræðslugildis, fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja. Flekaskil Norður Ameríku og Evrasíu eru sýnileg á Reykjanesi og gerir svæðið einstakt á heimsvísu. Hægt er að ganga yfir flekaskilin á Brú milli heimsálfa, sem er einn af fjölmennustu ferðamannastöðum Reykjaness.

Hér er horftu yfir bæinn á fallegum sumardegi. Ljósm. OZZO