Mikilvægt að þeir sem búa við heimilisofbeldi hafi samband við Lögregluna á Suðurnesjum í gegnum Neyðarlínuna 112 eða Velferðarsvið Reykjanesbæjar sími 421 6700 því enginn á að þurfa að búa við ofbeldi frá sínum nánustu.
Verklagið hjá lögreglunni og Velferðarsviði byggist á því að farið er á heimili þegar tilkynning berst til lögreglu um heimilisofbeldi. Á heimilinu er veitt fyrsta hjálp ásamt því að rannsaka málið. Ákveðin eftirfylgni er í málunum sem felst í að starfsmaður Velferðarsviðs hefur samband við þolanda innan þriggja daga til að meta þörf á stuðningi og að veita upplýsingar um úrræði. Meintum geranda er einnig boðið að koma í viðtal til að fara yfir hans stöðu. Lögreglan og starfsmaður Velferðarsviðs fara svo á heimili þolenda til að fara yfir stöðuna.
Heimilisofbeldi getur haft varanleg áhrif á andlega og líkamlegu heilsu þolandans. Börn eru líka þolendur heimilisofbeldis og þróa oft með sér ákveðin einkenni eins og depurð, lágt sjálfsmat, verkkvíða, skerta félagsfærni, samskiptavanda og margvíslegan tilfinninga- og hegðunarvanda. Það er því mikilvægt að mæta líka þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi og veita þeim viðeigandi stuðning svo þau geti unnið úr reynslu sinni.
Bæklingur/Bookleg/Broszura
Trappan
Barnavernd Reykjanesbæjar veitir börnum sem hafa búið við heimilisofbeldi upp á Tröppu samtöl allt frá fjögurra ára aldri. Tröppu samtölin byggjast á þremur þrepum og um er að ræða vikuleg viðtöl í 6-10 vikur. Í þrepi eitt er lögð áhersla á að mynda tengsl við barnið, því þarf að líða vel og upplifa sig öruggt svo að það geti greint frá erfiðri lífsreynslu. Í þrepi tvö er lögð áhersla á uppbyggingu þar sem börnin vinna úr lífsreynslu sinni og setja orð á tilfinningarnar. Í þrepi þrjú er unnið með þekkinguna sem hefur skapast í þrepi tvö, farið í tengslakort barnanna og börnin fá aðstoð við að búa til ákveðið hjálparkort. Einnig er rætt um framtíðina og lagt er mat á það hvort börnin þurfi á sérhæfðari meðferð að halda en Tröppu samtöl bjóða upp á.