Fjármála- og stjórnsýslusvið

Hlutverk og markmið fjármála- og stjórnsýslusviðs er að hafa forystu í vandaðri stjórnsýslu og finna leiðir til að þróa vinnuaðferðir og auka rafræna stjórnsýslu. Verkefni sviðsins eru fjölbreytt og er um að ræða þjónustu og ráðgjöf sem veitt er þvert á öll svið.

Fjármálatengd verkefni eru m.a. fjármálastjórn bæjarsjóðs og stofnana hans, safna, vinna og dreifa upplýsingum fyrir stofnanir bæjarins, bæjarfulltrúa og bæjarbúa. Ásamt því að hafa eftirlit með tekjum og útgjöldum bæjarsjóðs, hafa umsjón með lána og sjóðastýringu en einnig að leita leiða til að bæta verklag og auka hagræði í rekstri og stýra, samræma og hagræða í innkaupum bæjarins samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 ásamt ýmsum öðrum verkefnum.

Launa- og kjaradeild sinnir launavinnslu, veitir stuðning við stjórnendur við gerð ráðningasamninga og hefur yfirumsjón með jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.

Önnur verkefni á sviðinu eru gæðamál, mannauðsmál, persónuverndarmál og skjalavarsla.

Á meðal þeirra verkefna sem falla undir gæðamál er gæðahandbók sveitarfélagsins en megin markmiðið með henni er að samræma verklag ásamt því að rýna það og finna leiðir til að þróa betri vinnuaðferðir. Einnig er innleiðing á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna undir verkefninu Barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF hluti af gæðamálum en sáttmálinn er nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna.

Mannauðsdeild veitir ráðgjöf og stuðning við stjórnendur í ýmsum mannauðstengdum málum. Reykjanesbær leggur áherslu á að laða að, styðja við og þróa starfsfólk þannig að það geti þjónað íbúum og öðrum gestum á þann hátt sem ávinnur sér virðingu og traust samfélagsins. Ásamt því er deildin með önnur verkefni eins og jafnréttismál og símenntun.

Hlutverk persónuverndarmála er að veita stuðning og fræðslu til starfsmanna um meðferð persónuupplýsinga í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Skjaladeild sinnir skjalavörslu í samræmi við lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, notendaaðstoð og fundaritun hjá nefndum og ráðum.

Stjórnskipulag Reykjanesbæjar