576. fundur

19.11.2019 17:00

576. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 19. nóvember 2019 kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Styrmir Gauti Fjeldsted, Gunnar Felix Rúnarsson, Ríkharður Ibsen, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 7. og 14. nóvember 2019 (2019050058)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Til máls tók Gunnar Felix Rúnarsson, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs frá 14. nóvember 2019:

„Það sem kemur mér verulega á óvart varðandi fjárhagsáætlunina er hækkun á milli ára hjá stjórnsýslu. Árið 2019 var kostnaðurinn 45.000.000 en í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir kostnaðaraukningu en kostnaðurinn mun verða 84.915.000 kr. Hér er um að ræða kostnaðaraukningu upp á tæpar 40.000.000 kr. sem er helmings hækkun. Telur meirihlutinn það vera eðlilegt?
Ég skil vel að kostnaðurinn vegna rafrænnar stjórnsýslu sé óhjákvæmilegur. Var nauðsynlegt að stækka báknið? Ég bara spyr. Ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé rétti tíminn til að auka kostnað stjórnsýslunnar.
Hér ríkir mikil óvissa á svæðinu og aukið atvinnuleysi. Almennt er talið að við séum að fara í gegnum niðursveiflu. Er þá eðlilegt að auka álögur á bæjarbúa vegna stjórnsýslunnar, væri ekki skynsamlegra að lækka álögur á bæjarbúa?“

Gunnar Felix Rúnarsson (M)

Til máls tók Baldur Þ. Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 7. nóvember 2019:

„Í þeirri gjaldskrá sem nú er lögð fram er gert ráð fyrir að mæta hækkun fasteignamats á næsta ári með því að færa fasteignaskattsprósentuna í 0,32% af heildarfasteignamati. Með þeirri lækkun mun innheimtur fasteignaskattur samt hækka á milli ára.
Minnihlutinn harmar að bættur hagur bæjarsjóðs sé ekki nýttur til að svara ákalli bæjarbúa um hóflega innheimtu fasteignaskatta. ASÍ og Byggðastofnun hafa nýlega tekið saman skýrslur þar sem á það er bent að Reykjanesbær innheimtir hæstu fasteignaskatta af öllum bæjarfélögum landsins. Langþráðu lögbundnu skuldaviðmiði hefur verið náð og ORK sjóðurinn skilaði rúmum fjórum milljörðum til bæjarsjóðs þannig að óþarft er að nýta þennan tekjulið fram úr hófi.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (S), Baldur Þ. Guðmundsson (S), Ríkharður Ibsen (S), Gunnar Þórarinsson (Á) og Gunnar Felix Rúnarsson (M).

Til máls tóku Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson og Ríkharður Ibsen.

Fundargerðin frá 7. nóvember samþykkt með öllum liðum 6-5.

Fundargerðin frá 14. nóvember samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1243. fundar bæjarráðs 7. nóvember 2019
Fundargerð 1244. fundar bæjarráðs 14. nóvember 2019

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 15. nóvember 2019 (2019050346)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 15. nóvember til sérstakrar samþykktar:

Fjórði liður fundargerðarinnar Bjarkardalur 16-26 - Fyrirspurn um breytta hæðarsetningu (2019110113) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Fimmti liður fundargerðarinnar Heiðarból 27 - Fyrirspurn um bílskúr - Niðurstaða grenndarkynningar (2019090463) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf síðan orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson, Ríkharður Ibsen, Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 239. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 15. nóvember 2019

3. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 6. nóvember 2019 (2019090452)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Baldur Þ. Guðmundsson og Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 3. fundar menningar- og atvinnuráðs 6. nóvember 2019

4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 12. nóvember 2019 (2019050295)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Styrmir Gauti Fjeldsted, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 135. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 12. nóvember 2019

5. Fundargerð lýðheilsuráðs 13. nóvember 2019 (2019090494)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 3. fundar lýðheilsuráðs 13. nóvember 2019

6. Fundargerð velferðarráðs 13. nóvember 2019 (2019050527)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 381. fundar velferðarráðs 13. nóvember 2019

7. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2020 - 2023 - fyrri umræða (2019070112)

Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson er fylgdi áætluninni úr hlaði.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar:

„Fjárhagslega sjálfbært sveitarfélag

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020-2023 er í samræmi við gildandi aðlögunaráætlun og samkomulag við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Samkvæmt því samkomulagi er gert ráð fyrir að rekstur Reykjanesbæjar skili að lágmarki 11,8% framlegð fyrir fjármagnsliði og fjárfestingar á næsta ári og er gert ráð fyrir þeirri framlegð í áætlun.

Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að tekjur bæjarsjóðs verði 16,7 milljarðar króna sem er í ágætu samræmi við fyrri áætlanir. Gjöld verða samkvæmt áætlun tæpir 15 milljarðar og reiknað er með að fjármagnsliðir verði neikvæðir um tæpar 800 miljónir.

Hækkun útgjalda á milli ára eru áætluð um 4% en gert er ráð fyrir verulegri aukningu til fræðslumála eða um 8%, til að mæta mikilli fjölgun íbúa, ásamt því að fyrsti áfangi Stapaskóla verður tekinn í notkun haustið 2020. Útgjöld til fræðslumála nema rúmum helmingi af tekjum sveitarsjóðs.

Helstu fjárfestingar skv. áætlun 2020 aðrar en Stapaskóli:

Vatnaveröld                                  endurbætur útisvæðis                   kr. 200 milljónir
Körfu- og sparkvöllur á Ásbrú                                                                   kr. 30 milljónir
Strandleið                                     lagfæringar                                              kr. 25 milljónir
Seltjörn                                           áframhaldandi uppbygging          kr. 25 milljónir
Njarðvíkurskógar                                                                                               kr. 25 milljónir

Þá er einnig ráðgert að koma fyrir gervigrasvelli vestan Reykjaneshallar ef heimild fæst frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga en sú aðgerð er utan núverandi fjárfestingarheimildar. Áætlaðar fjárfestingar vegna Stapaskóla nema um 2 milljörðum króna.

Gjaldskrá mun ekki hækka umfram þau 2,5% sem gefin voru fyrirheit um í gildandi kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Einnig er ráðgerð veruleg lækkun álagningarstofns fasteignaskatts og fráveitugjalda. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,36% í 0,32% sem er um 11% lækkun. Fráveitugjald lækkar úr 0,15% í 0,10% sem er 33% lækkun. Þessu til viðbótar verður afsláttur af fasteignaskatti eldri íbúa endurskoðaður miðað við hækkun verðlags.

Lækkunin í heild nemur því um 300 milljónum króna miðað við núgildandi álagningarstofn.

Þrátt fyrir að verulega reyni á bæjarsjóð vegna mikillar fólksfjölgunar er gert ráð fyrir að verja talsverðum fjármunum í ýmis umbótamál á næsta ári sem koma mun íbúum til góða. Má þar nefna að hvatagreiðslur verða hækkaðar úr kr. 28.000 í kr. 35.000.

Gerðir verða styrktarsamningar við íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík á næsta ári, auk þess sem afreksstyrkir vegna ungmenna sem valin hafa verið í landslið munu hækka. Ókeypis verður í sund fyrir börn yngri en 18 ára og gert er ráð fyrir afslætti á skólamáltíðum fyrir barnmargar fjölskyldur.

Við gerð fjárhagsáætlunar er verið að áætla tekjur og gjöld. Margt af því sem þar kemur fram eru útgjöld vegna lögbundinna verkefna en einnig vegna annarra verkefna sem sveitarfélagið er að sinna og þykja bæði eðlileg og sjálfsögð. Þá getur bæjarstjórn á hverjum tíma sett mark sitt á hana til þess að koma stefnumálum sínum á framfæri.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur í málefnasamningi lagt áherslu á tiltekin atriði og kemur það m.a. fram í þessari fjárhagsáætlun.

Markmiðið er að gera Reykjanesbæ fjárhagslega sjálfbæran, án þess að íbúum sé íþyngt umfram íbúa annarra sveitarfélaga.

Þá leggur núverandi meirihluti áherslu á að styðja við og styrkja íbúa sveitarfélagsins eins og kostur er, að fjármunum sé forgangsraðað í ýmis fjölskyldu- og velferðarmál sem munu gera Reykjanesbæ að eftirsóknarverðum stað til að búa á.

Í nýsamþykktri stefnumótun Reykjanesbæjar 2020-2030 eru skilgreind 11 markmið og verkefni sem vinna á að á næstu 2 árum. Gert er ráð fyrir að unnið verði að þeim markmiðum á eftirfarandi hátt á næsta ári:

1. Bæta almenningssamgöngur með skilvirkara leiðarkerfi og aukinni tíðni. Kerfið nýtist fyrir íbúa í leik og starfi. Sérstaklega verði horft til þess að kerfið nýtist ungu fólki til að efla þátttöku barna í íþróttum og auka vellíðan þeirra.

Gert er ráð fyrir að endurskoðað leiðarkerfi verði innleitt á fyrri hluta árs 2020 þ.e. leiðum breytt og bætt við kvöld og helgarakstri. Leið 1 og 2 verða sameinaðar og Ásbrú og Hafnir með sérleið.

2. Hvatagreiðslur hækki og verði sambærilegar og hjá öðrum stærri sveitarfélögum landsins, þannig verði hvatt til aukinnar þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi barna.

Hvatagreiðslur hækka úr kr. 28.000 í kr. 35.000.

3. Samþætta skólastarf barna í 1.- 4. bekk við íþróttir og tómstundir til að auðvelda börnum og foreldrum lífið. Börnin ljúki almennt skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir kl. 17.00 á daginn.

Unnið að undirbúningi.

4. Áfram verður unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðri samvinnu við íþróttafélög.

Ef heimild fæst frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga verður lagður nýr gervigrasvöllur vestan Reykjaneshallar.

5. Opna ungbarnadeildir frá 18 mánaða aldri í a.m.k. tveimur leikskólum fyrir haustið 2021.

Unnið að undirbúningi.

6. Styrkja fjölþætta heilsueflingu 65+ enn frekar til að fleiri íbúar taki þátt.

Verkefni áfram styrkt með framlagi úr bæjarsjóði.

7. Uppbygging leiksvæða, hreystivalla, grænna svæða og göngustíga til að auka aðgengi íbúa að aðstöðu til útiveru.

Gert er ráð fyrir þessu í framkvæmdaáætlun.

8. Lækkun fasteignaskatta til þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á starfsumhverfi sem stenst allan samanburð.

Gert ráð fyrir að álagning fasteignaskatts á A-stofn íbúðarhúsnæðis lækki úr 0,36% af fasteignamati eignar í 0,32% og á C-stofn atvinnuhúsnæðis úr 1,65% af fasteignamati eignar í 1,60%.

9. Auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Unnið í samráði við íþrótta- og tómstundafélög.

10. Hvatt verði til virkra samskipta milli ólíkra hópa m.a. með því að halda þjóðhátíðardag Pólverja hátíðlegan.

Unnið verður áfram með sama hætti og áður. Fyrsta hátíðin var haldin í Bókasafni Reykjanesbæjar 2018 og í ár var hún haldin á Nesvöllum. Vegna mikillar þátttöku verður hátíðin að öllum líkindum í Stapanum, Hljómahöll 2020.

11. Öll málaleitan íbúa sem má leysa í fyrstu snertingu verði leyst í fyrstu snertingu með öflugri ferlum og aukinni rafrænni þjónustu.

Stefnt að ráðningu "breytingarstjóra rafrænnar þjónustu" sem fær m.a. það verkefni að þróa þennan þátt starfseminnar.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Baldur Þ. Guðmundsson, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson og Ríkharður Ibsen.

Fjárhagsáætlun 2020-2023 vísað til síðari umræðu 3. desember nk. Samþykkt 11-0.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:30.