01.09.2020 17:00

593. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 1. september 2020, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

Forseti bæjarstjórnar hóf fundinn með því að leggja fram eftirfarandi sameiginlega bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar áður en fyrsta mál var tekið fyrir:

„Nú þegar fyrir liggja hertar sóttvarnaraðgerðir á landamærum Íslands, telur bæjarstjórn Reykjanesbæjar einsýnt að grípa verði til áhrifaríkra mótvægisaðgerða til stuðnings þeim aðilum sem verða fyrir þungu höggi vegna þeirra.
Atvinnuleysi mælist nú 19% í Reykjanesbæ og þá á eftir að að meta þær uppsagnir sem Isavia og Fríhöfnin hafa nú gripið til. Reikna má með að flestir þeirra 195 sem þar misstu vinnuna búi á Suðurnesjum.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvetur því ríkisstjórn Íslands til þess að ráðast nú þegar í aðgerðir til hjálpar þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem þessar aðgerðir bitna hvað harðast á.
Þrátt fyrir að það sé hægt að skilja þörfina fyrir slíkum sóttvarnaraðgerðum er ekki hægt að láta einstaka landshluta bera stærstan hluta þess efnahagslega skaða sem óneitanlega hlýst að af þessum aðgerðum. Mótvægisaðgerðir verða tafarlaust að koma til.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill því hvetja ríkisstjórn Íslands og þingmenn svæðisins til dáða. Það eru fjölmörg atvinnuskapandi verkefni sem hægt er að ráðast í með litlum fyrirvara og nú ríður á að allir rói í sömu átt til þess að lágmarka þann skaða sem nú þegar er orðinn.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Gunnar Þórarinsson (Á), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

1. Fundargerðir bæjarráðs 20. og 27. ágúst 2020 (2020010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Baldur Guðmundsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Gunnar Þórarinsson og Guðbrandur Einarsson.

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun:

„Á 1.282. fundi bæjarráðs þann 20. ágúst sl. lét bæjarfulltrúi Miðflokksins að því liggja að forseti bæjarstjórnar hafi brotið sveitarstjórnarlög þegar hann á 592. fundi bæjarstjórnar lét einungis afgreiða og samþykkja eina af tíu fundargerðum bæjarráðs sem fylgdu með í fundarboði.
Vegna þess vill forseti taka fram:
Á fundi 591. fundi bæjarstjórnar þann 16. júní sl. var eftirfarandi bókað:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála á meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur yfir frá 17. júní til 12. ágúst n.k. Næsti bæjarstjórnarfundur verður þriðjudaginn 18. ágúst 2020 í Merkinesi í Hljómahöll.“

Sami háttur hefur verið viðhafður alveg frá því að Reykjanesbær varð sveitarfélag og er í samræmi við ákvæði bæjarmálasamþykktar Reykjanesbæjar, en þar stendur í 7. grein:

„Bæjarstjórnarfundir falla niður á sumarleyfistíma, þ.e. báðir fundir í júlí og fyrri fundur ágústmánaðar.“

Í 48. grein bæjarmálasamþykktar er eftirfarandi að finna:

„Meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi fer bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn hefur ella.“

Þessi ákvæði bæjarmálasamþykktar eiga sér stoð í ákvæðum sveitarstjórnarlaga.
Í V. kafla 35. grein er eftirfarandi texta að finna:

„Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina, en meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella.“

Á 592. fundi bæjarstjórnar tilkynnti forseti að aðeins ein fundargerð bæjaráðs yrði til afgreiðslu en að heimilt væri að ræða innihald þeirra allra. Þetta var í algjöru samræmi við þau ákvæði sem hér hafa verið nefnd.
Rétt er að geta þess að sami háttur er viðhafður í öðrum sveitarfélögum og þann 16. júní 2020 sama dag og bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti að fela bæjarráði fullnaðarákvörðunarvald samþykkti Bæjarstjórn Akureyrar að gera þetta á sama hátt og Reykjanesbær. Það sama gerði t.d. bæjarstjórn Kópavogs þann 23. júní sl.“

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar.

Fundargerðirnar samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1282. fundar bæjarráðs 20. ágúst 2020
Fundargerð 1283. fundur bæjarráðs 27. ágúst 2020

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 21. ágúst 2020 (2020010012)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi lið fundargerðarinnar frá 21. ágúst til sérstakrar samþykktar:
Þriðji liður fundargerðarinnar Hafnargata 12 - Breyting á deiliskipulagi (2020040425) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Fjórði liður fundargerðarinnar Hreinsistöð við Ægisgötu (2019080273) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Hringbraut 90 heimildar til að byggja bílskúr (2020050507) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Freyjuvellir 28 niðurstaða grenndarkynningar (2020050485) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Áttundi liður fundargerðarinnar Vesturgata 5 (2020070289) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Guðnýjarbraut 13 stækkun á byggingarreit (2020070287) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Tenging við Aðalgötuhringtorg (2020070360) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Þrettándi liður fundargerðarinnar Stapafell og Rauðamelur Umsókn ÍAV um framkvæmdaleyfi (2020080238) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 254. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 21. ágúst 2020

3. Fundargerð lýðheilsuráðs 19. ágúst 2020 (2020010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 10. fundar lýðheilsuráðs 19. ágúst 2020

4. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 26. ágúst 2020 (2020010011)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Friðjón Einarsson.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð menningar- og atvinnuráðs frá 26. ágúst 2020:

„Þetta er mikið áhyggjuefni hve atvinnuleysi er hátt hér á Suðurnesjum. Við þurfum að standa öll saman og þingmenn Suðurkjördæmis verða að fara vakna og gera sér grein fyrir stöðunni.
Ég fagna skoðun Menningar- og atvinnuráðs þar sem ráðið ítrekar þá skoðun sína að mikilvægi þess að fjármunir ríkisins fari þangað sem þörfin er mest þ.e. á Suðurnesin.
Það veldur mér miklum vonbrigðum að þingmenn Suðurkjördæmis eru ekki að berjast fyrir því að fjölga störfum og byggja upp hér á Suðurnesjum. Þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi Birgir Þórarinsson flutti breytingartillögu við fjáraukalög núna í júní um 250 milljóna króna mótframlag Íslands til NATO vegna framkvæmda í Helguvík. Tillagan var felld af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri Grænna. Ef tillagan hefði verið samþykkt hefði verið um 12-14 milljarða framkvæmdir að ræða sem hefðu skapað fjölmörg störf hér á Suðurnesjum á þessum erfiðu tímum. Það var sorglegt að sjá þingmenn ríkisstjórnarflokkana þar á meðal þingmenn í Suðurkjördæmi að hafna tillögunni.“

Margrét Þórarinsdóttir.

Til máls tók Margrét A. Sanders, Sjálfstæðisflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð menningar- og atvinnuráðs frá 26. ágúst 2020:

„Bæjarfulltrúar og nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt mikla áherslu á að atvinnumál verði í forgrunni og að mikilvægt sé að vinna að eflingu fjölbreyttra atvinnutækifæra í Reykjanesbæ. Við leggjum því formlega fram eftirfarandi tillögu:
Menningar- og atvinnuráð setji atvinnumál næstu mánuði í forgrunn, vinni að sviðsmyndagreiningum og horfi til möguleika í atvinnumálum til lengri og skemmri tíma.
Framtíðarnefnd fjalli um atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ sem átti að vera hennar hlutverk samkvæmt málefnasamning meirihlutans en hefur ekki komist á dagskrá.
Endurvekja starfshóp um atvinnuþróun sem þarf að koma með tillögur um skammtíma lausnir vegna aukins atvinnuleysis í Covid og eins möguleika í menntamálum og þannig auka virkni þeirra og efla þá sem misst hafa vinnuna.
Allt starfsfólk Reykjanesbæjar sem mögulega getur stutt vinnu til atvinnuuppbyggingar fái til þess svigrúm.
Settur verði upp starfsdagur sem fyrst þar sem fulltrúar bæjarráðs, menningar- og atvinnuráðs, framtíðarnefndar, Reykjaneshafnar, starfshóps um atvinnuþróun og Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi koma saman og samræma viðbrögð og ákveða sviðsmyndir.
Sameina þarf krafta Reykjanesbæjar, atvinnurekenda á svæðinu og ríkisvaldsins. Tillögur Reykjanesbæjar þurfa að vera skýrar.“

Margrét A. Sanders, Baldur Þ. Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Friðjón Einarsson, Margrét A. Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Margrét Þórarinsdóttir og Guðbrandur Einarsson.

Samþykkt með öllum atkvæðum að vísa tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til frekari umræðu í bæjarráði. Einnig samþykkt 11-0 að vísa fjórða máli fundargerðarinnar, -Aðgangseyrir á söfn- til bæjarráðs.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 12. fundar menningar- og atvinnuráðs 26. ágúst 2020

5. Fundargerð framtíðarnefndar 26. ágúst 2020 (2020010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Styrmir Gauti Fjeldsted.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 11. fundar framtíðarnefndar 26. ágúst 2020

6. Fundargerð fræðsluráðs 28. ágúst 2020 (2020010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Til máls tók Friðjón Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:

„Bæjarfulltrúi Miðflokksins lagði á síðasta bæjarstjórnarfundi fram kostulega bókun um Stapaskóla og það samkomulag sem búið var að samþykkja í bæjarráði af öllum atkvæðisbærum fulltrúum.
Þetta samkomulag var eingöngu gert til þess að ná fram því markmiði að geta hafið skólastarf á réttum tíma og skapa sátt vegna þeirra fordæmalausu stöðu sem Covid-19 hefur leitt af sér.
Erfitt er að skilja tilgang þessarar bókunar nema þá að hún sé lögð fram til þess að reyna að þyrla upp moldvirði og skapa vantraust sem virðist vera háttur Miðflokksins hvar sem hann ber niður.
Nú er skólastarf hafið í Stapaskóla sem verður án efa einn glæsilegasti skóli landsins. Haldið hefur verið mjög vel utan um alla þætti og hafa allar fjárhagsáætlanir staðist.
Það eina sem sem er rétt í bókun fulltrúa Miðflokksins er að tímaáætlanir stóðust ekki eins og ráð var fyrir gert, en það kemur ekki að sök, þar sem sú tímalína sem samið var um gerir það að verkum að skólahald er nú hafið.
Að hleypa öllu í bál og brand eins og fulltrúi Miðflokksins lagði til, hefði sett allt skólastarf í upplausn og skólahald í Stapaskóla í óvissu um langa hríð. Nú er undirbúningur 2. áfanga hafinn þar sem byggt verður íþróttahús og sundmiðstöð sem verður til mikilla hagsbóta fyrir skólann, íþróttafélögin og samfélagið allt í Innri Njarðvík.
Því ber að fagna.“

Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Styrmir Gauti Fjeldsted (S)

Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Friðjón Einarsson, Margrét A. Sanders, Jóhann Friðrik Friðriksson og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 335. fundar fræðsluráðs 28. ágúst 2020

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:20