16.02.2021 17:00

605. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 16. febrúar 2021, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Ríkharður Ibsen, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 4. og 11. febrúar 2021 (2021010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Díana Hilmarsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1305. fundar bæjarráðs 4. febrúar 2021
Fundargerð 1306. fundur bæjarráðs 11. febrúar 2021

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar 2021 (2021010010)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 5. febrúar til sérstakrar samþykktar:
Annar liður fundargerðarinnar Suðurnesjalína 2 framkvæmdaleyfi (2019050744). Til máls tóku Ríkharður Ibsen og Friðjón Einarsson. Annar liður samþykktur 11-0.
Fjórði liður fundargerðarinnar Njarðvíkurhöfn - skipulagslýsing (2020100160) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Nesvellir - deiliskipulagsbreyting (2020040156) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjötti liður fundargerðarinnar Stapagata Stapakot fyrirspurn (2021020053) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Breyting deiliskipulagi iðnaðar- og orkuvinnslusvæðis á Reykjanesi (2019051552) samþykktur 11-0 án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Völuás 6 - breyting á byggingareit (2021010241) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Móavellir 6 - breyting á deiliskipulagi (2021020054) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tólfti liður fundargerðarinnar Leirdalur 7-13 - breyting á deiliskipulagi (2021010219) samþykktur 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Ríkharður Ibsen.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 264. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar 2021

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 9. febrúar 2021 (2021010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir
Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 147.fundur ÍT 09.02.2021

4. Fundargerð velferðarráðs 10. febrúar 2021 (2021010011)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Forseti bar upp tillögu að vísa 1. máli fundargerðarinnar „Mótvægisaðgerðir vegna COVID-19 - tillögur Velferðarvaktarinnar“ til næsta bæjarráðsfundar. Samþykkt 11-0.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 395. fundar velferðarráðs 10. febrúar 2021

5. Fundargerð lýðheilsuráðs 11. febrúar 2021 (2021010007)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 16. fundar lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar 11. febrúar 2021

6. Fundargerð fræðsluráðs 12. febrúar 2021 (2021010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 340. fundar fræðsluráðs 12. febrúar 2021

7. Sala Útlendings ehf. (Víkingaheima) (2020080084)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson og fór yfir svör við spurningum frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks og bæjarfulltrúa Miðflokks sem lagðar voru fram á bæjarstjórnarfundi 2. febrúar 2021.

Svör við spurningum í bókun bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

1. Fór fram mat á því hvort umræddar upplýsingar séu þess eðlis að um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem getið er í umræddum samningum sé að ræða og hversu miklu tjóni upplýsingarnar gætu valdið viðkomandi lögaðila?

Kaupandi óskaði eftir því við stjórn félagsins að innihald samninganna yrði ekki gert opinbert. Stjórn hefur borist beiðni frá fjölmiðlum um afhendingu kaupsamningsins og hefur hún hafnað þeim með vísan til þess að hér eru á ferðinni fjárhags- og viðskiptaupplýsingar lögaðila, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Stjórn taldi með vísan til afdráttarlausrar afstöðu kaupanda, um að innihald samninganna yrði ekki gert opinbert, og í ljósi þess að hér er tvímælalaust um að ræða upplýsingar sem varða fjárhags- og viðskiptahagsmuni lögaðila, að stjórn gæti ekki einhliða aflétt trúnaði.

2. Í gögnum sem liggja fyrir sést að auglýst var eftir rekstraraðila vegna Víkingaheima árið 2015 en meirihlutinn tjáði bæjarfulltrúum að fasteignin hafi einnig verið auglýst til sölu á sama tíma. Er möguleiki að fá að sjá þá auglýsingu?

Um eina og sömu auglýsinguna er að ræða sem birtist í Víkurfréttum og Fréttablaðinu þar sem óskað er eftir áhugasömum samstarfsaðilum um rekstur Víkingaheima. Spurningin var viljandi höfð opin því að á þessum tíma kom hvort tveggja til greina; að leigja eða selja.
Hvað einstakir bæjarfulltrúar kunna að hafa sagt geta starfsmenn Reykjanesbæjar ekki svarað fyrir.

Svör við spurningum í bókun bæjarfulltrúa Miðflokksins.

Hér verða listaðar þær spurningar sem komu fram í bókun Miðflokksins í númeraröð frá 1-13. Svör við hverri spurningu fylgja í kjölfarið en þeim var svarað af starfsmönnum Reykjanesbæjar.

1. Ljóst er að samningur Reykjanesbæjar við leigutaka Víkingaheima frá 2015 kemur í veg fyrir opið söluferli. Ekki er hægt að auglýsa Víkingaheima til sölu og selja þá hæstbjóðanda. Hvers vegna gerði bæjarstjórn svo afleitan samning árið 2015?

Auglýsing um samstarf var mjög opin og gat hvort heldur er falið í sér leigu eða möguleg kaup og kom því ekki í veg fyrir söluferli.
Það voru stjórnir einkahlutafélaganna Útlendings ehf og Íslendings ehf sem gerðu þennan samning, með vitund og samþykki bæjarstjórnar, sem taldi hann betri en að treysta á áframhaldandi fjárstreymi úr bæjarsjóði. Annar kostur hefði verið að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

2. Hvers vegna var kaupverðið fyrir fram ákveðið í leigusamningi frá árinu 2015?

Kaupverðið var niðurstaða í samningaviðræðum milli leigusala og leigutaka. Upphæðin var ákveðin með hliðsjón af áhvílandi veðskuldum á fasteigninni og miðuð við að kaupverðið myndi a.m.k. duga til að greiða þær upp við sölu. Að öðrum kosti hefði ekki fengist leyfi hjá kröfuhöfum fyrir sölu á fasteigninni.

3. Kaupréttur leigutaka rann út um áramótin 2020, tengist það sölunni degi fyrir áramót?

Viðræður um kaupin hófust haustið 2019. Í fundargerð stjórnar Útlendings frá 26.september 2019 í dagskrárlið nr. 2 er rætt um fyrirhuguð kaup leigutaka á húsnæði Víkingaheima. Þann 19.desember 2019 var tekið fyrir erindi frá leigutaka um fyrirhuguð kaup á Víkingabraut 1.
Í áframhaldandi samningaviðræðum var þeim möguleika velt upp að selja hlutafélögin sem halda utan um skipið og fasteignina og áhvílandi skuldir.
Í fundargerð frá 7. apríl 2020 kemur fram eftirfarandi bókun í bæjarráði:
„Reykjanesbær samþykkir að selja leigutaka 99,9% eignarhlut sinn í Íslendingi ehf að undangengnu boði til hins hluthafans að nýta forkaupsrétt sinn í hlutfalli við núverandi eign í félaginu. Áður en til sölu kæmi er Reykjanesbær búinn að eftirgefa alla skuld Íslendings við bæinn, rúmar 90 milljónir og tæpar 200 milljónir í Útlendingi eða sem nemur yfirfæranlegu tapi í félaginu og kæmi þá ekki til greiðslu tekjuskatts í félaginu vegna eftirgjafarinnar.  Eftir stæði 65 milljón króna skuld í félaginu við Reykjanesbæ sem búið væri að breyta í skuldabréf með 2. veðrétti í Víkingabraut 1. Þess má geta að 30% af söluverði Víkingabrautar 1 samkvæmt leigusamningnum nemur svipaðri fjárhæð eða rúmum 63 milljónum króna.“
Minnihlutaeigandi í Íslendingi ehf féllst hvorki á að nýta forkaupsrétt um kaup á öllum hlutum í Íslendingi ehf í eigu Reykjanesbæjar né að selja hlut sinn í Íslendingi ehf til Reykjanesbæjar.
Í fundargerð Íslendings ehf frá 6. ágúst 2020 er bókað að stjórn félagsins haldi áfram samningaviðræðum við leigutaka sem leiddi til þess að Íslendingur ehf gerði kaupsamning við Víkingaheima ehf um sölu á öllu hlutafé í Útlendingi ehf sem var 100% í eigu Íslendings ehf og því dótturfélag.
Kaupsamningur Víkingaheima ehf á kaupum allra hluta í Útlendingi ehf af Íslendingi ehf var lagður fram í bæjarráði 10. desember 2020 á fundi nr. 1298.

4. Hefði kaupréttarákvæði samningsins frá 2015 virkjast ef bærinn hefði ekki lánað leigutaka fyrir kaupunum?

Reykjanesbær lánaði ekki fyrir kaupum Víkingaheima ehf á öllu hlutafé í Útlendingi ehf enda var Reykjanesbær ekki beinn aðili að viðskiptunum heldur var hlutafé Útlendings ehf í eigu Íslendings ehf selt Víkingaheimum ehf. Það skal ítrekað að hvergi er bókað í fundargerðir bæjarráðs né í fjárhagsbókhaldi Reykjanesbæjar lán til Víkingaheima ehf. enda hefur slíkt lán aldrei verið veitt.

5. Hvers vegna fær almenningur ekki að vita kaupverðið?

Stjórn félagsins hefur ekki upplýst um kaupverðið þar sem kaupandi óskaði eftir trúnaði um innihald samningsins í heild þ.m.t. kaupverðið. Stjórn félagsins mun ekki taka einhliða ákvörðun um að aflétta þeim trúnaði. Með því er verið að virða ósk viðsemjanda félagsins.

6. Hvers vegna lánaði Reykjanesbær kaupanda kaupverðið? Hver voru kjörin?

Hér er vísað í sama svar og við spurningu 4:
Reykjanesbær lánaði ekki fyrir kaupum Víkingaheima ehf á öllu hlutafé í Útlendingi ehf enda var Reykjanesbær ekki beinn aðili að viðskiptunum heldur var hlutafé Útlendings ehf í eigu Íslendings ehf sem seldi hlutafé Útlendings ehf til Víkingaheima ehf. Það skal ítrekað að hvergi er bókað í fundargerðir bæjarráðs né í fjárhagsbókhaldi Reykjanesbæjar lán til Víkingaheima ehf.

7. Var bærinn skyldugur til að lána leigutaka kaupverðið?

Reykjanesbær var ekki aðili að viðskiptunum og því kemur þessi spurning ekki til álita. Reykjanesbær var hvorki aðili að leigusamningi né afnotasamningi sem gerðir voru árið 2015 heldur voru það samningar sem gerðir voru milli Íslendings ehf og Víkingaheima ehf annarsvegar og Útlendings ehf og Víkingaheima hins vegar.

8. Í samningi við leigutaka frá 2015 segir að leigutaki eigi að greiða kaupverðið. Það gerir hann ekki þar sem bærinn lánar honum fyrir kaupunum. Er Reykjanesbær ekki að veita leigutaka óeðlilega fyrirgreiðslu?

Í leigusamningnum er vissulega kveðið á um að kaupandi greiði ákveðið kaupverð en á fasteigninni hvíla skuldir með veðböndum sem við sölu á fasteigninni stakri yrði að gera upp við kröfuhafa. Eins og fram hefur komið þá lánaði Reykjanesbær ekki Víkingaheimum ehf fyrir kaupunum á félaginu og því ekki um neina fyrirgreiðslu að ræða.

9. Hvers vegna var verðmætt land ekki undanskilið kauprétti árið 2015?

Það er undanskilið. Landið fylgir ekki með í kaupunum. Lóðin var leigð Útlendingi ehf til 75 ára með leigusamningi dagsettum 27.11.2007 sem gildir til 26.11.2082. Hvað gerist að þeim tíma liðnum verður ákvörðun bæjaryfirvalda þess tíma. Ljóst er að not lóðarinnar miðast við núgildandi skipulag. Skipulagi verður ekki breytt án aðkomu sveitarfélagsins sem skipulagsvalds.

10. Hvaða skilmálar fylgdu sölunni? Verður svipaður rekstur eða hyggst kaupandi breyta starfseminni?

Í samningaviðræðum við kaupanda var lögð rík áhersla á að í húsinu verði áfram rekið safn og að skipið, sem húsið er sérstaklega hannað utan um, fái að standa sem megin aðdráttarafl og sýningargripur safnsins.
Þessu til viðbótar hefur kaupandi kynnt fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu sem miðar að því að efla hlutverk safnsins í ferðaþjónustu og kynnt hefur verið bæjarfulltrúum.

11. Hver átti frumkvæðið að því að virkja kaupréttarákvæði leigusamningsins frá 2015, fáeinum dögum áður en það rann úr gildi, var það leigutaki eða leigusalinn Reykjanesbær?

Leigutaki setti sig í samband við stjórnir Íslendings ehf og Útlendings ehf haustið 2019 með ósk um að hefja samtal um virkjun kaupréttarins sem þróaðist svo í að félagið var selt. Öll skref í þessu ferli má finna í fundargerðum félaganna sem kynntar voru í bæjarráði og samþykktar í bæjarstjórn.

12. Hvaða skuldir yfirtók kaupandi?

Kaupandinn yfirtók ekki skuldir við kaup á hlutafélagi. Hins vegar er félagið sem hann keypti skuldsett yfir 200 millj. króna.

13. Hvaða skuldir hefur bærinn afskrifað af eignarhaldsfélaginu Útlendingi sem hélt utan um fasteignir safnsins fyrir árið 2015?

Eins og kom fram í gögnum sem lögð voru fram fyrir bæjarstjórnarfund 2. febrúar 2021 er þetta niðurstaðan:

Liður Íslendingur Útlendingur Samtals
Kröfu breytt í hlutafé 2011 -101.278.903 0 -101.278.903
Afskrifuð krafa 2015 -30.334.642 -92.041.724 -122.376.366
Afskrifuð krafa 2019 -74.567.253 -179.927.763 -254.495.016
  -206.180.798 -271.969.487 -478.150.285


Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Margrét A. Sanders(D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

„Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tvær spurningar er varða sölu á Víkingaheimum á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Fyrri spurningin sneri að því hvort mat hefði verið gert á hagsmunum þess fyrirtækis eða lögaðila af því að upplýsingum um kaupverð á Víkingaheimum sé haldið leyndum andspænis þeim hagsmunum að upplýsingarnar séu aðgengilegar almenningi og þar með gerðar opinberar. Reykjanesbær ber fyrir sig í þessu sambandi 9. gr. upplýsingalaga um heimild á takmörkun á upplýsingarétti til almennings.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ ítrekar að ákvæðið 9. gr. upplýsingalaga undanþiggur ekki almennt aðgang almennings að upplýsingum um einkamálefni fyrirtækja þar sem reglan er afmörkuð við mikilvæga fjárhags eða viðskiptahagsmuni þessara aðila. Það er skýrt af greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 og fjölda úrskurða úrskurðarnefndar upplýsingamála að þetta mat þarf að fara fram og við það mat þarf að skoða hvort umræddar upplýsingar sem óskað er aðgangs að varði svo mikilvæga hagsmuni að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda fyrirtækjum eða lögaðilum sem þær varða tjóni ef þær yrðu gerðar opinberar. Þessari fyrirspurn er ekki svarað og því spyrjum við aftur, fór fram mat á því hvort svo mikla fjárhags- og viðskiptahagsmuni sé að ræða að það réttlæti leynd á kaupverði?
Seinni spurningin sneri að því hvort Víkingaheimar voru auglýstir til sölu árið 2015. Svo virðist ekki vera samkvæmt svari heldur var einungis auglýst eftir rekstraraðilum. Við í Sjálfstæðisflokki bendum á að það er grundvallarregla í íslenskri stjórnsýslu að gæta jafnræðis milli borgaranna og almennt við úthlutun opinberra gæða er gerð sú krafa að stjórnvöld auglýsi eignir og jarðir opinberlega þannig að þeir sem áhuga hafa fái sama tækifæri til að gera kauptilboð í fasteignir eða jarðir. Við spyrjum því hvort Reykjanesbær telji sig hafa heimild til þess að selja Víkingaheima og án auglýsinga án þess að virða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga ?“

Margrét Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Ríkharður Ibsen Sjálfstæðisflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Friðjón Einarsson.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Ég tek efnislega undir bókun D lista.
Ég vil þakka bæjarstjóra fyrir svörin við spurningum mínum. Að svörunum má sjá að allt þetta ferli í kringum söluna á Víkingaheimum sýnir að þarna hafi ógegnsæ vinnubrögð verið viðhöfð. Svörin breyta því ekki að meirihluti bæjarstjórnar gerði afleitan samning um Vikingaheima árið 2015 sem núverandi bæjarstjórn undirritaði.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Ríkharður Ibsen, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Margrét A. Sanders og Margrét Þórarinsdóttir.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:20