621. fundur

07.12.2021 17:00

621. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 7. desember 2021 kl. 17:00

Viðstaddir:
Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Íris A. Guðmundsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 18. og 25. nóvember og 2. desember 2021 (2021010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Friðjón Einarsson og Margrét Þórarinsdóttir.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1345. fundar bæjarráðs 18. nóvember 2021
Fundargerð 1346. fundar bæjarráðs 25. nóvember 2021
Fundargerð 1347. fundar bæjarráðs 2. desember 2021

2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 19. nóvember og 3. desember 2021 (2021010010)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 19. nóvember og 3. desember til sérstakrar samþykktar:

Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2021:

Þriðji liður fundargerðarinnar Fitjar - deiliskipulag (2019060062)

Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 3 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2021:

„Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því þegar öflug fyrirtæki eru áhugasöm um að hefja starfsemi í Reykjanesbæ. Nú er að rísa heilsurækt og hótel á Fitjunum í Njarðvík. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eftirfarandi:

1. Njarðarbrautin er nú þegar sprungin á ákveðnum álagstímum, umferðarþunginn er slíkur. Starfsemi heilsuræktar hefur í för með sér mikla umferð. Huga þarf vel að þessum málum og finna lausnir áður en starfsemin hefst.

2. Fitjarnar í Njarðvík eru eitt af fallegustu svæðum Reykjanesbæjar. Mikilvægt er að hönnun byggingarinnar falli vel að umhverfinu.

3. Þar sem skilgreind atvinnusvæði eru nálæg fyrirhugaðri uppbyggingu leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að hugað verði strax að þeim áskorunum sem því fylgir.“

Margrét Sanders Sjálfstæðisflokkur, Baldur Þ. Guðmundsson Sjálfstæðisflokkur, Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokkur.

Þriðji liður fundargerðarinnar samþykktur 11-0.

Fjórði liður fundargerðarinnar Völuás 2 - stækkun á byggingarreit (2021110030) samþykktur 11-0 án umræðu.

Fimmti liður fundargerðarinnar Flugvellir 10 - aukið byggingarmagn (2021110004) samþykktur 11-0 án umræðu.

Sjötti liður fundargerðarinnar Borgarvegur 44 - stækkun (2021110369) samþykktur 11-0 án umræðu.

Sjöundi liður fundargerðarinnar Vatnsnesvegur 27 - einbýli í tvíbýli (2020040096) samþykktur 11-0 án umræðu.

Tíundi liður fundargerðarinnar Fitjabraut 6d - niðurrif og stækkun (2021090332) samþykktur 11-0 án umræðu.

Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. desember 2021:

Þriðji liður fundargerðarinnar Brekadalur 9 - stækkun á byggingarreit (2021110456) samþykktur 11-0 án umræðu.

Fjórði liður fundargerðarinnar Hafnarbraut 12 - niðurstaða grenndarkynningar (2021090293) samþykktur 11-0 án umræðu.

Fimmti liður fundargerðarinnar Völuás 1 og 3 - ósk um sameiningu lóða undir eitt hús (2021100366) samþykktur 11-0 án umræðu.

Sjöundi liður fundargerðarinnar Bolafótur 19 - uppskipting á lóð (2019051640) samþykktur 11-0 án umræðu.

Tíundi liður fundargerðarinnar Hringbraut 90 - breyting á hæðarkóta bílskúrs (2020050507) samþykktur 11-0 án umræðu.

Tólfti liður fundargerðarinnar Hólmgarður - Sigurjónsbakarí (2021050055) samþykktur 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Gunnar Þórarinsson.

Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 281. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 19. nóvember 2021
Fundargerð 282. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 3. desember 2021

3. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 17. nóvember 2021 (2021010008)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Kjartan Már Kjartansson og Margrét A. Sanders.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 27. fundar menningar- og atvinnuráðs 17. nóvember 2021

4. Fundargerð framtíðarnefndar 17. nóvember 2021 (2021010004)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Styrmir Gauti Fjeldsted og Baldur Þ. Guðmundsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 25. fundar framtíðarnefndar 17. nóvember 2021

5. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 18. nóvember 2021 (2021010009)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 257. fundar stjórnar Reykjaneshafnar 18. nóvember 2021

6. Fundargerð barnaverndarnefndar 22. nóvember 2021 (2021010570)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson og Díana Hilmarsdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 7 í fundargerð barnaverndarnefndar frá 22. nóvember 2021:

„Þetta eru sláandi tölur en álag á starfsmönnum barnaverndar eru helmingi meira en Barnaverndarstofa telur eðlilegt. Tilkynningum hefur fjölgað verulega en í janúar 2021 bárust um 60 tilkynningar en í október voru þær 112, ásamt því að börnum hefur fjölgað. Ég veit til þess að unnið er að því að leita leiða til þess að minnka álagið með margvíslegum hætti. Frá og með janúar 2022 munu 2 ný stöðugildi bætast við teymi barnaverndar út árið 2022 en bæjarstjórn samþykkti það á þessu ári. Á barnaverndarnefndarfundi í gær var þetta mikið rætt og var bókað undir lið álagsmælingar að nefndin leggi áherslu á að gert verði ráð fyrir þessum stöðugildum í fjárhagsáætlun til framtíðar. Allir nefndarmenn voru þessi sammála. Ég geri það að tillögu minni að þessi tvö stöðugildi verði sett inn á fjárhagsáætlun frá 2023-2025.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki

Tillagan samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 287. fundar barnaverndarnefndar 22. nóvember 2021

7. Fundargerð lýðheilsuráðs 23. nóvember 2021 (2021010007)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Díana Hilmarsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 24. fundar lýðheilsuráðs 23. nóvember 2021

8. Fjárhagsáætlun 2022-2025 – síðari umræða (2021060488)

Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir breytingar frá fyrri umræðu 2. nóvember 2021.

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun minnihluta bæjarstjórnar:

„Sjálfstæðismenn, Miðflokkur og Frjálst afl þakka fyrir þá góðu samvinnu sem einkenndi vinnu við fjárhagsáætlun þá sem nú er lögð fram. Allir bæjarfulltrúar hafa tekið virkan þátt í áætlanagerðinni og skoðanaskipti hafa verið opin og hreinskipt. Sérstaklega ber að þakka þrotlausa vinnu starfsfólks Reykjanesbæjar við erfiðar aðstæður.

Ekki var tekið tillit til allra athugasemda minnihlutans en þó var brugðist við mörgum ábendingum og aðfinnslum. Áhyggjur okkar snúa fyrst og fremst af fyrirsjáanlegum fjárfestingum sem ekki er að fullu gert ráð fyrir í áætluninni, bæði vegna óvissu og óljósra markmiða um ráðhúsið.

1. Í fjárfestingaráætlun er enn gert ráð fyrir 600 milljónum í endurbætur á ráðhúsi. Enn er óljóst hver endanleg niðurstaða verður en þar sem ráðhúsið er í eigu tengds félags þarf að gera ráð fyrir hærri leigu vegna hugsanlegra framkvæmda.

2. Ennþá er verið að samþykkja fleiri ráðningar starfsfólks þó þess sé getið í forsendum fjárhagsáætlunar að engin fjölgun verði á starfsfólki.

3. Mikið hefur verið lagt upp úr lækkun skatthlutfalls á fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði en vegna hækkunar fasteignamats mun tekjuhækkunin nema 4,8%.

Ýmsar aðrar athugasemdir höfum við þegar gert við gerð fjárhagsáætlunar sem hafa verið leiðréttar og aðrar sem hafa mætt andstöðu, en eftir situr ofangreint sem við teljum vera lykilatriði. Við munum því sitja hjá.

Margrét Sanders Sjálfstæðisflokki, Baldur Guðmundsson Sjálfstæðisflokki, Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki, Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki, Gunnar Þórarinsson Frjálsu afli.

Til máls tóku Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:

„Fjárhagsáætlun ársins 2022 ber þess merki hversu mikil áhrif Covid-faraldurinn hefur haft á sveitarfélagið, samfélagið og rekstur Reykjanesbæjar, rétt eins og svo margra annarra sveitarfélaga. Þannig má nefna að atvinnuleysi fór í 25% á árinu, sem er það mesta sem mælst hefur í sögu þessa sveitarfélags. Þrátt fyrir talsverðar áskoranir framundan, er fjölmargt jákvætt að finna í þessari síðustu fjárhagsáætlun kjörtímabilsins og staðan talsvert betri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi fari minnkandi, verði 7% og að íbúafjölgun á næsta ári verði 2%.

Til að koma til móts við hækkandi fasteignamat er álagningarstuðull fasteignaskatts í A-flokki (þ.e. íbúða) lækkaður úr 0,32% í 0,30%, B-flokkur verður óbreyttur í 0,32% og C-flokkur (atvinnuhúsnæðis) fer úr 1,52% í 1,50%

Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu af samstæðu þ.e. A og B hluta kr. 46.884.000.- en að rekstur A hluta bæjarsjóðs verði neikvæður um kr. 650.692.000.

Strax árið 2023 er hins vegar gert ráð fyrir jákvæðri afkomu A hluta bæjarsjóðs, m.a. vegna minnkandi atvinnuleysis og aukinna tekna.

Þá er gert ráð fyrir að tæpum tveimur milljörðum verði varið í fjárfestingar á árinu 2022 og skiptir þar mestu uppbygging íþróttamannvirkja við Stapaskóla.

Framtíðarsýn Reykjanesbæjar til 2030

Til þess að framfylgja þeirri stefnu sem birtist í „Framtíðarsýn Reykjanesbæjar til 2030“ verða áherslur á komandi ári meðal annars á málefni barna, vellíðan íbúa, vistvænt samfélag, fjölbreytileika starfa og skilvirka þjónustu. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

Börnin mikilvægust

• Hvatagreiðslur verða hækkaðar úr 40.000 kr. í 45.000 kr.
• Daggæsla frá 18 mánaða aldri verður niðurgreidd til jafns við leikskóla
• Innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verður lokið
• Innleiðing á þverfaglegu samstarfi í þágu snemmtækrar þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra
• Framkvæmdir við 6 deilda leikskóla í Hlíðahverfi verða hafnar
• Unnið verður að byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla
• Safnafræðsla til leik-og grunnskólabarna verður efld
• Vinna við að koma Myllubakkaskóla í starfhæft ástand

Vellíðan íbúa

• Unnið verður að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í samvinnu við ríkið
• Unnið verður að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í samvinnu við ríkið
• Unnið verður áfram með verkefnið „Velferðarstofa“ í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og opinbera aðila á svæðinu sem miðar að því að styrkja og samþætta þjónustu á svæðinu
• List á mannamáli – námskeiðahald vildarvina og rafræn dagskrá
• Áframhaldandi innleiðing þjónandi leiðsagnar í þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

Vistvænt samfélag

• Áfram verður unnið að gerð aðgerðaráætlunar í framhaldi af samþykkt nýrrar umhverfis- og loftslagsstefnu sem mun leiða okkur að þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnunni
• Áfram verður unnið að innleiðingu Hringrásarhagkerfisins sem samþykkt var á árinu 2021
• Áfram verður unnið að heilsustígagerð með áherslu á Ásbrú
• Aukinn kraftur verður settur í gróðursetningu trjáa og skógrækt en það er liður í kolefnisjöfnun sveitarfélagsins
• Unnið verður með Kölku að breytingum á sorphirðu og aukinni flokkun vegna nýrrar reglugerðar sem tekur gildi 1. janúar 2023
• Áfram verður unnið að sameiginlegum verkefnum sem snúa að innleiðingu Heimsmarkmiðanna í samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og SSS
• Komið verður upp rafhleðslustöðvum fyrir almenning til að styðja við orkuskipti í samgöngum

Fjölbreytt störf

• Á fyrri hluta ársins 2022 mun Reykjaneshöfn bjóða út nýframkvæmdir við Njarðvíkurhöfn sem felast í uppbyggingu skjólgarðs til varnar núverandi hafnarmannvirkjum ásamt dýpkun innan hins nýja hafnarsvæðis. Með tilkomu þeirrar framkvæmdar mun hafnaraðstaðan í Njarðvíkurhöfn gjörbreytast til hins betra og höfnin skilgreinast sem lífhöfn. Þessi uppbygging mun jafnframt skapa tækifæri til atvinnueflingar á hafnarsvæðinu, bæði fyrir fyrirtæki sem nú þegar eru þar til staðar sem og fyrir ný hafntengd fyrirtæki. Framkvæmdatíminn er áætlaður tvö til þrjú ár með heildarkostnaði yfir milljarð króna.
• Áfram verður unnið að mótun atvinnuþróunarstefnu
• Áfram verður unnið að mótun markaðsstefnu
• Sett verður upp vefsíða fyrir fjárfesta sem hafa hug á að kaupa lóðir eða fjárfesta í sveitarfélaginu
• Lokið verður við heildarendurskoðun aðalskipulags. Meginverkefnið er að bregðast við fólksfjölgun í sveitarfélaginu sem búast má við að verði framhald á með þeim auknu kröfum til allra innviða sem vaxandi sveitarfélagi fylgir. Að leiðarljósi við þá endurskoðun hefur verið haft að vöxturinn byggir á ferðaþjónustu, sem einkennist af sveiflum og óvissu. Einnig að vægi umhverfismála vegur æ þyngra sem gerir kröfu um betri nýtingu landsins gæða

Kraftur fjölbreytileikans

• „Allir með“ átaksverkefnið heldur áfram með fræðslu og þjálfun í jákvæðum samskiptum
• Hafist verður handa við byggingu nýrra íbúða fyrir fatlaða í samvinnu við Brynju hússjóð
• Sýningahald listasafnsins endurspegli fjölbreytileika samfélagsins
• Aðgengi að Duus safnahúsum verður bætt, nýtt anddyri búið til og lyfta sett upp

Skilvirk þjónusta

• Unnið verður að innleiðingu stafrænna lausna í gegnum samstarfsvettvang sveitarfélaganna
• Íbúalýðræði verður eflt með því að nýta samráðsvefinn „Betri Reykjanesbær“
• Skilvirkara bókasafnskerfi verður sett upp og sjálfsafgreiðsla í bókasafninu efld
• Stafrænt menningarkort verður innleitt
• Heimasíða Reykjanesbæjar verður endurskoðuð
• Ferlar verða endurskoðaðir til að sem flest mál verði leyst í fyrstu snertingu
• Áframhald verður á vinnu skipulagsfulltrúa við að sjálfvirknivæða þjónustu

Í gegnum verkefni sveitarfélagsins verður unnið með tólf af sautján Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stutt við innleiðingu þeirra með beinum og óbeinum hætti.

Reykjanesbær stendur sterkur, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika, og sveitarfélagið mun halda áfram að vaxa og eflast á komandi árum. Jákvæð teikn eru á lofti um að framundan sé veruleg atvinnuuppbygging á svæðinu sem mun til lengri tíma styrkja sveitarfélagið og auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Við viljum þakka starfsmönnum Reykjanesbæjar samskiptin á árinu sem er að líða og óska þeim og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.“

Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2022-2025 er samþykkt með 6 atkvæðum Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Frjáls afls og Miðflokks sitja hjá.

Með því að smella hér má skoða fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2022-2025 


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:25.