05.09.2023 17:00

658. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll 5. september 2023, kl. 17:00

Viðstaddir: Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hana.

Áður en gengið var til dagskrár þakkaði forseti öllum sem tóku þátt í Ljósanótt, íbúum, gestum, styrktaraðilum, starfsfólki og öllum öðrum sem stóðu að dagskrá hátíðarinnar.

1. Fundargerðir bæjarráðs 24. og 31. ágúst 2023 (2023010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbergur Reynisson.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Mál 2 frá fundargerð bæjarráðs frá 31. ágúst 2023:

„Ég fagna því að erindinu sé vísað til Eignasjóðs Reykjanesbæjar. Umbót minnir á í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram í þessu máli að stefna meirihlutans í kjölfar bæjarstjórnarkosninganna að koma 12-18 mánaða börnum inn á leikskóla var algerlega óraunhæf og úr takti við þann veruleika sem blasti við þá sem er ennþá verri í dag. Enda sjáum við að öll börn yfir 2 ára aldri eru ekki komin inn á leikskóla.

Dagforeldrar eru enn mikilvægari hlekkur en áður og ber að gera betur við fjölgun í stéttinni. Umbót telur það ekki forsvaranlegt að fara út í fjárfestingu af þessu tagi á grundvelli grófrar fjárhagsáætlunar og framtíðarsýnar. Dagforeldrar eru nú einn af mikilvægustu hlekkjunum í þeim úrræðum sem í boði gætu verið til að finna lausn á þessu vandamáli. Það er nokkuð ljóst að fara þarf í bráðaaðgerðir og mætti þar huga að frekari stuðningi við dagforeldra. Telur Umbót að það væri hraðvirkasta leiðin til lausnar á vistunarvanda ungra barna.

Enn og aftur tel ég að horfa megi til þeirra gæsluvalla sem allir eru nú komnir úr notkun og koma þar fyrir bráðabirgðahúsnæði fyrir verðandi dagforeldra sem geta ekki boðið upp á gæslu í heimahúsi.“

Mál 4 frá fundargerð bæjarráðs frá 31. ágúst 2023:

„Umbót mun sitja hjá með fyrirvara um forsendur á fjárhagsramma fyrir árið 2024 þar sem fasteignaskattur er óbreyttur og er þetta ansi há skattahækkun fyrir íbúa. Þar er varla hægt að leggja meiri álögur á íbúa.“

Mál 10 frá fundargerð bæjarráðs frá 31. ágúst 2023:

„Ég verð að játa það að ég var mjög hissa á svari skipulagsfulltrúa að enginn rökstuðningur fylgdi umsókn um lóðarstækkun Fitjabrautar 3, þar segir skipulagsfulltrúi Gunnar K. Ottósson “þar sem vísað var í áhuga mögulegra eigenda en engin lýsing á rýmisþörf eða áætlun um uppbyggingu fylgdu umsókn”.

Ég er algerlega ósammála skipulagsfulltrúa. Það kemur fram í umsókn um stækkun lóðar að Fitjabraut 3 að óskað er eftir stækkun vegna fyrirhugaðra aukinna umsvifa á lóðinni en Fasteignafélagið Lón ehf. hefur leigt út húsnæði og lóðina undir starfsemi Umbúðamiðlunar ehf. Er þetta ekki rökstuðningar með umsókn um fyrirhugaða lóðarstækkun? Hvað þarf til frá Fasteignafélaginu Lóni til að umsókn þeirra hefði verði tekin gild?

Ef ekki voru nægileg gögn af hverju var þá ekki óskað eftir frekari gögnum? Ég óska eftir skriflegu svari. Enn og aftur vill Umbót árétta að ávallt þarf að gæta jafnræðis, hlutlægni og tryggja að allir sitji við sama borð.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.

Margrét Þórarinsdóttir (U) situr hjá í máli fjögur í fundargerð bæjarráðs frá 31. ágúst 2023, fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1431. fundar bæjarráðs 24. ágúst 2023
Fundargerð 1432. fundar bæjarráðs 31. ágúst 2023

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 1. september 2023 (2023010014)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 16. júní til sérstakrar samþykktar:

Fjórða mál fundargerðarinnar Valhallarbraut 868 - deiliskipulag (2022060612) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Hraunsvegur 12 - endurupptaka (2023060001) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Stakksbraut 15 - stækkun lóðar (2023080404) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Grófin 19a - fyrirspurn (2023080591) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Hafnargata 23 (2022110326) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Borgarvegur 29 - fyrirspurn um bílastæði (2023080593) samþykkt 11-0 án umræðu.

Fundargerðin samþykkt án umræðu að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 321. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 1. september 2023

3. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 24. ágúst 2023 (2023010013)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Birgitta Rún Birgisdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 277. fundar atvinnu- og hafnarráðs 24. ágúst 2023

4. Fundargerð menntaráðs 25. ágúst 2023 (2023010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 1 frá fundargerð menntaráðs frá 25. ágúst 2023:

„Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir svari við því hvers vegna skólastjórnendur fengu ekki að vita fyrr en nokkrum dögum áður en skólastarf átti að hefjast að 3 – 6 vikur væru í að færanlegar skólastofur yrðu tilbúnar til notkunar og gera þyrfti aðrar ráðstafanir vegna kennslu fyrstu vikurnar.

Framkvæmdin er á vegum bæjarins þrátt fyrir að utanaðkomandi aðili hafi verið eftirlitsaðili og er því ábyrgðin algerlega hjá Reykjanesbæ. Ákvörðunin um að kaupa færanlegar skólastofur var tekin í apríl og því skammur fyrirvari, og teljum við okkur ekki hafa forsendur til að meta seinkun á verklokum. Sjálfstæðisflokkurinn undrast þó að upplýsingar um töfina hafi ekki borist frá Reykjanesbæ til skólanna sem um ræðir þannig að hægt væri að bregðast við tímanlega.“

Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Birgitta Rún Birgisdóttir (D).

Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson, Bjarni Páll Tryggvason, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 364. fundar menntaráðs 25. ágúst 2023

5. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 25. ágúst 2023 (2023010012)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Valgerður Björk Pálsdóttir og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 1 frá fundargerð menningar- og þjónusturáðs frá 25. ágúst 2023

„Við Sjálfstæðismenn óskum eftir því að menningar- og þjónusturáð leggi hið fyrsta í vinnu við auknar merkingar og að fundnar verði leiðir til að auka sýnileika Reykjanesbæjar út á við og þá sérstaklega á þeim samgönguæðum sem liggja til og frá sveitarfélaginu.“

Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Birgitta Rún Birgisdóttir (D).

Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Bjarni Páll Tryggvason, Guðbergur Reynisson, Margrét Þórarinsdóttir, Friðjón Einarsson, Valgerður Björk Pálsdóttir, Margrét A. Sanders, Kjartan Már Kjartansson og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 46. fundar menningar- og þjónusturáðs 25. ágúst 2023

6. Fundargerð sjálfbærniráðs 30. ágúst 2023 (2023010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Valgerður Björk Pálsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 42. fundar sjálfbærniráðs 30. ágúst 2023

7. Breyting á samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar – síðari umræða (2023060022)

Forseti gaf orðið laust.

Breyting á samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar samþykkt án umræðu 11-0.

8. Breyting á erindisbréfi stjórnar Eignasjóðs Reykjanesbæjar (2023050182)

Forseti gaf orðið laust.

Breyting á erindisbréfi stjórnar Eignasjóðs Reykjanesbæjar samþykkt 11-0 án umræðu.

9. Mannauðsstefna Reykjanesbæjar 2023 – fyrri umræða (2023040237)

Forseti gaf orðið laust. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri fylgdi mannauðsstefnunni úr hlaði.

Mannauðsstefnu Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 19. september 2023.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:50.