671. fundur

05.03.2024 17:00

671. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 5. mars 2024, kl. 17:00

Viðstaddir: Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir , Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Guðbergur Reynisson boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hann.

1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 29. febrúar 2024 (2024010003)

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Beinnar leiðar og Umbótar:

Mál 3 frá fundargerð bæjarráðs 29. febrúar:

„Málefni bókasafnsins, staðsetning þess og stækkun til framtíðar hafa verið til umræðu í nokkurn tíma.
Innan stjórnsýslunnar hófst málið formlega í nóvember 2022 þar sem allir fulltrúar bæjarráðs samþykktu að skoða hvort mögulegt væri að flytja bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Málið hefur verið rýnt af starfsfólki sveitarfélagsins, af hönnuði og arkitekt auk bæjarfulltrúa.

Í upphafi voru lagðir til þrír valmöguleikar verkefnisins; að hafa bókasafnið á núverandi stað, að byggja nýtt 2.000 m² húsnæði fyrir bókasafnið eða flytja bókasafnið í Hljómahöll.

Bókasafnið deilir húsnæði með ráðhúsi Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12. Það er þó alveg ljóst að það fyrirkomulag hefur runnið sitt skeið þar sem þröngt er um bæði bókasafnið og starfsemi ráðhússins. Að mati meirihluta bæjarstjórnar auk flokks Umbótar kemur sá valmöguleiki að vera á sama stað því ekki til greina.

Að byggja nýtt 2.000 m² hús fyrir bókasafn er aðlaðandi hugmynd en kallar á rúmlega tveggja milljarða fjárfestingu auk 2-3 ára ferlis við hönnun og byggingu. Þessar fjárhæðir eru ekki innan fjárhagsáætlunar bæjarins og einnig ljóst að vegna þess þrönga kosts sem bókasafnið býr við á Tjarnargötu 12 þarf málið að leysast fyrr. Að mati meirihluta bæjarstjórnar auk flokks Umbótar kemur sá valmöguleiki að byggja nýtt hús því ekki til greina.

Möguleikinn sem þykir bestur út frá þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er að flytja bókasafnið í Hljómahöll og hefur meirihluti bæjarstjórnar auk flokks Umbótar því tekið þá ákvörðun. Í árslok 2024 munu þessar breytingar ganga í gegn sem hefjast á tímabundinni lokun bókasafnsins á Tjarnargötu 12 meðan flutningur milli húsanna fer fram.

Það er afstaða meirihlutans að fjölmörg tækifæri liggja í umræddum flutningum:
• Bókasafnið fer í stærra húsnæði og stækkunin verður rúmlega tvöföld.
• Bókasafnið verður staðsett milli gömlu sveitarfélaganna tveggja, stutt frá miðbæjarkjarnanum í Krossmóa.
• Rútustæði eru stutt frá og því hentugt að nýta almenningssamgöngur.
• Talsvert er af bílastæðum á lóðinni.
• Bókasafnið hefur meiri möguleika á að þróast sem menningar- og samfélagsmiðja bæjarins í takt við markmið þeirra í framtíðarsýn safnsins.
• Möguleiki er á uppbyggingu á svæðinu, til að mynda að setja útileiktæki á lóðina, byggja við Hljómahöll og jafnvel að setja samgöngumiðstöð þar í stað Krossmóa.

Gera má ráð fyrir því að Rokksafnið muni taka breytingum en ýmsir möguleikar eru varðandi framtíð safnsins þó það verði ekki af þeirri stærðargráðu sem það er í dag. Mikilvægt er að stjórnendur þeirra stofnana sem nú verða undir einu þaki vinni áfram í málinu með sviðsstjórum og verkefnastjóra sem ráðinn verður í tímabundið starf í framhaldi af þessari ákvörðun. Starfsemi í Stapa og Bergi verður óbreytt, þ.e. rýmin verða nýtt fyrir skemmtanir og fjölbreytt viðburðahald en auk þess er hægt að nýta umrædd rými fyrir menningarlega starfsemi bókasafnsins þegar salirnir eru ekki í útleigu. Rými tónlistarskólans mun einnig taka einhverjum breytingum og verður samnýtt að einhverju leyti með bókasafninu. Fyrirkomulag á nýtingu hússins í heild verður ákveðið í samvinnu stjórnenda stofnananna með verkefnastjóra.

Í framtíðarsýn bókasafnsins til 2030 kemur fram að bókasafn Reykjanesbæjar er „menningar- og samfélagsmiðja bæjarins“ en með flutningi bókasafnsins í Hljómahöll er hugsunin sú að til framtíðar verði húsnæðið áfram rekið sem menningarmiðstöð Reykjanesbæjar með bókasafni, tónlistarskóla og fjölbreyttu viðburðahaldi fyrir íbúa og gesti Reykjanesbæjar.

Ítrekað er að með flutningunum verður hvergi nærri hætt með viðburðarhald í Stapa og í Bergi og hvatt er til fleiri viðburða og skemmtana fyrir íbúa og gesti.

Tónlistarskólinn mun halda áfram sínu faglega og metnaðarfulla starfi og bókasafnið mun stækka og eflast í starfsemi sinni í hag íbúa Reykjanesbæjar í frábæra menningarhúsinu okkar.“

Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Bjarni Páll Tryggvason (B), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) og Margrét Þórarinsdóttir (U).

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Díana Hilmarsdóttir.

Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð bæjarráðs 29. febrúar:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn því að bókasafnið verði flutt í Hljómahöll og á sama tíma verði Rokksafni Íslands lokað, í ljósi þeirra vinnubragða sem meirihlutinn hefur viðhaft í aðdraganda ákvörðunar sinnar.

Menningarráð hefur þegar boðað að farið verði í stefnumótun menningarhúsa í Reykjanesbæ með það að markmiði að nýta betur húsnæði sveitarfélagsins og efla menningarlíf í bænum. Við teljum með öllu óábyrgt að ákvörðun sem þessi sé tekin áður en slík vinna hefur farið fram og hvetjum meirihlutann að draga ákvörðun sína til baka.“

Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Sanders og Birgitta Rún Birgisdóttir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) óskaði eftir að fram fari atkvæðagreiðsla um að ákvörðun bæjarráðs um að flytja skuli bókasafnið í Hljómahöll verði dregin til baka þar til heildræn sýn á menningarhúsnæði sveitarfélagsins og notkunarmöguleika þess hefur fengist.

Tillagan felld með 8 atkvæðum bæjarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Beinnar leiðar og Umbótar.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon, Margrét A. Sanders, Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Valgerður Björk Pálsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði á móti 3. máli fundargerðar bæjarráðs frá 29. febrúar 2024. Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1456. fundar bæjarráðs 22. febrúar 2024
Fundargerð 1457. fundar bæjarráðs 29. febrúar 2024

2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 23. febrúar og 1. mars 2024 (2024010213)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 23. febrúar til sérstakrar samþykktar.

Áttunda mál fundargerðarinnar Básvegur 11 - aflýsing lóðarleigusamnings (2023060130) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tólfta mál fundargerðarinnar Borholur og lögn - Njarðvíkurheiði (2024020217) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 1. mars til sérstakrar samþykktar.

Sjöunda mál fundargerðarinnar Hólmbergsbraut 13 - endurupptaka máls (2023090353) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Hringbraut 60 - rekstur gistiheimilis (2023100520) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Kópubraut 34 - rekstur gistiheimilis (2023110091) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Vallargata 13 - rekstur gistiheimilis (2023070086) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Hafnarbraut 2 - uppskipting eigna (2024020445) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmtánda mál fundargerðarinnar Breyting á deiliskipulagi - Myllubakkaskóli (2023060243) samþykkt 11-0 án umræðu.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Sigurrós Antonsdóttir.

Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 332. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 23. febrúar 2024
Fundargerð 333. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 1. mars 2024

3. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 15. febrúar 2024 (2024010212)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 7. fundar stjórnar Eignasjóðs 15. febrúar 2024

4. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 22. febrúar 2024 (2024010209)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 52. fundar menningar- og þjónusturáðs 22. febrúar 2024

5. Fundargerð sjálfbærniráðs 28. febrúar 2024 (2024010210)

Forseti tók til máls um fundargerðina og gaf síðan orðið laust um fundargerðina. Enginn fundarmanna tók til máls.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 48. fundar sjálfbærniráðs 28. febrúar 2024


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:55.