298. fundur

27.01.2017 00:00

298. fundur fræðsluráðs var haldinn í Holtaskóla 27. janúar 2017 kl. 08:15.

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Ísak Kristinsson, Helga M. Finnbjörnsdóttir, Hulda Björk Þorkelsdóttir, Ingibjörg Guðjónsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Eðvarð Þór Eðvarðsson fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Sigurborg Magnúsdóttir fulltrúi leikskólakennara, Íris Dröfn Halldórsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Anna Hulda Einarsdóttir fulltrúi FFGÍR, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Sóley Halla Þórhallsdóttir grunnskólafulltrúi sem ritaði fundargerð.
Gestir fundarins voru: Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, Einar Trausti Einarsson, Kolfinna Njálsdóttir og Guðbjörg Rut Þórisdóttir

1. Kynning á Holtaskóla
Eðvarð Þór Eðvarðsson skólastjóri sagði frá Holtaskóla, hvernig hann hefur þróast í gegnum tíðina og helstu áherslum skólans. Í dag eru 445 nemendur í skólanum. Skólastarfið gengur mjög vel, markviss þróunarvinna er í gangi og nemendur skólans eru að ná mjög góðum árangri á fjölmörgum sviðum.

2. Leyfi fyrir dagforeldra (2017010256)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi lagði fram tvær umsóknir um starfsleyfi fyrir dagforeldra, frá Guðmundi Ingibergssyni og Hildi Gylfadóttur. Ingibjörg fór yfir gögn sem fylgdu umsóknunum. Starfsleyfin eru samþykkt með fyrirvara um að heilbrigðiseftirlitið, brunavarnir og byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar taki út húsnæðið og samþykki það. Veitt eru full leyfi til beggja aðila vegna fyrri starfa með þeim fyrirvörum sem settir eru fram.

3. Læsisstefna Reykjanesbæjar (2017010251)
Kolfinna Njálsdóttir og Guðbjörg Rut Þórisdóttir kynntu nýja læsisstefnu Reykjanesbæjar.
Í stefnunni er m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að skólarnir hafi á að skipa vel menntuðu og faglegu starfsfólki. Lögð er áhersla á markvissa lestrarkennslu allan grunnskólann og gott samstarf við foreldra. Sviðsstjóri þakkaði teymisstjórunum fyrir mjög góða vinnu. Fræðsluráð lýstir yfir mikilli ánægju með þessa nýju læsisstefnu.

4. Þjónustusamningur við Fjölbrautarskóla Suðurnesja (2017010273)
Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur kynnti þjónustusamning sem gerður var við Fjölbrautarskóla Suðurnesja í ágúst 2016. Samningurinn felur m.a. í sér að sálfræðingar fræðslusviðs veita nemendum Fjölbrautarskólanum ráðgjöf og stuðningsviðtöl. Nemendur hafa nýtt sér mjög vel þessa þjónustu. Fræðsluráð þakkar kynninguna og lýsir yfir ánægju með þá vinnu sem skólaþjónustan veitir nemendum Fjölbrautarskólans.

5. Þjónustusamningur við Sandgerðisbæ (2017010274)
Helgi sviðsstjóri kynnti nýjan þjónustusamning við Sandgerðisbæ sem hefur verið undirritaður. Með samningnum gera Reykjanesbær og Sandgerðisbær með sér samning um aðkeypta þjónustu af fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

6. Þjónustusamningur við Sveitarfélagið Garð (2017010275)
Helgi sviðsstjóri kynnti drög að þjónustusamning sem verið er að vinna að við Sveitarfélagið Garð.

7. Drög að starfsáætlun fræðslusviðs 2017 (2017010250)
Sviðsstjóri kynnti starfsáætlun fræðslusviðs fyrir árið 2017.
Fræðsluráð staðfestir starfsáætlun fræðslusviðs.

8. Skólaaðstaða í Innri Njarðvík (2017010255)
Helgi sviðsstjóri kynnti áætlun um nýja skólaaðstöðu í Innri Njarðvík.

9. Önnur mál (2017010198)
- Fræðsluráð telur mjög mikilvægt að hlúa vel að kennurum. Fyrirhugaður er fundur með öllum grunnskólakennurum í næstu viku. Kjörnum fulltrúum fræðsluráðs er boðið á þann fund sem verður haldinn með „þjóðfundasniði“ . Þar verður rætt um starf kennarans í víðustu mynd.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerð fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. febrúar 2017.