303. fundur

26.05.2017 00:00

303.fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Hljómahöll þann 26. maí 2017 kl. 08:15.

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Árni Sigfússon, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Sigurborg Magnúsdóttir fulltrúi leikskólakennara, Guðmundur Ingvar Jónsson fulltrúi grunnskólakennara, Íris Kristjánsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Anna Hulda Einarsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Sóley Halla Þórhallsdóttir grunnskólafulltrúi sem ritaði fundargerð. Gestir fundarins voru: Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri Tónlistarskólans undir 1. lið og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir kennsluráðgjafi undir 3. lið.

1. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar (2017050292)
Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri Tónlistarskólans fór í stuttu máli yfir vetrarstarfið sem hefur gengið mjög vel. Í vetur hafa um 840 nemendur verið Tónlistarskólanum, 370 nemendur eru í hljóðfæra- og söngnámi en aðrir eru í forskóla grunnskólanna. Ekki verða miklar breytingar á kennaramálum næsta skólaár og ráðningamál ganga vel. Skólastjóri vék sérstaklega að því að mikil þörf væri á að fjölga stöðugildum við skólann vegna fjölgunar íbúa í bæjarfélaginu. Haraldur lagði fram skóladagatal næsta skólaárs. Skólastarf hefst 25. ágúst og lýkur 31. maí. Fræðsluráð staðfestir skóladagatalið fyrir næsta skólaár. Fræðsluráð þakkar Haraldi mjög fróðlegt erindi.

2. Skóladagatöl leikskóla Reykjanesbæjar (2017050292)
Ingibjörg Bryndís leikskólafulltrúi kynnti skóladagatöl leikskólanna. Öll dagatölin hafa farið fyrir stjórnir foreldrafélaganna. Fræðsluráð staðfestir skóladagatölin.

3. Íslenska sem annað tungumál (20170502899)
Halldóra Fríða kennsluráðgjafi kynnti handbók sem teymi kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál (ÍSAT) í grunnskólum Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis hafa unnið að. Í handbókinni er að finna hugmyndir og leiðbeiningar sem nýta má í kennslu nemenda með íslensku sem annað mál. Einnig er hægt að byggja móttökuáætlun grunnskólanna á þessum hugmyndum. Í handbókinni er að finna ýmsan fróðleik tengdan erlendum nemendum og kennslu í íslensku sem öðru máli. Fræðsluráð þakkar kynninguna og lýsir yfir mikilli ánægju með að slík handbók hafi verið unnin.

4. Erindi frá ÍSAT (2017050290)
Erindi Málefni nemenda í leikskólum Reykjanesbæjar með íslensku sem annað tungumál (ÍSAT).
Helgi sviðsstjóri kynnti erindi frá fulltrúum allra leikskóla í Reykjanesbæ. Í erindinu kemur m.a. fram að mjög mikil fjölgun hefur orðið á undanförnum árum á nemendum með íslensku sem annað tungumál. Til að mæta þessum hópi barna er talið að sértæk úrræði séu nauðsynleg í formi snemmtækrar íhlutunar sem felur m.a. í sér markvissa málörvun og orðaforðakennslu á mikilvægu þroskaskeiði barna. Í bréfinu er óskað eftir aukafjármagn til leikskólanna til að sinna betur þessum börnum. Fræðsluráð tekur undir mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og felur sviðsstjóra að skilgreina betur þennan þátt í þjónustu við nemendur með íslensku sem annað mál í leikskólum. Sviðsstjóri leggur fram tillögur varðandi þetta mál í haust

5. Önnur mál (2017010198)
• Sviðsstjóri fór yfir niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 9. og 10. bekk frá því í vor.
• Sviðsstjóri kynnti niðurstöður frá starfsmannakönnum grunnskólanna í Skólapúlsinum. Fræðsluráð lýsir yfir ánægju með góðar niðurstöður.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. júní 2017.