23. fundur

18.08.2021 08:30

23. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 18. ágúst 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir ýmis atvinnumál.

2. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og kynnti framþróun vinnu við atvinnuþróunarstefnu.

3. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir atvinnuleysistölur.

Alls voru 1.309 eða 11,6% vinnumarkaðar atvinnulaus í lok júlí mánaðar.

Áhrif aukinna umsvifa á Keflavíkurflugvelli hafa haft mikil áhrif á atvinnuleysistölur. Þannig var atvinnuleysi í Reykjanesbæ 24,9 % þegar mest lét um áramót.

Dregið hefur saman með kynjum, alls voru 669 karlar og 640 konur í atvinnuleit um mánaðarmótin. Þegar litið er til atvinnuleysis eftir ríkisfangi voru 628 íslenskir ríkisborgarar atvinnulausir á meðan 681 með erlent ríkisfang voru í atvinnuleit samkvæmt Vinnumálastofnun.

4. 17. júní 2021 (2021050278)

Skýrsla um undirbúning og framkvæmd 17. júní hátíðarhalda lögð fram. Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og fór yfir skýrsluna. Vegna samkomutakmarkana þurfti að leita nýrra leiða við framkvæmdina í ár. Hátíðardagskrá fór fram í skrúðgarðinum. Fánahyllir var Óskar Ívarsson starfsmaður Umhverfismiðstöðvarinnar, ræðumaður dagsins var Ingvar Eyfjörð framkvæmdastjóri Aðaltorgs, setningarræðu flutti Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar og fjallkona var María Tinna Hauksdóttir nýstúdent. Sú nýja leið var farin að bjóða upp á skemmtidagskrá fyrir fjölskyldur á fjórum stöðum í Reykjanesbæ til að dreifa mannfjölda og mæta samkomutakmörkunum. Mikil ánægja reyndist með það fyrirkomulag og fullur vilji til að halda áfram að þróa þá útfærslu. Það liggur þó fyrir að kostnaður við að halda úti dagskrá á fjórum stöðum í stað eins er töluvert hærri og því nauðsynlegt að fjárframlög til hátíðarhaldanna verði hækkuð.

Ráðið þakkar greinargóða skýrslu og mælir með að gert verði ráð fyrir hærra fjárframlagi til 17. júní hátíðarhalda við næstu fjárhagsáætlunargerð. Ráðið færir þakkir öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarhaldanna í ár.

5. Ljósanótt (2021030300)

Menningar- og atvinnuráð tekur undir sjónarmið stýrihóps Ljósanætur og telur sýnt að ekki verði gerlegt að halda Ljósanótt dagana 2 - 5. september n.k. í ljósi þeirra samkomutakmarkana sem nú eru í gildi og útbreiðslu Coronaveirusmita. Ráðið telur mikilvægt að sveitarfélagið sýni ábyrgð og stuðli ekki að óþarfa samsöfnun fólks á óvissutímum. Ráðið leggur því til að hátíðinni 2021 verði aflýst.

Ráðið hvetur til þess að strax verði farið að huga að undirbúningi hátíðarinnar á næsta ári þar sem unnið verði að útfærslum sem taki mið af því að við búum enn við samkomutakmarkanir. Þá mælir ráðið með að farið verði í sérstaka stefnumótun fyrir hátíðina.

6. Skapandi sumarstörf (2021010362)

Verkefnið Skapandi sumarstörf er verkefni á vegum menningarfulltrúa Reykjanesbæjar sem hefur verið unnið í góðu samstarfi við umhverfissvið. Markmið þess er að brjóta upp hversdagsleikann og lífga upp á bæinn með ýmsum leiðum og gefa um leið ungu fólki möguleika til að sinna störfum þar sem reynir á skapandi og lausnamiðaða hugsun. Verkefnið var keyrt í fyrsta sinn síðasta sumar fyrir tilstuðlan styrkjar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það þótti takast það vel að samþykkt var að bjóða upp á það aftur í sumar. Tveir verkefnastjórar, Hildur Hlíf Hilmarsdóttir og Ingvi Hrafn Laxdal, stýrðu starfinu með 15 manna hópi ungmenna 18 ára og eldri. Saman vann hópurinn að 17 mismunandi verkefnum sem lífguðu upp á bæinn í einni eða annarri mynd og var afrakstrinum einnig miðlað á samfélagsmiðlum. Skýrsla unnin af verkefnastjórum var lögð fram þar sem gerð er grein fyrir afrakstri og helstu áskorunum starfsins og hugmyndir að þróun verkefnisins reifaðar.

Ráðið þakkar Hughrifum í bæ fyrir þeirra framlag og hvetur til þess að haldið verði áfram þróun við skapandi sumarstörf. Þá mælir ráðið með að gert verið ráð fyrir viðbótarfjármagni til skapandi sumarstarfa í næstu fjárhagsáætlun.

7. Bókasafn (2021060226)

Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafns Reykjanesbæjar mætti á fundinn og fór yfir drög að húsnæðisþörf fyrir Bókasafn Reykjanesbæjar sem er í takt við samþykkta framtíðarsýn safnsins af bæjarstjórn.

Um starfsemi bókasafnsins gilda bókasafnalög nr. 150/2012. Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna, sem undir lög þessi falla, er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi. Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu.

Bókasafn Reykjanesbæjar er með 1.246 metra af hillum í júlí 2021 og safnið gjörsamlega sprungið miðað við þá þjónustu sem íbúar Reykjanesbæjar eiga að fá að njóta. Til að ná lágmarki þarf safnið að minnsta kosti að fá 1.423 metra af hillum eins og safnkostur er í dag en það gefur safninu samt ekki kost á að þróast með stækkandi samfélagi. Í þessum tölum er ekki reiknað með stærri nærgeymslu en geymslan er 385 hillumetrar í dag og þyrfti að stækka um helming eða 770 hillumetra til að mæta þörfinni. Miðað við meðalfólksfjölgun í Reykjanesbæ skv. byggðaspá Byggðastofnunar til tíu ára eru þarfir safnsins 2.000 metrar af hillum eða 2.800 metrar ef stækkun á geymslu í Ráðhúsi er tekin með. Þá er áætlaður fermetafjöldi safnsins um 2.300 svo að vel sé. Mikilvægt er að styrkja bókasafnið sem aðalsafn.

Reykjanesbær er fjórða stærsta byggðarlagið á landinu, því er mikilvægt að styrkja stoðir bókasafnsins sem aðalsafn miðað við þann fjölda sem safnið á að sinna. Bókasafn Reykjanesbæjar verður óhjákvæmilega leiðandi safn á Suðurnesjum sökum stærðar.

8. Sýningar í Listasafni og Byggðasafni (2021020542)

1. Sýning Steingríms Eyfjörð stendur til og með sunnudagsins 22. ágúst. Listasafn Reykjanesbæjar hvetur þá sem ekki hafa séð sýninguna til að nota tækifærið áður en sýningartíminn rennur út.

Tegundagreining eftir Steingrím Eyfjörð hefur vakið mikla athygli á Listasafni Reykjanesbæjar og Reykjanesbæ sem slíkum. Fjölmiðlaumfjallanir eru eftirfarandi:

1. Heilsíðuviðtal við listamanninn í helgarblaði Morgunblaðsins.
2. Samtal við safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar í Sumarmálum á útvarpi RÚV.
3. Samtal við safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar í Sumarlandanum, sjónvarpað á RÚV.
4. Menningin allur þátturinn, samtal við Steingrím Eyfjörð, Dr. Benedikt Hjartarson, prófessor í menningar- og bókmenntafræði við Háskóla Íslands, Helgu Þórsdóttur safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar. Þátturinn verður sendur út annað hvort þriðjudaginn 17.08.21 eða miðvikudaginn 18.08.21 hjá sjónvarpi RÚV.

Listasafn Reykjanesbæjar gaf út mjög veglega sýningarskrá í tilefni af sýningunni í samstarfi við Steingrím Eyfjörð, listamaðurinn ákvað að setja eigin sæmdarþóknun sem og önnur laun upp í kostnað við gerð sýningarskráarinnar. Útkoman er stórglæsileg bók sem teljast má fengur fyrir listheiminn allan.

2. Listasafn Reykjanesbæjar opnar 2 nýjar sýningar fimmtudaginn 2. september, þær sýningar munu standa til og með sunnudeginum 14. nóvember.

Safnið hefur ákveðið að taka til sýningar gjöf erfingja Bjargar Þorsteinsdóttur myndlistarmanns, til Listasafns Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri er Helga Arnbjörg Pálsdóttir listfræðingur, sem rannsakað hefur og skráð alla gjöfina í Sarp miðlægan gagnagrunn menningar og listasafna á Íslandi.

Safnið telur það mjög viðeigandi að opna sýningu sem hverfist um gjöf Bjargar á þeim degi sem íbúar Reykjanesbæjar halda vanalega bæjarhátíðina Ljósanótt.

Listasafn Reykjanesbæjar mun einnig setja upp sýningu í samstarfi við MULTIS.

MULTIS sérhæfir sig í kynningu, útgáfu og sölu á fjölfeldum íslenskra samtímalistamanna og er markmið MULTIS að gera list aðgengilega almenningi og bjóða upp á myndlist eftir listafólk í fremstu röð íslenskrar samtímalistar.

MULTIS setur fókusinn á fjölfeldi, verk sem gerð eru í a.m.k. þremur eintökum. Þetta geta bæði verið prent og skúlptúrar, allt eftir því hvað hentar hugmynd listamannsins hverju sinni.

Listasafn Reykjanesbæjar ásamt samstarfsaðilum hlakkar til að taka á móti gestum á sýningatímanum.

9. Mælaborð Súlunnar - verkefnastofu (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.

10. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir neyðarstjórnar lagðar fram.

Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 24. ágúst 2021.